10 sparnaðarráð fyrir fermingarveisluna

Í fermingarveislum fortíðarinnar tíðkaðist það að halda veislur heima og …
Í fermingarveislum fortíðarinnar tíðkaðist það að halda veislur heima og voru húsgögn fjarlægð til þess að koma öllum fyrir. Getty Images/Unsplash

Fermingarveislur geta í augum sumra verið heilmikið mál enda þarf að huga að mörgu eins og veitingum, skreytingum, fötum og húsnæði svo fátt eitt sé nefnt. Það er ekki ódýrt í dag að ferma, sér í lagi þegar kaupa þarf allar veitingar út og leigja sal. En það er ýmislegt sem hægt er að gera til að létta á buddunni og gera ferminguna hagkvæmari.

  1. Hægt er að spara heilmikinn pening með því að baka sjálfur. Sniðugt er að baka botna töluvert áður en fermingin á að vera og frysta. Þá á bara eftir að setja kökurnar saman þegar kemur að fermingunni. Kökur sem gott er að frysta eru t.d. marens, svampbotnar, súkkulaðikökubotnar og formkökur.
    Ljósmynd/Calum Lewis/Unsplash
  2. Forðist að nota ber á kökurnar, þau eru mjög dýr. Notið heldur kókósmjöl, súkkulaðikurl, möndluflögur eða kökuskraut sem fæst í miklu úrvali t.d. í Hagkaup.
    David Holifield/Unsplash
  3. Hafið í huga að vera ekki með of margar tegundir af veitingum. Ef fjöldi gesta er mikill er gott að fjölga ekki tegundum heldur hafa frekar 2-3 stykki af hverju og bæta á þegar klárast. Þetta auðveldar vinnuna og hráefnisnýtingin verður betri og þar með ódýrari.
    Getty Images/Unsplash
  4. Þeir sem eiga góða að geta beðið einhverja í fjölskyldunni að hjálpa til við að uppvarta svo ekki þurfi að kaupa út þjónustufólk, einnig mætti biðja einhverja nákomna að baka eitthvað smá, því margt smátt gerir eitt stór.
    Maryam Sicard/Unsplash
  5. Heimagerð salöt og kex, fylla vel upp í á veisluborðinu og túnfiskssalat er alltaf vinsælt og ódýrt. 
    Katie Rosario/Unsplash
  6. Súpa er tilvalin í veislur, hún getur verið saðsöm og ódýr. Mexíkóskar eða taílenskar kjúklingasúpur er ekki flókið að gera en mikilvægt er að fá leigðan eða lánaðan súpupott til að halda heitu. Með súpunni er sniðugt að vera með heimagerðar brauðbollur sem hægt er að gera áður og frysta þar til á fermingardaginn.
    Brooke Lark/Unsplash

     
  7. Sleppið því að kaupa einnota pappadiska og hafið alvöru leirtau, það er bæði umhverfisvænna og ódýrara og það þarf hvort eð er að setja uppþvottavélina nokkrum sinnum í gang eftir veislur.
    Karolina Grabowska/Unsplash
  8. Áætlið magn vel, það er dýrt og óþarfi að sitja uppi með mikið magn af afgöngum. Áætlað er að venjuleg kringlótt kaka sé u.þ.b. 12 sneiðar og þumalputtareglan er að reikna með rúmlega tveimur sneiðum á mann. Af brauðmeti er reiknað með 2-3 snittum á mann og u.þ.b. 2 sneiðum af brauðtertum á mann. 
    Kelly Sikkema/Unsplash
  9. Þegar kemur að skreytingunum er hægt að fara margar leiðir sem þurfa ekki að kosta mikið. Afar fallegt er að kaupa lifandi blóm eins og brúðarslör og setja í lítil glös út um allt borðið. Einnig má klippa brúðarslör niður og nota sem borðskraut á veisluborðið. Vinnið með þema og lit sem góður grunnur er til af á heimilinu. Stórir kertastjakar eru tilvaldir á borðið og til á flestum heimilum, einnig má blanda saman mörgum litlum og dreifa á borðið. Fallegur einfaldur blómvöndur gerir líka mikið auk þess sem hægt er að nota allskonar borða til að skreyta með. Á veggi sem eru auðir til dæmis fyrir ofan veisluborðið er tilvalið að kaupa fánaborða og líma fyrir ofan, það fyllir upp í og gerir mikinn svip án mikils tilkostnaðar. 
    Kelly Neile/Unsplash
  10. Einn stærsti kostnaðarliðurinn í fermingunni er að leigja salinn en það er ekkert að því að halda veisluna heima, það var gert hér áður fyrr nánast undantekningarlaust. Gott ráð er að fá lánaða stóla og lítil borð til dæmis hjá nágrönnum eða fjölskyldu og reyna að nýta öll herbergi vel þannig að það sé góð aðstaða til að borða í fyrir nokkra gesti. Einnig er sniðugt að láta gestina koma á mismunandi tímum, til dæmis frænkur og frændur fyrst og svo vinina. Þröngt mega sáttir sitja!
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda