Guðrún Olsen, framleiðandi heimildamyndarinnar Soviet Barbara, og Gaukur Úlfarsson, kvikmyndagerðamaður og leikstjóri, hafa sett íbúð sína við Vesturgötu í Vesturbæ Reykjavíkur á sölu. Eignin telur 127 fm og er á fyrstu hæð í tignarlegu fjölbýlishúsi sem reist var árið 1930.
Í íbúðinni er skemmtilegt skipulag og falleg smáatriði í hverju horni sem fanga augað. Aukin lofthæð, marmaragólf og heillandi rósettur og loftlistar einkenna eignina sem hefur verið innréttuð á sjarmerandi máta.
Þrjár stofur eru í íbúðinni og rennihurð á milli þeirra, en þær eru bjartar og rúmgóðar með stórum gluggum sem setja svip sinn á rýmin. Þá má einnig sjá fallega og klassíska hönnunarmuni í íbúðinni, þar á meðal fallegt borðstofuborð og bekk frá Ethnicraft sem prýðir borðstofuna. Það var belgíski hönnuðurinn Alain Van Havre sem hannaði línuna sem kallast Bok, en hann hefur hannað fyrir merkið í yfir 20 ár.
Í sjónvarpsstofunni má svo sjá hinn klassíska Togo-sófa úr brúnu leðri sem er ofarlega á óskalista margra fagurkera, en það var Michel Ducaroy sem hannaði sófann fyrir Ligne Roset árið 1973.
Hlýleg ljós litapalletta flæðir í gegnum flest rými íbúðarinnar og tónar sérlega vel við marmarann á gólfunum, en þegar komið er inn í eldhúsið taka kröftugir litir við og skapa mikinn karakter. Á veggjunum má sjá dökkgrænan lit á meðan svartar og hvítar flísar prýða gólfið.
Eignin státar af þremur svefnherbergjum og tveimur baðherbergjum, en ásett verð er 96,9 milljónir.