Ómar R. Valdimarsson lögmaður hefur sett rándýran húsbóndastól á sölu á síðunni Húsgögn til sölu á facebook. Um er að ræða Lounge Chair frá Eames sem seldur er í Pennanum. Stóllinn er ein þekktasta hönnun Eames-hjónanna en hann var fyrst framleiddur 1956.
„Eames Lounge Chair og skemill, keypt í Pennanum til sölu. Stóllinn og skemillinn eru í fullkomnu ásigkomulagi. Selst vegna flutninga og plássleysis á nýjum stað. Selst nýr í Pennanum á 895.000 krónur,“ segir Ómar í auglýsingu á facebook.
Ómar komst í fréttir á dögunum þegar honum var gert að endurgreiða fyrrverandi skjólstæðingi peninga vegna ofrukkunar. Konan sem um ræðir lenti í umferðarslysi í maí 2020 og leitaði til Ómars til að annast mál sitt og innheimta bætur úr hendi bótaskylds tryggingafélags.
Tæpum tveimur árum síðar undirritaði Ómar fullnaðaruppgjör við umrætt tryggingafélag fyrir hönd konunnar. Voru heildarbætur samkvæmt fullnaðaruppgjöri rúmar 4.4 milljónir króna, þar af 356 þúsund krónur vegna lögmannskostnaðar.
Eames-stóllinn tók sig vel út fyrir framan sjónvarpið á heimili Ómars og fyrrverandi eiginkonu hans við Hofslund í Garðabæ. Húsið var selt á dögunum. Berglind Berndsen hannaði allar innréttingar í húsið og var fjallað ítarlega um það í fjölmiðlum.
Alla sem dreymir um að eignast notaðan Eames-stól vita nú hvar hann er að finna.