Notar jarðarberjaplöntur til að minnka arfann

Tinna Ösp Brooks Skúladóttir ásamt hundunum sínum.
Tinna Ösp Brooks Skúladóttir ásamt hundunum sínum. mbl.is/Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir

Tinna Ösp Brooks Skúladóttir er með mikla ástríðu fyrir gróðri og garðrækt. Hún býr í fallegu einbýlishúsi í suðurhlíðum Kópavogs þar sem hún hefur verið að taka garðinn sinn smám saman í gegn en hún hefur búið í húsinu í um það bil fjögur ár ásamt fjölskyldu sinni. Hún segir að garðurinn hafi verið sérlega einfaldur með litlum gróðri því fyrri eigandi var með mikið frjókornaofnæmi, í honum hafi verið töluverð möl og nokkur eldri tré þannig að mestum gróðrinum hefur hún plantað sjálf.

Tinna er menntaður viðskiptafræðingur og starfar sem sérfræðingur á sviði lífeyrismála hjá LSR. Hún og eiginmaður hennar, Ásgeir Eiríksson, hafa gróðursett ýmsar plöntur. Gengið er inn í húsið að norðanverðu en garðurinn snýr í hásuður. Hægt er að komast inn í garðinn frá báðum hliðum hússins, en hægra megin eru falleg beð sem hún og eiginmaðurinn hafa nostrað við.

Pallinum er vel við haldið en í kringum hann eru …
Pallinum er vel við haldið en í kringum hann eru bæði skjólveggir og beð sem státa af fallegum plöntum. mbl.is/Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir

Kynntist fyrst garðrækt í Síle

En hvaðan skyldi ræktunaráhuginn hafa komið?

„Fyrsti garðurinn sem ég eignaðist var í Síle, þar sem ég bjó í fimm ár. Ræktunarskilyrðin eru æðisleg í því landi, þú bara slítur bút af einhverri plöntu, stingur honum niður og þú ert kominn með nýja. Ég var með rosalega stóran garð enda var ég líka með garðyrkjumann, ég lærði ýmislegt þarna og komst að því að hvert loftslag hefur sínar áskoranir. Þarna er svo mikill raki að sveppur getur yfirtekið tréð þitt ef þú hugsar ekki nógu vel um það. Áhuginn kviknaði hjá mér í Síle en það var samt ekki fyrr en ég flutti í Hafnarfjörðinn, þar sem ég bjó áður en ég flutti hingað, að ég fékk ræktunarbakteríuna fyrir alvöru. Þá þurfti maðurinn minn stundum bara að ná í mig út í garð og draga mig inn. Ég var svo áhugasöm að ég gleymdi oft að borða og tók ekki eftir þreytu eða kulda, ég fer nánast í einhverja leiðslu og verð alveg heltekin af þessu. Þetta er aðaláhugamálið mitt og eina sem ég í raun tími að verja einhverjum peningum í, ef ég ætti að kaupa mér einhver verðmæti væru það 100 plöntur,“ segir hún og hlær.

mbl.is/Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir

Leiðist venjulegar plöntur eins og blátoppar

Tinna segir að garðurinn í Kópavoginum sé sá þriðji í röðinni sem hún hefur átt og hún er sannarlega búin að gera ýmislegt síðan hún tók við honum fyrir um það bil fjórum árum.

„Mér leiðast voðalega svona venjulegar plöntur eins og blátoppar. Þegar ég fer í gróðrarstöðina Þöll, þar sem ég versla mikið, þá er ég oft spenntust þegar afgreiðslufólkið dregur upp eitthvað verulega óvanalegt og það eru kannski ekki alltaf fallegustu plönturnar. En sumt sem maður kaupir lifir ekkert alltaf og maður þarf að læra á garðinn sinn. Ég ákvað til dæmis að hafa eina aðalplöntu meðfram grindverkinu og svo blómstrandi plöntur inn á milli. Svo hef ég líka verið að kaupa plöntur í pörum og gróðursetja saman, þá er kannski önnur með sérstök lauf á meðan hin blómstrar.“

Tinna segir að það geti tekið verulega langan tíma að rækta upp plöntur og þó svo að þetta sé fjórða sumarið þá sé gróðurinn ekki allur kominn til og ýmsar plöntur hafi ekki enn blómstrað.

Tinna segir að það megi rækta allt í rakri mold …
Tinna segir að það megi rækta allt í rakri mold og segir að það þurfi að vökva á hverjum degi ef fólk vill einbeita sér að ræktun. mbl.is/Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir

Gróðursetur hindberja- og rifsberjarunna saman

Berjarunnar eru eitt af því sem Tinna ræktar og segist hún nota þá meðal annars til að skreyta garðinn en hún hefur lært að láta runnana vinna vel saman. „Margt hef ég lært smám saman í þessari vegferð minni og ég komst að nokkru varðandi berjarunna. Ef ég plantaði röð rifsberjarunna saman og það kom óværa í þá sem átu öll laufin, þá stóðu runnarnir bara ljótir og snauðir. Aftur á móti ef ég plantaði saman rifsberja- og hindberjarunnum þá tók hindberjarunninn yfir því óværan étur ekki hindberjalaufin, þannig nýttust laufin af einum runna til að hylja annan og gera þannig umhverfið grænt og fallegt. Mér finnst svona tilraunastarfsemi mjög skemmtileg og svo þarf maður líka að læra á veðurfarið í garðinum. Þetta er fyrst og fremst áhugamál mitt og ég er ekkert lærð í þessu en er alveg dugleg að afla mér upplýsinga til dæmis á YouTube. Fyrst og fremst er ég samt óhrædd við að gera tilraunir og prófa mig áfram,“ bætir hún við og segist hafa verið að gera tilraunir með kryddjurtir.

Það er nauðsynlegt að vera með fuglahús í garðinum og …
Það er nauðsynlegt að vera með fuglahús í garðinum og svo verður að vera eitthvað sem blómstrar. mbl.is/Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir
mbl.is/Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir

Gróðursetur mest kryddjurtaplöntur úr matvörubúðinni

„Ég tók eftir því að kóríanderplantan mín dó alltaf í glugganum inni svo ég prófaði að gróðursetja hana í garðinum og hún hefur dafnað vel síðan. Ég keypti líka fjölæra óreganóplöntu sem ég þarf ekkert að hafa fyrir, hún vex bara alltaf aftur og aftur og gefur af sér gott krydd. Ég hef prófað að sá kryddjurtafræjum en það verða töluverð afföll af þeim og það er nokkur vinna að koma þeim til svo mér finnst eiginlega best að kaupa bara kryddjurtir í potti út í búð og nota þær. Hvað kóríanderplöntuna varðar þá er hægt að nota öll laufin og stinga svo bara restinni í moldina í garðinum og þá koma upp að minnsta kosti tvær uppskerur yfir sumarið úr einni plöntu. Ég las seinna að öfugt við það sem margir halda þá vill kóríander vera í frekar svölu umhverfi.“ Tinna bætir við að margir viti ekki að ekki sé hægt að rækta íslensk bláber í garðinum en hlíðarmali sé mjög líkur bláberjum og hann dafni vel í íslenskum görðum.

Tómataplönturnar lifa góðu lífi innandyra.
Tómataplönturnar lifa góðu lífi innandyra. mbl.is/Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir

Jarðarberjaplöntur til margs nýtar

Tinna bætir við að sér finnist mikill kostur ef hægt sé að borða plönturnar í garðinum og hún segist líka nota þær til að minnka arfann.

„Ég nota til dæmis jarðarberjaplöntur víða í beðunum á pallinum til að þekja dauð svæði á milli trjáa, þá verður líka minni arfi og ég fæ gómsæt ber. Ég er með þessi íslensku sem dreifa sér mikið sjálf og eru fjölær en jarðarberjaplöntur hafa reyndar bara ákveðinn líftíma. Þessar íslensku eru með svo mikið af renglum að þær búa sjálfar til nýjar plöntur svo þær sjá svolítið um sig sjálfar. Eftir veturinn var beðið bert á ákveðnum stöðum svo ég tók einhverjar spíraðar kartöflur og henti þeim niður á þessi svæði og hugsaði bara með mér að kannski kæmi eitthvað upp og ef ekki þá bara myndi ég klippa grösin af og þá væri málið dautt, ég vil nefnilega hafa allt grænt í mínum garði.“

mbl.is/Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir
Graslaukur er mikið lostæti í mat.
Graslaukur er mikið lostæti í mat. mbl.is/Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir

Ræktar sítrónutré úr steinum úr sítrónum

Tal okkar berst úr garðinum og inn í húsið þar sem Tinna er með ýmsar matjurtir og plöntur.

„Í húsinu mínu er mjög hátt til lofts og gluggar stórir, stofan og eldhúsið snúa í suður svo þar varð mjög heitt og þess vegna drápust allar plöntur sem ég reyndi að rækta þar. Þá fór ég að velta fyrir mér hvers konar ræktun hentaði miklum hita og sól og það voru einmitt ávextir og grænmeti. Ég fór því að prófa mig áfram með sítrónutré og gerði það bara með steinum úr sítrónum úr búðinni. Ég komst svo að því að steinarnir þurfa mikla sól ofan á moldina áður en þeir spíra. Ég spreyjaði vatni úr úðabrúsa á moldina kvölds og morgna og þetta tókst að lokum eftir nokkurn tíma. Ég gerði þetta líka við epla- og tómatafræ úr lífrænum eplum og tómötum sem ég keypti úti í búð. Ég veit ekkert hvort það koma epli á þetta tré, það kemur bara í ljós, en það kostar ekki neitt allavega. Það skal tekið fram að það er ekki hægt að rækta eplatré úr steinum úti, þá þarf að kaupa sérstakt yrki sem þolir íslenska veðráttu.“

mbl.is/Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir

Frjóvgar tómatana sjálf með pensli

Tinna segir að íslenskir grænmetisbændur þurfi samt ekki að örvænta því þetta taki mjög langan tíma og uppskeran sé kannski ekki neitt rosaleg. „Ég skil betur hvað það er mikil vinna að rækta til dæmis tómata og hvað bændur þurfa að gera þetta á stórum skala til að fá einhverja alvöru uppskeru. Ég þurfti að frjóvga tómatana sjálf með pensli þar sem ég er ekki með býflugur inni hjá mér,“ segir hún brosandi en bætir við að það sé ótrúlega gaman að sá einhverju fræi og fylgjast með því vaxa og dafna.

Í garðinum er fallegur pallur með heitum potti og útikamínu sem Tinna kveikti upp í meðan á viðtalinu stóð. Hún segir fjölskylduna nota pallinn og garðinn gríðarlega mikið og stundum fari þau í pottinn á hverjum degi með tilheyrandi hitaveitukostnaði. Í húsinu eru einnig suðursvalir með miklu útsýni sem eru líka mikið notaðar.

mbl.is/Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir
mbl.is/Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir

Fjölgar plöntum með þungum steinum og raka

En hvaða góða garðyrkjuráð skyldi Tinna gefa nýgræðingum í garðrækt? „Það að rækta fallegan garð snýst að miklu leyti um fjölgun plantna og það er eitt gott ráð sem ég kann og virkar vel. Ef tré eða runnar eru orðnir nægilega stórir þá er hægt að taka eina grein og tosa hana niður að moldinni og setja á hana ekki of þungan stein til að halda henni niðri í moldinni, svo þarf að spreyja á hverjum degi þannig að moldin sé alltaf rök. Eftir nokkrar vikur fara að myndast rætur ef allt gengur eftir og þá má klippa greinina frá trénu. Þessa aðferð er sniðugt að nota til að stýra vexti runna en ég hef einmitt gert það. Í raun er hægt að rækta nánast allt í rakri mold, það eru eiginlega ágætis líkur að ef þú setur eitthvað niður í mold sem er rök þá vex eitthvað, ef það er hægt með þá tegund yfirhöfuð. Ég vil líka benda fólki sem er að stíga sín fyrstu skref í garðinum á að þetta er allt ein stór tilraun og það er ekki hægt að mistakast því það er lærdómur í öllu. Það er mikilvægt að þetta sé gaman, um leið og ræktunin fer að vera íþyngjandi þá er hún ekki að þjóna sínum tilgangi.“

Tinna hefur ánægju af því að vinna í garðinum og …
Tinna hefur ánægju af því að vinna í garðinum og getur gleymt sér þar heilu og hálfu dagana. mbl.is/Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir

Safnar plöntum eins og frímerkjum

Þegar Tinna er spurð um næstu skref í garðinum stendur ekki á svörum. „Ég er að mestu leyti búin að þekja allt þannig að hvergi sést í mold né möl sem var kannski númer eitt, tvö og þrjú. Þannig að núna verður þetta svolítið eins og að safna frímerkjum, maður fer og leitar að einhverju öðruvísi og sjaldgæfu á gróðrarstöðunum hér í bænum og rennir nokkrar ferðir austur í Hveragerði til að athuga hvað fæst spennandi þar. Það verður samt að passa að halda í skynsemina og fara kannski ekki að planta bananatré í garðinum því þú veist að það mun drepast. Mig langar líka að fá mér eplatré og svo þarf maður að vera óhræddur við að breyta og fjarlægja plöntur sem fara í taugarnar á manni og gróðursetja heldur eitthvað sem veitir manni ánægju,“ bætir Tinna við og óhætt er að fullyrða að hún kann heldur betur að rækta garðinn sinn.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda