Fagurkerar innréttuðu draumahúsið í Hafnarfirði

Rakel Rúnarsdóttir er mikill fagurkeri, en hún hefur undanfarin ár …
Rakel Rúnarsdóttir er mikill fagurkeri, en hún hefur undanfarin ár verið í heilmiklum framkvæmdum ásamt manninum sínum. Samsett mynd

Rekstrarverkfræðingurinn Rakel Rúnarsdóttir og eiginmaður hennar, Andri Ford, sjúkraþjálfari og kírópraktor, festu óvænt kaup á draumaeigninni sumarið 2016. Á þeim tíma voru þau búsett í Bretlandi en stefndu að því að flytja heim á næstu árum. Þau ákváðu í gamni sínu að fara og skoða endaraðhús sem þau sáu til sölu í Hafnarfirði og kolféllu fyrir því.

Ári síðar, eða sumarið 2017, fluttu þau inn í húsið og settu sér fimm ára plan um að taka húsið í gegn frá a til ö. Í dag hafa þau komið sér vel fyrir í húsinu ásamt börnunum sínum þremur, þeim Emil Patrik, Evelyn Ölbu og Ísaki Hinriki, og hafa lokið framkvæmdunum að mestu. Það sést langar leiðir að í húsinu búa miklir fagurkerar enda er útkoman afar glæsileg.

Útkoman er sannarlega glæsileg.
Útkoman er sannarlega glæsileg. mbl.is/Kristinn Magnússon

Kaupin á húsinu virðast hafa verið skrifuð í skýin enda ekki beint eignin sem þau höfðu séð fyrir sér að yrði þeirra fyrsta eign. Ofan á það var þeim tilkynnt að eignin væri seld þegar þau skoðuðu hana. „Við vorum aðeins farin að líta í kringum okkur hér heima þegar Andri sá þetta hús á fasteignasíðunum fyrir tilviljun. Hann hafði leigt herbergi í því á sínum háskólaárum og hafði hugsað þá að hann væri alveg til í að eiga húsið einn daginn. Það fór svo að við fórum að skoða það, eiginlega í hálfgerðu „flippi“ þar sem þetta var vissulega vel yfir „budgeti“ og ekki það sem við höfðum séð fyrir okkur sem fyrstu eign,“ útskýrir Rakel.

Svo virðist sem kaupin hafi verið skrifuð í skýin.
Svo virðist sem kaupin hafi verið skrifuð í skýin. mbl.is/Kristinn Magnússon

Eftir að hafa skoðað húsið varð hins vegar ekki aftur snúið því Rakel og Andri kolféllu fyrir því. „Fasteignasalinn sem var með eignina á sölu var í sumarfríi þegar við óskuðum eftir skoðun svo það fór svo að maður sem var að leigja húsið á þessum tíma sýndi okkur það. Hann sagði okkur í miðri skoðun að hann héldi að húsið væri selt, sem reyndist svo rétt, nema væntanlegir kaupendur voru enn í fjármögnunarferli. Við vorum svo staðráðin í að kaupa þetta hús að við hringdum í fasteignasalann daglega til að fá fréttir en hann sagði okkur að gleyma þessu húsi bara,“ segir Rakel.

Rakel og Andri kolféllu fyrir eigninni.
Rakel og Andri kolféllu fyrir eigninni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Um það bil tveimur vikum síðar, þegar Rakel og Andri voru heima með fimm daga gamalt barn, hringdi fasteignasalinn svo óvænt í þau. „Hann tilkynnti okkur að seljendurnir væru tilbúnir að selja okkur húsið ef við myndum mæta strax og bjóða uppsett verð. Sem og við gerðum. Við leigðum það svo út í eitt ár á meðan við kláruðum dvöl okkar úti og fluttum svo inn sumarið 2017,“ segir hún.

Fjölskyldan flutti inn í húsið árið 2017.
Fjölskyldan flutti inn í húsið árið 2017. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við áttum engan pening“

Húsið er endaraðhús í botnlanga og er rúmir 200 fm, en það státar af fjórum svefnherbergjum og tveimur baðherbergjum. „Það sem heillaði okkur helst við húsið voru gólfsíðu gluggarnir, birtan, lofthæðin, innra skipulagið og staðsetningin,“ segir Rakel, en hún er fædd og uppalin í Hafnarfirði og segir því ekkert annað hafa komið til greina en að festa rætur þar.

„Andri var sem betur fer til í það. Við enduðum í sama hverfi og ég ólst upp í svo börnin okkar eru í sama skóla og ég var í sem er mjög skemmtilegt. Staðsetningin er æðisleg, rétt hjá hverfisskólanum, leikskóla og stutt fyrir okkur að labba niður í miðbæ Hafnarfjarðar,“ segir hún.

Rakel er fædd og uppalin í Hafnarfirði og því kom …
Rakel er fædd og uppalin í Hafnarfirði og því kom ekkert annað til greina en að kaupa eign þar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þegar fjölskyldan flutti inn í húsið voru þau nýflutt heim til Íslands eftir fimm ára dvöl erlendis þar sem þau voru til skiptis í námi. „Við áttum því engan pening svo við settum okkur fimm ára plan um að gera húsið upp. Við byrjuðum á að gera upp íbúð sem var í bílskúrnum, fórum svo í allt ytri byrði hússins – glugga, hurðir, þakviðgerðir, múrviðgerðir o.fl. Svo tókum við bakgarðinn í gegn, jarðvegsskiptum, settum upp skjólvegg og pall o.fl.,“ útskýrir Rakel.

„Næst var komið að því skemmtilega – við byrjuðum á að strípa efri hæð hússins þar sem barnaherbergin, sjónvarpsherbergið og minna baðherbergið eru. Við fjögurra manna fjölskyldan bjuggum þá saman í einu herbergi á neðri hæðinni í þrjá mánuði. Ári síðar tókum við svo stærra baðherbergi hússins í gegn og ári eftir það fórum við svo í okkar stærstu framkvæmdir þegar við tókum neðri hæðina í gegn, sem er aðalhæð hússins. Þar var allt hreinsað út, skipulagi breytt, skipt um lagnir, gólfhiti lagður, nýtt gólfefni, hurðir, innréttingar, arninum breytt o.fl. Þessar framkvæmdir tóku um 4 mánuði,“ bætir hún við.

Rakel og Andri byrjuðu á því að gera ytra byrði …
Rakel og Andri byrjuðu á því að gera ytra byrði hússins upp. mbl.is/Kristinn Magnússon

Síðustu ár hafa því sannarlega verið viðburðarík hjá fjölskyldunni og segir Rakel þau hjónin hafa lært mikið af ferlinu. „Við erum orðnir algjör reynsluboltar í framkvæmdum. Eins og allir vita sem hafa farið í gegnum svona þá er þetta ógeðslega erfitt á köflum. Okkur finnst þetta samt svo skemmtilegt svo það hélt okkur gangandi og við værum alveg til í svona verkefni aftur. Það kom sér vel að hafa gert þetta í mörgum skrefum, en við erum búin að fara í gegnum marga iðnaðarmenn og höfum fundið þá bestu í bransanum sem við ríghöldum í. Í síðustu framkvæmdinni ákváðum við að fá eitt fyrirtæki í allt verkið í stað þess að vera að tengja saman marga iðnaðarmenn og við vorum mjög ánægð með það,“ segir hún.

Rakel og Andri eru orðnir miklir reynsluboltar þegar kemur að …
Rakel og Andri eru orðnir miklir reynsluboltar þegar kemur að framkvæmdum. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við vorum með ákveðna sýn áður en við fórum af stað“

Rakel er óneitanlega mikill fagurkeri með einstakt auga fyrir fallegri hönnun sem hefur komið sér vel í framkvæmdunum síðustu ár. „Ég er mikill innanhússperri og hef verið lengi. Ég les öll innanhússtímarit sem ég kemst í og eyði óhóflegum tíma á Pinterest og Instagram að skoða hús og heimili. Við vorum með ákveðna sýn áður en við fórum af stað með verkefnið og held að okkur hafi tekist nokkuð vel að halda í hana,“ segir hún.

Rakel hefur valið inn á heimilið af mikilli kostgæfni og greinilegt að hvert smáatriði er útpælt. Falleg litapalletta flæðir í gegnum eignina þar sem bæði efniviður, áferð og litir úr náttúrunni spila lykilhlutverk. Veggir og loft eru máluð í ljósgráum/beige-lit, en Rakel vildi fá lit sem væri það ljós og hlutlaus að hann væri næstum því hvítur, en þó ekki hvítur. „Flísarnar eru ljósar með grófri áferð og tókum við þær extra stórar sem kemur rosalega vel út. Parketið okkar er eikarparket sem var svo lakkað með möttu lakki. Við fórum fram og til baka með hvort við ættum að fá okkur viðarparket eða harðparket, enda með fullt hús af börnum og hund. Við enduðum í viðarparketinu og sjáum alls ekki eftir því – ég held að það væri erfitt að fara til baka í harðparketið,“ segir hún.

Hundurinn á heimilinu virðist vera afar sáttur með val á …
Hundurinn á heimilinu virðist vera afar sáttur með val á húsgögnum í stofunni, enda er Rakel með sérlega gott auga fyrir fallegri hönnun. mbl.is/Kristinn Magnússon

Í eldhúsi og á baðherbergjum urðu innréttingar í dökkbæsaðri eik fyrir valinu ásamt hvítum kvarssteini með dökkum æðum frá Granítsmiðjunni. Á arinhillunni í stofunni má svo sjá marmara í grábrúnum lit sem fangar augað samstundis.

„Húsgögnin okkar eru héðan og þaðan. Þegar við fluttum til landsins árið 2017 tókum við með okkur gám með húsgögnunum okkar, en þar sem við höfðum áður búið í mjög litlu bresku húsi voru flest okkar húsgögn í takt við það – lítil og nett. Það var því alveg kominn tími á að endurnýja flest húsgögnin okkar sem við gerðum smátt og smátt eftir framkvæmdirnar,“ segir Rakel.

Eldhúsið er rúmgott með góðu skápa- og vinnuplássi.
Eldhúsið er rúmgott með góðu skápa- og vinnuplássi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Áttu þér uppáhaldsstað á heimilinu?

„Fagurfræðilega séð er það eflaust stofan, við erum mjög ánægð með hvernig hún tókst til. En staðurinn sem er notalegast að vera á er klárlega herbergi 13 ára unglingsins okkar. Þar söfnumst við fjölskyldan ansi oft saman og horfum á sjónvarpið eða spjöllum.“

Fallegur marmari grípur augað í stofunni.
Fallegur marmari grípur augað í stofunni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hvað er efst á óskalistanum þínum fyrir heimilið?

„Ætli nýir borðstofustólar séu ekki næstir á innkaupalistanum – einhverjir mjúkir og þægilegir þar sem núverandi stólar bjóða ekki upp á langa setu í einu. Svo dreymir mig líka um rafmagnsrúm, eins og allt miðaldra fólk.“

Stólar eru efst á óskalista Rakelar.
Stólar eru efst á óskalista Rakelar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Er eitthvað sem þú hefðir viljað gera öðruvísi þegar þú lítur til baka?

„Við erum með mottó: „Do it once, do it well“. Með það að leiðarljósi höfum við frekar beðið með hlutina og safnað okkur fyrir þeim í staðinn fyrir að gera eitthvað tímabundið sem er ódýrara. Í stærstu framkvæmdunum þegar peningarnir og þolinmæðin var að klárast þá voru alveg einhverjar ákvarðanir sem voru teknar sem hefði mátt endurskoða. En svona á heildina litið erum við mjög sátt með þetta, enda eyddum við (ég) gríðarlegum tíma í að hanna þetta, plana og skoða þá möguleika sem voru í boði.“

Rakel og Andri eru með gott mottó sem þau höfðu …
Rakel og Andri eru með gott mottó sem þau höfðu að leiðarljósi í framkvæmdunum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hvað er fram undan hjá ykkur?

„Við eigum ennþá eftir að klára innkeyrsluna og framgarðinn. Nennum því verkefni tæpast í sumar svo líklega fær það að bíða til næsta árs.“

Á baðherberginu er afar notaleg stemning.
Á baðherberginu er afar notaleg stemning. mbl.is/Kristinn Magnússon
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda