Hannes Hilmarsson einn af stærstu eigendum Atlanta og eiginkona hans, Guðrún Þráinsdóttir, hafa fest kaup á einbýlishúsi við Mávanes í Garðabæ. Húsið var áður í eigu Ingu Lindar Karladóttur eiganda Skot Productions. Hún byggði húsið ásamt fyrrverandi eiginmanni sínum, Árna Haukssyni, fjárfesti. Þau skildu 7. desember síðastliðinn og kom húsið í hlut Ingu Lindar við skilnaðinn.
Húsið er eitt dýrasta hús Íslands en gildandi fasteignamat er 430.250.000 kr. Smartland hefur heimildir fyrir því að að húsið hafi verið selt á töluvert hærri upphæð en gildandi fasteignamat.
Húsið við Mávanes 17 var teiknað af arkitektastofunni Gláma Kím og byggt 2012. Það hefur að geyma alla helstu töfra sem nokkurt hús getur státað af. Það er við sjávarsíðu Arnarnessins og snýr í suður. Úr húsinu er óhindrað útsýni út á haf og prýða það stórir gluggar sem gera veruna í húsinu ógleymanlega.
„Einbýlishús á tveimur hæðum með stórkostlegu útsýni yfir Arnarnesvoginn út á Reykjanesskagann. Efri hæð hússins er skipulögð í kringum ljósagarð. Þar eru svefnherbergi, baðherbergi, eldhús og fjölskylduherbergi raðað saman. Í vestur frá eldhúsinu er stór borðstofa og formleg stofa. Stór arinn skiptir rýmum upp. Við aðra hlið arinsins er opið stigarými sem tengir efri og neðri hæðina sama,“ segir á heimasíðu Gláma Kím en þar eru að finna fagrar ljósmyndir Nanne Springer sem fangaði fegurð hússins með myndavél sinni.
Smartland óskar Hannesi og Guðrúnu til hamingju með nýja húsið!