Guðbjörg Sigurðardóttir kvikmyndaframleiðandi hefur selt íbúð sína við Reykjastræti 5 í Reykjavík.
Um er að ræða 148,7 fm íbúð sem er í blokk sem reist var 2019. Guðbjörg greiddi 207.000.000 kr. fyrir íbúðina þegar hún keypti hana 11. mars 2022.
Nú hefur hún selt íbúðina á 230.000.000 kr. Kaupendurnir eru Árni Arnarson og Herdís Karlsdóttir.
„Lyfta opnast beint inn í íbúðina. Þrjú svefnherbergi og þrjú baðherbergi eru í íbúðinni. Herbergin skiptast í tvær svítur með baðherbergi inn af og þriðja herbergið sem mætti nota sem skrifstofuherbergi. Þriðja baðherbergið er gestasnyrting. Stofan er opin í gegnum íbúðina miðja með eldhúsi og borðstofu í hinn endann,“ sagði í fasteignaauglýsingu á fasteignavef mbl.is þegar íbúðin var sett á sölu.
„Tvær svalir eru í sitthvorum endanum í íbúðinni! Aðrar svalirnar úr stofunni snúa út í sér garð fyrir íbúa og hinar svalirnar eru út frá eldhúsi/borðstofu með útsýni að Hörpunni og einnig að Hallgrímskirkju. Tvö sérmerkt bílastæði eru í sér bílakjallara fyrir húsið sem er innangengt í og úr húsi.“
Árni Arnarson og Herdís Karlsdóttir reka fyrirtækið Vinnuföt ehf. Þau bjuggu áður við Kolagötu 3 en seldu íbúðina á dögunum. Kaupandi íbúðarinnar er tónlistarmaðurinn Högni Egilsson en hann greiddi 131.000.000 kr. fyrir íbúðina.
Smartland óskar Árna og Herdísi til hamingju með íbúðina!