Við Holtsbúð í Garðabæ er eð finna einstaklega snoturt einbýlishús sem reist var 1975. Húsið er 274 fm að stærð og sérlega vandað og eigulegt. Í húsinu eru fimm svefnherbergi og þrjú baðherbergi.
Í eldhúsinu er nýleg grá sprautulökkuð innrétting með fallegum borðplötum úr steini. Tækjaskápur og risastór eyja prýða eldhúsið og er auðvelt að töfra fram kræsingar því vinnupláss er ríkulegt og skápapláss ennþá ríkulegra.
Eldhúsið tengist inn í borðstofu og stofu. Í borðstofunni setur Secto-ljósið svip sinn á rýmið en það töfrar fram mjúka birtu.
Í stofunni er ferlega skemmtilegur myndaveggur með listaverkum úr ólíkum áttum. Útsaumsverk í bland við málverk gefa veggnum heillandi yfirbragð en punkturinn yfir i-ið er án efa Flos-veggljósið sem hægt er að draga fram og snúa í allar áttir til þess að framkalla réttu birtuna.