Guðmundur Fertram Sigurjónsson forstjóri Kerecis festi kaup á 80,5 fm íbúð 12. febrúar síðastliðinn við Túngötu 3 á Ísafirði. Hann fékk íbúðina afhenta í febrúar og er hún er á fyrstu hæð í fjögurra íbúða húsi.
Ólafur Ragnar Grímsson fyrrverandi forseti Íslands á íbúð í húsinu en hann festi kaup á henni 20. júlí 2019. Íbúð Ólafs Ragnars er töluvert stærri en íbúð Guðmundar Fertrams eða 139 fm. Ólafur Ragnar á tilfinningalega tengingu við húsið sem er æskuheimili hans.
Húsið var teiknað af Jóni H. Sigmundssyni og byggt á Hatteyri um aldarmótin 1900. Það svar svo tekið niður og endurbyggt við Túngötu og stækkað í leiðinni. Húsið er stundum nefnt Grímshús, eftir Grími Kristgeirssyni, föður Ólafs Ragnars, en hann bjó þar ásamt konu sinni Svanhildi Ólafsdóttur. Fjölskyldan fluttist frá Ísafirði 1953.
Í húsinu eru fjórar íbúðir og eru aðrir eigendur Greipur Gíslason og Gunnar Þór Vilhjálmsson og Ásgeir Guðbjartur Guðbjartsson.
Guðmundur Fertram Sigurjónsson hefur staðið í töluverðum fasteignakaupum upp á síðkastið en Smartland greindi frá því í nóvember á síðasta ári að félag hans hefði fest kaup á glæsihúsi í 101.
Um er að ræða hús við Laufásveg 71 sem var teiknað af Guðjóni Samúelssyni sem teiknaði mörg fögur mannvirki á ferli sínum eins og aðalbyggingu Háskóla Íslands, Hótel Borg, Hávallagötu 24 og Sundhöll Reykjavíkur svo einhver séu nefnd. Það er klassískt og í þeim anda sem var eftirsóttur í kringum 1928 þegar það var teiknað. Það var þó ekki byggt fyrr en nokkrum árum seinna. Aðalhæð hússins er 141 fm að stærð en þar fyrir ofan er 105 fm risíbúð. Í kjallara eru núna tvær íbúðir sem eru 55 og 48 fm og svo er bílskúr meðfylgjandi. Húsið er í heild sinni 454 fm að stærð og var reist 1936. Aðeins ein fjölskylda hefur átt húsið síðan það var byggt en það var Jón Árnason (1885-1977), bankastjóri Landsbanka Íslands, sem bjó í húsinu og hefur því alltaf verið vel við haldið.
Smartland óskar Guðmundi til hamingju með nýju íbúðina!