Guðmundur Marteinsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Bónus, og eiginkona hans, Ingibjörg B. Halldórsdóttir, hafa fest kaup á lúxusíbúð í Kópavogi. Um er að ræða einstaka íbúð sem Rut Káradóttir innanhússarkitekt hannaði frá A-Ö og hefur íbúðin verið til umfjöllunar á Smartlandi. Hjónin greiddu 190.000.000 kr. fyrir íbúðina og fylgja öll gluggatjöld með í kaupunum og líka veggljós.
Íbúðin er 174,9 fm að stærð og er í blokk sem reist var 2019. Hvergi var til sparað þegar íbúðin var hönnuð að innan en innanhússarkitektinn hannaði ekki bara eldhúsinnréttingu og baðherbergi heldur hillur sem eru eins og listaverk í stofunni, klæðningar á veggi og aðrar sniðugar lausnir sem gera íbúðina enn þá eigulegri.
Innréttingarnar voru sérsmíðaðar af Smíðaþjónustunni og eru þær úr grábæsaðri eik. Gott skápapláss er í íbúðinni. Steinn er á borðplötunni í eldhúsinu og á eyjunni. Dempaðir litir prýða íbúðina og sagði Rut í viðtali við blaðamann árið 2022 að þetta væri svona Miðjarðarhafs-íbúð.
Smartland óskar Guðmundi og Ingibjörgu til hamingju með nýju íbúðina!