Starfið er eins og lottóvinningur

Sveitastelpan Heiðrún er alltaf að.
Sveitastelpan Heiðrún er alltaf að. Ljósmynd/Aðsend

Heiðrún Sigurðardóttir garðyrkjufræðingur er sannkölluð sveitastelpa sem segist hafa fengið draumavinnuna. Hún starfar við Gömlu gróðrarstöðina við Krókeyri og Matjurtagarða Akureyrar.

„Ég sé um að rækta öll sumarblóm fyrir Akureyrarbæ, svo sem öll blóm sem eru á hringtorgum, blómabeðum, kerjum og í körfum ásamt trjáplöntum. Ég sé einnig um að forrækta allar matjurtir sem fólkið sem er með matjurtagarð hjá okkur á leigu geta keypt.“

Eru Akureyringar duglegir að rækta garðinn sinn?

„Já, Akureyringar er mjög duglegir að rækta og nýta garðana hjá okkur mjög mikið. Það er mikil aðsókn í garðana og eru þeir nánast allir komnir í útleigu. Sem er alveg frábært. Garðarnir eru kringum 300. Garðarnir hafa verið reknir frá árinu 2009 og hafa þó nokkrir verið með garð frá upphafi. Þegar fólk býr í fjölbýli og er ekki með eigin garð er dásamlegt að geta leigt sér garð í yndislegu umhverfi.“ 

Finnst þér eitthvað hafa breyst þegar kemur að garðyrkju fólks á undanförnum árum?

„Það sem ég tek eftir í görðunum er hvað fólk er duglegt að leita að upplýsingum og prófa sig áfram. Við erum með svo fjölbreyttan hóp af fólki sem er að leigja garða. Fólk er farið að spá miklu meira í mataræðið og hvað það er að borða. Vegan- og grænmetisfæði er alltaf að færast í vöxt og fólki finnst gott að geta ræktað sitt frá grunni og á sama tíma gert þetta að áhugamáli með fjölskyldunni. Tegundunum fer fjölgandi og fjölbreytnin er að aukast.“

Heiðrún er alin upp í sveit og er alltaf að.
Heiðrún er alin upp í sveit og er alltaf að. Ljósmynd/Aðsend

Gróðurhúsið kom frá ömmu

Hefur þú orku til að halda áfram að sinna eigin ræktun eftir vinnu?

„Ég er afskaplega ofvirk manneskja og hef alltaf verið. Það fer mér ægilega illa að gera ekki neitt og ég reyni því að gera sem minnst af því. Ég er alin upp í sveit og þar var maður á útopnu allan daginn og það hefur ekki mikið breyst. Vinnan mín gefur mér svo mikið að ég geng mikið á ástríðunni. Þetta starf sem ég fékk er algjör lottóvinningur. Þetta er mín heilun og núvitund. Ræktunarstöðin og Matjurtagarðar Akureyrar eru einstakir. Það að geta unnið við það sem maður elskar kemur manni langt. Það er líka svo frábær upplifun að sjá allt vaxa og uppskera.“

Heiðrúnu finnst hún ótrúlega heppin með vinnu.
Heiðrúnu finnst hún ótrúlega heppin með vinnu. Ljósmynd/Aðsend

Hvernig kviknaði garðyrkjuáhuginn þinn?

„Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á ræktun enda alin upp í sveit. Þar voru alltaf settar niður kartöflur á vorin og það var alltaf viss samverustund hjá okkur. Amma og afi voru alltaf með mömmu og pabba í garðinum, sérstaklega við að taka upp á haustin.“

Heiðrún er með eigin gróðurhús í sveitinni sinni sem er rétt fyrir utan Akureyri.

„Gígja amma mín átti gróðurhús heima í sveit þar sem hún ræktaði margar tegundir með mikilli prýði. Afi beygði bogana í gróðurhúsinu og því er enn meiri saga kringum húsið. Gróðurhúsið skemmdist síðar og var tekið niður og bogarnir geymdir. Ég fór að fá mikinn áhuga á allri ræktun árið 2012. Þá var ég ólétt að stelpunni minni og fór hamförum í að útbúa beð og rækta kasólétt. Við pabbi sóttum bogana úr húsinu hennar ömmu og byggðum gróðurhús í garðinum okkar. Það gekk svona ljómandi vel og nokkrum árum seinna sótti ég annað sett af bogum til frænku minnar sem afi hafði líka beygt bogana fyrir og smíðuðum við annað gróðurhús í garðinum. Mér þykir extra vænt um að hafa þessi tvö hús í garðinum því afi minn bjó til grindina að þeim. Ég þakka ömmu mikið ræktunaráhugann og hún kom mér í orðsins fyllstu merkingu á bragðið hvað ræktun varðar.“

Heiðrún er með eigin gróðurhús í sveitinni.
Heiðrún er með eigin gróðurhús í sveitinni. Ljósmynd/Aðsend

Upplifun að rækta eigið grænmeti

Er skemmtilegra að rækta eigið grænmeti og ávexti en að kaupa það úti í búð?

„Það er oftar en ekki tvennt ólíkt að kaupa út úr búð grænmeti og ávexti eða rækta það sjálfur. Bragðið er algjörlega einstakt. Fyrir utan það að það er bara svo skemmtilegt og mögnuð upplifun að fara og sækja sitt eigið grænmeti út í garð. Það er svo gefandi að geta gert þetta líka að áhugamáli og ná allri fjölskyldunni með. Mér finnst mikilvægt að kenna krökkum hvaðan grænmetið kemur, því upprunalega er það ekki úti í búð.“

Ekkert jafnast á við heimaræktað grænmeti.
Ekkert jafnast á við heimaræktað grænmeti. Ljósmynd/Aðsend

Hvað hefur þú helst verið að rækta?

„Ég hef mikið verið að rækta gulrætur því það er svo vinsælt til að kaupa og borða þegar maður er á ferðinni. Annars reyni ég að rækta sem flest og hef smá söluaðstöðu heima á pallinum fyrir nágranna og aðra sem eiga leið hjá.“

Gulrætur sem Heiðrún ræktaði.
Gulrætur sem Heiðrún ræktaði. Ljósmynd/Aðsend

Stolt af sætu kartöflunum

Er eitthvert grænmeti sem þér hefur fundist meira krefjandi að rækta en annað?

„Mér finnst mjög gaman að prófa mig áfram í ræktun og vel þá oft eitthvað óhefðbundið. Ræktunin mín á sætum kartöflum hefur vakið mikla athygli enda ekki auðvelt að rækta þær nema helst í upphituðu gróðurhúsi því þær vilja mikinn hita og langan ræktunartíma. Eins hef ég ræktað maís með góðum árangri.“

Heiðrún ræktar meðal annars sætar kartöflur.
Heiðrún ræktar meðal annars sætar kartöflur. Ljósmynd/Aðsend

Áttu uppáhaldsblóm og af hverju?

„Það er ekki langt síðan mér fannst blóm vera frekar tilgangslaus en í dag horfi ég allt öðrum augum á þetta. Ég lifi og hrærist í blómum allan daginn. Hádegisblómin eru í uppáhaldi, set þau oft í gamlan bala fyrir utan í vinnunni sem dæmi. Einnig er sólboði alltaf fallegur.“

Hádegisblóm eru í uppáhaldi.
Hádegisblóm eru í uppáhaldi. Ljósmynd/Aðsend

Hvert stefnir þú?

„Í framtíðinni langar mig að geta selt grænmeti beint frá býli, stækka aðstöðuna í matjurtagörðunum og bæta við fleiri upphækkuðum beðum fyrir eldra fólk og fólk sem er ekki með líkamlega getu til að rækta í görðum sem eru við jörð.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda