Með aukinni vitundarvakningu á undanförnum árum hefur færst í aukana að hönnunarfyrirtæki aðlagi bæði hönnun og framleiðslu sína að umhverfisvænni og sjálfbærari framtíð. Danska hönnunarfyrirtækið Mater hefur síðastliðin 18 ár framleitt tímalausa hönnun á umhverfisvænan hátt, en nýverið kynnti fyrirtækið til leiks umhverfisvænar hillur sem eru einungis gerðar úr endurunnum úrgangsefnum.
Fyrirtækið var stofnað árið 2006 í Kaupmannahöfn af Hendrik Marstrand og var fyrst kynnt á hönnunarsýningunni Maison & Object í París árið 2007. Frá upphafi hefur markmið Marstrand verið að framleiða fallega hönnun á ábyrgan hátt sem lágmarkar skaðleg félagsleg og umhverfisleg áhrif. Reynir fyrirtækið þannig að vekja fólk til sjálfbærrar hugsunar.
Mater hefur síðustu ár hannað húsgögn, lýsingu og aðra húsmuni í samstarf við utanaðkomandi hönnuði sem starfa eftir sömu gildum og fyrirtækið. Edge-hillan er hönnuð af danska hönnunarstúdíóinu SarahLou með einfaldleikann í forgrunni.
Í hilluna er notast við blöndu af rafrænum úrgangi og kaffibaunaúrgangi sem gefur henni skemmtilega áferð sem er í senn einföld og stílhrein. Form hillunnar er mínimalískt, en hún samanstendur af þunnum plötum sem virðast fljóta á veggnum. Hillan nýtur sín bæði ein og sér eða þegar nokkrum er raðað saman, en hún kemur í tveimur litum sem ráðast út frá því hvort ljós eða dökkur kaffibaunaúrgangur var notaður.