Iðnhönnuðurinn Sigga Heimis segir í viðtali við Dagmál Morgunblaðsins að Ísland þurfi að koma sér upp stefnu um hvað það vill standa fyrir. Íslendingar bera ekki nægilega mikla virðingu fyrir hönnun og finnst í lagi að kaupa falsaðar töskur, klúta og slæður en líka fölsuð lyf, barnaleikföng og vodka. Hvað er hægt að gera til að breyta þessu?
Sigríður Heimisdóttir, eða Sigga Heimis eins og hún er jafnan kölluð, lærði iðnhönnun á Ítalíu og útskrifaðist 1994. Fljótlega eftir útskrift fékk hún vinnu hjá IKEA og vann þar í tíu ár. Þá réð hún sig sem hönnunarstjóra hjá Fritz Hansen, sem framleiðir margar af þekktustu hönnunarvörum Dana eins og afurðir Arne Jacobsen. Svo sneri hún aftur til IKEA og var hönnunarstjóri þar um tíma. Í dag starfar hún sjálfstætt og er ráðgjafi hjá erlendum og íslenskum fyrirtækjum. Hún hannaði til dæmis skrifstofur Hugverkastofu og í framhaldinu var hún beðin um að setja saman sýningu þar sem sýndar voru samskonar vörur sem voru annars vegar ekta og hins vegar feik.
„Ég fékk það skemmtilega verkefni að teikna skrifstofur Hugverkastofu og átti gott samstarf við fólkið þar. Þau báðu mig um að gera þessa sýningu fyrir HönnunarMars til þess að vekja fólk til umhugsunar um vörur sem við erum að kaupa og um uppruna þeirra. Það er í raun alveg ótrúlega áhugavert og dálítið óhugnanlegt hvað kom út úr þessari vinnu. Við fengum aðstoð frá alþjóðlegu hugverkastofunni. Það sem kom mér á óvart er að þessar eftirlíkingar eiga ekki bara við einhverjar töskur, trefla og slæður og eitthvað slíkt, heldur er þetta miklu víðar. Það er til dæmis mjög stór svartamarkaður með lyf og það er eitthvað sem við viljum aldeilis vita hvaðan kemur. Það er ýmislegt í matvælaiðnaðnum sem tengist þessu. Við vorum til dæmis með vodkaflösku á sýningunni,“ segir Sigga.
Er hægt að kaupa feik vodka?
„Já, þetta er í dreifingu. Þess vegna skiptir máli hverjir eru endursöluaðilar. Því auðvitað taka endursöluaðilar mikla ábyrgð. Í dag er hægt að kópera allt. Við vorum með leikföng á sýningunni og við verðum að vita hvaðan þau koma. Litlu krílin eru að handfjatla þetta,“ segir Sigga sem sökkti sér ofan í verkefnið meðan á því stóð.
„Ég hef verið heilmikið að stúdera þetta en ég viðurkenni að þetta kom mér á óvart. Mér leið ekki vel þegar ég sá hvernig viðskiptin eru á bak við þetta erlendis. Það er skipulögð glæpastarfsemi á bak við þetta. Það er eitthvað sem við verðum að tala um,“ segir Sigga.
Hvar er verið að selja allt þetta feik dót?
„Þetta er miklu víðar en við höldum,“ segir hún.
„Þess vegna er svo mikilvægt að þeir sem eru að selja þessar vörur axli ábyrgð. Við erum hér á eyju, þótt við höfum betri leið til að verja okkur gangvart þessu, þá eru póstsamgöngur allt öðruvísi en þær voru. Þegar ég var að byrja í hönnunarbransanum var tollurinn að stoppa heilu gámana af kóperingum af hönnunarvörum. Allt sendikerfi er miklu flóknara í dag,“ segir hún og bendir á að öll þessi vörukaup á erlendum vefsíðum flæði inn í landið án þess að það sé nægilegt eftirlit með því.
„Það sem getur gert mest er að fræða almenning. Við getum sett boð og bönn og búið til Grýlu hér og þar en það virkar ekki. Við eigum mjög erfitt með að stoppa innflutning og þess vegna þurfum við að fræðast og fræða börnin okkar. Fræða fólkið í kringum okkur og forðast algerlega að kaupa kóperingar. Við Íslendingar þurfum að fara í gyrða okkur í brók. Danir eru alveg frábærir með þetta því það er borin svo mikil virðing fyrir hönnunarvörum í Danmörku. Þá er ég ekki að tala bara um egg eða svani heldur handverk almennt og innihald. Það er meiri tilfinning fyrir því að gæði eru eitthvað sem maður á sækjast eftir og uppruni á að vera skýr,“ segir Sigga.
Hvers vegna eru Íslendingar á þeim stað að finnast í lagi að kaupa falsaðar merkjavörur?
„Ég hef rætt þetta stundum við skandinavíska kollega mína. Við bjuggum við örbirgð miklu lengur en Svíar og Danir og þeir hafa meiri sögu og eru upplýstari en við. Það eru ekki nema þrjár kynslóðir síðan við áttum lítið sem ekkert,“ segir Sigga og vitnar í tímann í kringum stríðsárin þar sem vöruskortur var mikill. Hún bendir á að þegar hlutir fara að fást á Íslandi þá trekki þeir að.
„Það er bara þannig í dag að ef eitthvað er of gott til að vera satt þá þarf að veita því athygli. Það er ekki hægt að fá nein verðmæti á spottprís. Við viljum að það sé borin virðing fyrir okkar ekta vörum,“ segir Sigga.
„Hér er verið að selja plastlyklakippur og hluti sem eru hálgert drasl,“ segir hún.
Ertu þá að tala um túristavörur?
„Já. Ég brenn fyrir því að íslenskir hönnuðir og íslenskir framleiðendur leggi metnað sinn í það að hafa vörurnar sínar umhverfisvænar en líka bara eins staðbundnar og hægt er. Við sem þjóð þurfum að vita fyrir hvað við viljum standa sem land. Hvað á að vera okkar kjarnagildi.“