Félagsfræðingurinn Hlédís Maren Guðmundsdóttir og Jón Bjarni Kristjánsson, hæstaréttarlögmaður og ritari í aðalstjórn KR, hafa sett íbúð sína við Ægisgötu í Vesturbæ Reykjavíkur á sölu.
Eignin sem um ræðir er 94 fm að stærð og er á annarri hæð í reisulegu fjölbýlishúsi sem byggt var árið 1954. Hlédís og Jón Bjarni eru greinilega miklir fagurkerar, en íbúðin er algjört augnakonfekt enda hefur hún verið innréttuð á afar sjarmerandi máta.
Á gólfunum er fura sem gefur eigninni mikinn karakter ásamt fallegum loftlistum og rósettum. Kalkmálaðir veggir spila einnig stórt hlutverk í íbúðinni, en mismunandi litir prýða hvert rými og skapar áferðin án efa notalega stemningu.
Mjúkur kalklitur prýðir hluta stofunnar og gefur henni mikinn sjarma, en þar má sjá fallega húsmuni í hverju horni. Frá stofu er gengið inn í svefnherbergi um glerhurð, en þar skapar blár kalklitur róandi andrúmsloft.
Í eldhúsinu eru tvær innréttingar, annars vegar hvít innrétting með flísalögðum vegg og engum efri skápum, og hins vegar dökk há innrétting með innfelldum tækjaskáp. Þessir andstæðu litir búa til skemmtilegan kontrast í rýminu sem er bjart og með góðu skápa- og vinnuplássi.
Við hliðina á eldhúsinu er borðstofa þar sem fallegum bekk hefur verið komið fyrir og notalegri setuaðstöðu. Rýmið er málað í fallegum bleikum kalklit sem gerir án efa mikið fyrir rýmið.