Magnús Sigurbjörnsson forstöðumaður Rannsóknarseturs verslunarinnar (RSV) hefur sett glæsilega íbúð sína við Kolagötu í Reykjavík á sölu. Magnús og kærasta hans, Aðalbjörg Guðmundsdóttir námsráðgjafi í Háskóla Íslands, hafa komið sér vel fyrir í íbúðinni ásamt syni sínum, en nú hyggjast þau flytja og því er íbúðin komin á sölu.
Um er að ræða 81 fm íbúð sem er í einu af húsunum við Hafnartorg í Reykjavík en húsið var reist 2018.
Í eldhúsinu er hvít innrétting með corian-borðplötu og myndarlegri eyju með helluborði og vínkæli. Gott skápapláss er í eldhúsinu og ná skáparnir upp í loft sem eykur fegurðina. Eldhúsið og stofan eru í opnu rými og er pláss fyrir stórt borðstofuborð og auðvitað stofuhúsgögn. Út af rýminu eru skjólsælar svalir sem snúa í suður.
Heimili Magnúsar og Aðalbjargar er smekklega samsett með fallegum húsgögnum og listaverkum. Gólfsíðar gardínur setja svip sinn á íbúðina en þær eru með nýtískulegri rykkingu sem er móðins núna.
Í íbúðinni eru tvö baðherbergi með vel hönnuðum hvítum innréttingum og marmaraflísum á veggjum.