Rut Káradóttir innanhússarkitekt á heiðurinn af innanhússhönnun í penthouse-íbúð við Bæjarlind í Kópavogi. Íbúðin er 174,9 fm að stærð og var blokkin sjálf reist 2019.
Hvergi var til sparað þegar íbúðin var hönnuð að innan en innanhússarkitektinn hannaði ekki bara eldhúsinnréttingu og baðherbergi heldur hillur sem eru eins og listaverk í stofunni, klæðningar á veggi og aðrar sniðugar lausnir sem gera íbúðina ennþá eigulegri.
Innréttingarnar voru sérsmíðaðar af Smíðaþjónustunni og eru þær úr grábæsaðri eik. Gott skápapláss er í íbúðinni. Steinn er á borðplötunni í eldhúsinu og á eyjunni. Dempaðir litir prýða íbúðina og sagði Rut í viðtali við blaðamann árið 2022 að þetta væri svona Miðjarðarhafs-íbúð.
„Mig langaði að hanna nútímalega en hlýlega íbúð í einhvers konar „Miðjarðarhafs“-anda sem skilaði sér í efnisvali og stemningu. Á yfirborðinu kann íbúðin að virka látlaus og „plain“ en þegar betur er að gáð eru ýmsir litlir hönnunarþættir sem skapa stóru myndina. Íbúðin hefur ljóst yfirbragð, þar sem blandað er saman grófri „crustal“ áferð á veggjum og grófum „Travertin“-flísum á móti fínlegum ljósum viðarinnréttingum og fallegum ljósum hörgluggatjöldum. Þá er strigi notaður á nokkra veggi og ýmsir fylgihlutir og plöntur til að klára heildarmyndina,“ sagði Rut.
Það eru ljósir litir á veggjum og innréttingar í ljósari kantinum? Hvaða við notar þú í innréttingar?
„Ég var búin að vera til með þessa efnis- og litapallettu í kollinum í langan tíma og var orðin spennt að fá tækifæri til að nota hana í verkefni. Mig langaði í ljósar innréttingar úr eik og vildi passa að hafa hana hlýja en alls ekki gula. Ég vann með frábæru innréttingafyrirtæki í þessu verkefni og þeir gerðu fyrir mig ótal prufur áður en við urðum sátt við útkomuna,“ segir Rut en fyrirtækið sem smíðaði allar innréttingar í íbúðina heitir Smíðaþjónustan. Borðplöturnar koma hins vegar frá Fígaró. Rut segist hafa valið þennan stein á borðplöturnar til þess að það væri meira líf í hönnuninni.
„Ég vildi gæta þess að allt efnisvalið væri ljóst og létt án þess að útkoman yrði of flöt. Borðplatan sem varð fyrir valinu fannst mér tóna frábærlega við annað efnisval í íbúðinni,“ segir Rut.