Við Kolagötu 3 í Reykjavík er að finna 117 fm glæsiíbúð sem er í húsi sem reist var 2018. Um er að ræða þriggja herbergja lúxusíbúð á fimmtu hæð sem er með aukinni lofthæð.
Íbúðin er sérlega smekklega innréttuð með ljósu fiskibeinaparketi á gólfum og hvítum sprautulökkuðum innréttingum. Stofa og borðstofa renna saman í eitt og er eldhúsinnréttingin eins og bar á hóteli með innbyggðri kaffivél, smart bakaraofni og vínkæli. Eldhúsinnréttingin nær upp í loft sem gerir heildarmyndina fallega.
Íbúðin er í eigu Eignarhaldsfélagsins Samsara slf. sem stofnað var 2021. Félagið er í eigu Elíasar Guðmundssonar framkvæmdastjóra Krýsuvíkur og dóttur hans, Aþenu Elíasdóttur. Elías á 90% í félaginu en Aþena á 10%. Ásett verð er 134.900.000 kr. og er fasteignamat 97.800.000 kr.
Elías hefur komið víða við í veitingahúsabransanum en hann rak veitingastaðina Gló ásamt fyrrverandi eiginkonu sinni. Nú síðast rak hann veitingastaðinn Héðinn Kitchen & Bar en félagið sem rak staðinn, LEV102 ehf., var úrskurðað gjaldþrota 10. janúar á þessu ári.