Fjárfestirinn og einn heitasti piparsveinn Íslands, Árni Hauksson, festi kaup á glæsiíbúð við Geirsgötu 16. janúar á þessu ári. Íbúðin er sérlega glæsileg og vönduð og stór eða 177,5 fm að stærð.
Íbúðirnar við Austurhöfn eru vinsælar hjá hinum efnameiri en helstu auðjöfrar eiga íbúðir í nærliggjandi húsum.
Íbúðin er vel búin sérsmíðuðum innréttingum úr amerískri hnotu sem kemur frá ítalska handverkshúsinu Gili Creations. Innréttingarnar eru að finna í eldhúsi, á baðherbergjum og fataskápum. Kvarts borðplötur eru við eldhúsvask og marmaraflísar prýða eyjuna. Íbúðin er á fjórðu hæð og opnast lyfta beint inn í íbúðina.
Fjallað var um sambærilega íbúð í Heimilislífi á Smartlandi 2020.
Árni og Inga Lind Karlsdóttir, eigandi Skot Productions, fóru í sitthvora áttina síðasta haust og eru nú lögskilin. Hjónin bjuggu saman í glæsihúsi við Mávanes en það er nú alfarið í eigu Ingu Lindar.
Árni greiddi 233.000.000 kr. fyrir íbúðina og er fluttur inn. Árni stendur í ýmsum fjárfestingum þessa dagana. Á dögunum festi hann kaup á smart sumarhúsi og setti einbýlishús sitt á Akureyri á sölu. Það er því ekki hægt að segja annað en það sé líf og fjör í heimabankanum.
Smartland óskar Árna til hamingju með nýja heimilið!