Krúttlegt einbýli er draumurinn

Förðunarfræðingur Bára Jónsdóttir er löggiltur fasteignasali en hún segir atvinnugreinarnar …
Förðunarfræðingur Bára Jónsdóttir er löggiltur fasteignasali en hún segir atvinnugreinarnar eiga margt sameiginlegt. Hér er hún með hundunum sínum Gucci og Dimmu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Bára Jónsdóttir hefur verið þekkt um árabil í förðunarheiminum sem förðunarfræðingurinn Bára Beauty. Nú er hún hins vegar líka orðin löggiltur fasteignasali og starfar á fasteignasölunni Remax. Hún segist hafa komið sjálfri sér á óvart í náminu sem var krefjandi.

„Ég hef alltaf haft áhuga á fallegum heimilum og í gegnum tíðina hef ég mjög mikið horft á fasteignasala úti í heimi á YouTube vera að sýna allskyns glæsivillur sem og íbúðir alls staðar frá. Það var svona áður en Netflix fór að sýna þættina Selling Sunset og alla þættina í kringum það,“ segir Bára og hlær þegar hún er spurð út í fasteignaáhugann.

„En ég hef í rauninni líka alltaf unnið við eitthvert starf sem tengist sölu og markaðssetningu, og gat ég í rauninni ekki séð mig fyrir mér í betra starfi en sem fasteignasali þar sem áhugamál mín tengjast í eitt. Stíll, markaðssetning og sala, þetta tengist allt í þessari vinnu. Það kom fólki ekki endilega á óvart að ég færi þessa leið en ég myndi segja að ég hafi komið sjálfri mér svolítið á óvart því námið var auðvitað mjög krefjandi og mikil lögfræði sem ég hafði síðan bara rosalega gaman af. Þetta stangast svolítið á við alla mína skólagöngu þar sem ég fór á náttúrufræðibraut og á yngri árum ætlaði ég alltaf að verða dýralæknir. Svo að já, ég hafði gaman af lögfræði og íhugaði að halda áfram og fara alla leið í lögfræðinni. En eins og staðan er núna þá langar mig ekki að vinna sem lögfræðingur svo að ég er heldur betur sátt með starf mitt sem fasteignasali hjá Remax.“

Ertu komin í draumaeignina eða veistu hvernig draumaeignin þín er?

„Draumaeignin mín er lítið krúttlegt einbýli, svipað og ég ólst upp í á Ísafirði þar sem dýr og börn geta leikið sér úti í garði. En ég sé það kannski frekar fyrir mér þegar maður er kominn með fjölskyldu. Ætli ég þurfi ekki að finna prinsinn á hvíta hestinum fyrst.“

Heimilið er þar sem fjölskyldan er

Hvað finnst þér gera íbúð eða hús að fallegu heimili?

„Falleg eign getur verið óháð stærð, aldri og gerð. Að hugsa vel um heimilið, halda því vel við er stór þáttur í því. Og auðvitað er alltaf sagt að heimilið sé þar sem fjölskyldan er, svo að mér finnst mjög notalegt þegar persónulegir hlutir fá að njóta sín.“

Hvernig finnst þér fasteignamarkaðurinn vera í dag?

„Það er mikill munur á markaðinum frá því fyrir áramót. Það eru auðvitað margir þættir sem koma þar við sögu en eins og staðan er núna þá er vöntun á húsnæði og framboð allt of lítið. Það seljast fasteignir á hverjum degi en líklega helmingi færri miðað við eðlilegan markað.“

Hvernig eignir eru vinsælar um þessar mundir?

„Ég myndi segja að eignir fyrir fyrstu kaupendur séu mjög vinsælar. Það hefur verið mikil eftirspurn eftir þeim, enda framboð lítið.“

Falleg heimili geta verið af hvaða stærð, gerð og aldri …
Falleg heimili geta verið af hvaða stærð, gerð og aldri sem er, að sögn Báru Jónsdóttur fasteignasala. mbl.is/Kristinn Magnússon

Góð samskipti skipta máli

Hvernig er líf fasteignasalans?

„Það eru í rauninni engir dagar alveg eins. Vinna fasteignasalans snýst um að hafa samband við fólk og hitta fólk, verðmeta eignir og halda opin hús. Ég er mjög mikið út um allt. En þess á milli er ég á skrifstofunni minni á Remax.“

Er eitthvað líkt því að starfa sem fasteignasali og að vera á kafi í förðunarbransanum?

„Ég er ennþá í förðunarbransanum og tek að mér förðun við öll tækifæri. Ég hef rosalega gaman af því að farða og mér finnst líka alltaf jafn gaman að gera förðunarmyndbönd fyrir TikTok og Instagram. Það sem ég myndi segja að væri líkt með förðunarbransanum og fasteignabransanum er að í báðum þessum atvinnugreinum þarf að eiga góð samskipti við kúnnann, kunna að leiðbeina honum sem og mæta þörfum hans. Það þarf að vera áreiðanleiki, traust og góð samskipti. Og síðan auðvitað að hafa auga fyrir stíl hvort sem það er í förðuninni, markaðssetningu eða fasteignabransanum.“

Húðumhirða er í tísku

Bára segist enn fylgjast vel með förðunarheiminum og er ekkert að fara hætta þó svo að hún sé komin með annan fótinn í fasteignaheiminn.

„Það sem er hvað mest inni í dag og í sumar er þetta frísklega „glowing“ útlit. Kinnaliturinn kemur mjög sterkur inn og jafnvel teiknaðar freknur. Minni týpur af augnhárum sem gjarnan eru bara hálf eða aðeins í ytri krók til að gera augun meira eins og kisuaugu. En einnig hefur 90's-förðun verið að smeygja sér inn ásamt 90's-tískunni. Svo myndi ég segja að húðumhirða sé rosalega heit núna. Það eru bara allir með milljón krem, serum, olíur, maska og hreinsivörur.“

Hvernig málar þú þig áður en þú ferð í vinnuna?

„Ég mála mig alltaf mjög létt dagsdaglega svona miðað við hvernig ég mála mig þegar ég fer eitthvað fínt út um helgar. Ég nota andlits-tan-dropa um einu sinni til tvisvar í viku sem ég set á mig að kvöldi til og það gerir húðina svo frísklega. Síðan nota ég örlítinn hyljara undir augun, smá kinnalit, gloss á varirnar, fylli í augabrúnirnar og skelli á mig svona stuttum/hálfum gerviaugnhárum.“

Hvernig á að halda útlitinu frísklegu í sumar?

„Drekka nóg af vatni er númer eitt, tvö og þrjú. Byrja á því að hugsa um sig innan frá. Svo eru auðvitað vörur eins og gott rakakrem og serum, fallegar brúnkuvörur og bronzerar sem gefa manni frísklegt útlit. En við skulum ekki gleyma sólarvörninni. Það eru til margar förðunarvörur sem innihalda góða sólarvörn sem ég mæli með að hafa á bak við eyrað,“ segir Bára.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda