Keyptu óvænt íbúð í Stykkishólmi og gerðu hana upp frá a til ö

Nadia Katrín Banine festi óvænt kaup á íbúð í Stykkishólmi …
Nadia Katrín Banine festi óvænt kaup á íbúð í Stykkishólmi ásamt eiginmanni sínum. Samsett mynd

Innanhússhönnuðurinn og fasteignasalinn Nadia Katrín Banine lauk nýverið endurbótum á fallegri íbúð í Stykkishólmi sem hún festi óvænt kaup á ásamt eiginmanni sínum, Gunnari Sturlusyni. Hjónin féllu fyrir íbúðinni um leið og þau sáu útsýnið yfir Breiðafjörðinn frá stofuglugganum, en þau eiga sterkar rætur til Snæfellsness. 

Nadia starfaði lengi sem flugfreyja hjá Icelandair en í kórónuveirufaraldrinum fór hún og lærði innanhússhönnun hjá IED í Mílanó á Ítalíu.

Síðan þá hefur Nadia hannað þó nokkrar eignir á sjarmerandi máta, þar á meðal undurfagurt heimili sitt á Kársnesinu þar sem hún er búsett ásamt eiginmanni sínum Gunnari Sturlusyni, hundunum þeirra og þremur dætrum sem eru óðan að flytja að heiman. 

Nadia og Gunnar eiga góðar minningar frá Snæfellsnesi en þar …
Nadia og Gunnar eiga góðar minningar frá Snæfellsnesi en þar eru þau með hrossarækt.

Eiga góðar minningar frá Snæfellsnesi

Nadia og Gunnar festu óvænt kaup á heillandi íbuð í Stykkishólmi sem þau hafa á undanförnum mánuðum tekið í gegn frá a til ö. Útkoman er sannarlega glæsileg og segist Nadia strax hafa verið ákveðin í að hafa íbúðina í „mid-century módern“ stíl en með öllum nútíma þægindum. 

„Maðurinn minn er alinn upp í Stykkishólmi og foreldrar hans og bróðir búa þar svo við skreppum oft þangað. Við erum líka með jörð við Straumfjarðará á Snæfellsnesi sem heitir Hrísdalur þar sem við erum með hrossarækt og erum mikið þar. Þess vegna komum við oft í Hólminn að heimsækja þau eða skreppa í búðina,“ segir Nadia.

„Það var alger tilviljun að við ákváðum að kaupa þessa íbúð, en Gunnar er alinn upp í húsinu við hliðina og æskuvinur hans bjó í íbúðinni þegar að þeir voru að alast upp svo hann þekkti íbúðina vel,“ bætir hún við. 

Hjónin njóta þess að eyða tíma á jörð sinni við …
Hjónin njóta þess að eyða tíma á jörð sinni við Straumfjarðará.

Falleg form og einstakt útsýni

Húsið var reist árið 1956, en aðspurð segir Nadia að útsýnið frá stofunni út á hinn ægifagra Breiðafjörð hafi verið það fyrsta sem heillaði hjónin upp úr skónum. „Svo eru líka svo falleg form í íbúðinni, bæði rúnaðir veggir og einstakur frágangur við glugga, þar sem veggir eru í fláa að glugganum, sem opnar svo mikið upp. Íbúðin sjálf var að frekar illa farin að innan og mikið af gluggunum héldu ekki vatni og vindum og þar af leiðandi mygla og raki á mörgum stöðum. Við þurftum því miður að hreinsa alveg út úr íbúðinni, pússa niður suma veggina og var mjög forvitnilegt að sjá hvernig hún hafði verið einangruð í mörgum lögum innan frá,“ segir Nadia.

Í framkvæmdunum kom í ljós að íbúðin hafði verið einangruð …
Í framkvæmdunum kom í ljós að íbúðin hafði verið einangruð í mörgum lögum.

„Við opnuðum á milli tveggja hurðaropa sem voru inn í stofuna og borðstofuna sem upphaflega var með vegg á milli rýma. Við endurnýjuðum allar lagnir, gólfefni og langflesta glugga. Maðurinn minn fann gamlar teikningar af húsinu og sá að upphaflega gluggasetningin var ekki til staðar í borðstofunni og þar sem við þurftum að skipta um gluggana fengum við nýjan glugga sem er með frönskum rúðum eins og á upphaflegu teikningunni sem kemur svakalega fallega út. Allir gluggar voru smíðaðir í gamla stílnum hér á Íslandi,“ bætir hún við. 

Nadia segir baðherbergið hafa verið stórt verkefni þar sem þau þurftu að skræla allt út úr því. „Við fjarlægðum gamlan sturtuklefa og lokuðum opum sem voru inn í stigaganginn fyrir þvottavélina, en upphaflega var inngengt úr svefnherberginu inn á baðið,“ segir hún. 

Hjónin réðust í allsherjar framkvæmdir eftir að þau keyptu íbúðina.
Hjónin réðust í allsherjar framkvæmdir eftir að þau keyptu íbúðina.

„Það eru tvö svefnherbergi á efri hæðinni og annað með útgengi út á svalir. Það var fataskápur sem skildi herbergin að en enginn milliveggur svo við minnkuðum annað herbergið, stækkuðum hitt, settum upp vegg og komum fyrir skápum í báðum rýmum. Í öðru herberginu er veggfóður en í hinu bjó ég til retró mynstur úr þunnum hálfmánum sem eru límdir á vegginn og málaðir í sama lit og veggurinn.

Þriðja svefnherbergið er niðri, en gengið er niður um teppalagðan stiga úr eldhúsinu sem er svolitið skemmtilegt. Eldhús innréttingin er alveg ný en við skeyttum inn í hana skúffu einingu og notaðum efri skápa sem við fengum gefins úr gamalli íbúð í Hamrahlíð sem verið var að hreinsa út úr. Mér fannst það skemtileg tilvísun í gamla tímann,“ útskýrir Nadia.

Hér sést eldhúsið áður en framkvæmdirnar hófust.
Hér sést eldhúsið áður en framkvæmdirnar hófust.
Útkoman er sannarlega glæsileg í eldhúsinu þar sem nýtt og …
Útkoman er sannarlega glæsileg í eldhúsinu þar sem nýtt og gamalt mætist og skapar notalega stemningu.

Innréttaði íbúðina í „mid century módern“ stíl

Við val á innréttingum og húsgögnum hafði Nadia „mid century módern“ stílinn í huga og valdi hvern hlut af mikilli kostgæfni. 

„Öll ljós í íbúðinni eru af erlendum uppboðssíðum og það tók gífurlegan tíma að finna hluti sem mér fannst passa inn í íbúðina. Það sem kom mér mest á óvart var að uppgvöta hvað margir eru tilbúnir að gefa og henda hlutum sem eru frá þessum tíma. Borðstofustólarnir eru upprunalegir Marcel Breuer Cesca-stólar en þegar við fengum þá voru þeir bólstraðir í ljósbleikum lit með beyki ramma sem maður sér ekki mikið af nú til dags. Sessurnar og bökin voru frekar illa farin svo ég pantaði nýtt á rammana úr rattan með svörtum ramma,“ segir hún.

Nadia hugsaði út í öll smáatriði og valdi húsgögn og …
Nadia hugsaði út í öll smáatriði og valdi húsgögn og muni inn í íbúðina af kostgæfni.

„Vaskurinn á baðheberginu er American Standard vaskur, framleiddur sama ár og húsið er byggt. Hann var gefins á netinu en ég gat haft upp á aðilanum sem fékk hann gefins og keypti hann og klósett í sama stíl af honun. Lokið af klósettinu notaði ég svo sem hillu inni á baði,“ bætir hún við. 

Vaskurinn setur án efa svip sinn á baðherbergið.
Vaskurinn setur án efa svip sinn á baðherbergið.

Hvað getur þú sagt mér um litapallettuna í íbúðinni?

„Litapallettan sem ég valdi í íbúðina er í takt við liti þess tíma, en ég ákvað svo að taka líka liti úr náttúrunni sem þú sérð út um glugga íbúðarinnar og spegla í loftunum. Þannig verður til alveg sérstök stemning í íbúðinni.“

Fögur litapalletta einkennir íbúðina, en þar fá mynstruð veggfóður einnig …
Fögur litapalletta einkennir íbúðina, en þar fá mynstruð veggfóður einnig að njóta sín.

Áttu þér uppáhaldshúsgagn í íbúðinni?

„Ég held að uppáhaldshluturinn á heimilinu sé Falcon stóllin í stofunni eftir Sigurd Ressel og borðstofuljósið sem gefur svakalega fallega birtu.“

Hjónaherbergið er hlýlegt og stílhreint.
Hjónaherbergið er hlýlegt og stílhreint.

Sótti innblástur í náttúrufegurðina í kring

Íbúðina hafa hjónin leigt út til gesta og ferðamanna, en Nadia sótti mikinn innblástur í náttúrufegurð Breiðafjarðar þegar kemur að stemningunni sem hún vildi skapa fyrir gesti í íbúðinni. 

„Breiðafjörðurinn er auðvitað einstök náttúruparadís og endalaust gaman að skella sér í siglingu, njóta fegurðarinnar og skoða fuglalífið þar. Ég ákvað að hafa bæði „picknick“ körfu fyrir gesti til að taka með sér í siglingu eða í ferðalag um Nesið, svo fannst mér líka stemning að vera með retró myndavél og filmu fyrir gesti að nota. Þessar gömlu vélar gefa svo skemmtilega liti í framköllun,“ segir hún. 

Hjónin bjóða gestum upp á að festa minningar sínar á …
Hjónin bjóða gestum upp á að festa minningar sínar á filmu.

Aðspurð segir Nadia sinn uppáhaldsstað á Snæfellsnesi vera Löngufjörurnar, enda er hún mikil hestakona og veit fátt skemmtilegra en að fara í útreiðatúra um svæðið. „Að ríða góðum hesti í góðu veðri á gulum sandi með Snæfellsjökul fyrir framan sig er algerlega einstakt. Það eru svo margir fallegir staðir á Snæfellsnesi og gönguleiðirnar endalausar. Þegar að við förum með gesti í bíltúr komum við oft við í Ytri-Tungu að skoða sellátrið þar, en það er frábært að borða hádegismat á veitingastaðnum á Langaholti,“ segir Nadia

„Svo förum við að Búðum, Hellnum og Arnarstapa, en það er líka gaman að ganga inn Rauðfeldargjá, eða heimsækja Vatnshelli. Gangan upp á Helgafell er auðveld og skemmtileg og þaðan er frábært útsýni yfir allan fjörðinn. Svo segir sagan líka að þegar að þú gengur þar upp í fyrsta sinn og ferð frá leiði Guðrúnar Ósvífursdóttur upp á Helgafellið, þá getir þú óskað þér einhvers,“ bætir hún við. 

Það er fátt sem toppar Löngufjörurnar á góðum sumardegi!
Það er fátt sem toppar Löngufjörurnar á góðum sumardegi!

Fyrir þá sem ætla að leggja leið sína í Stykkishólm mælir Nadia með nokkrum skemmtilegum hlutum að gera og sjá. „Í Hólminum er ómissandi að heimsækja Norska húsið og Vatnasafnið og svo eru nokkrar vinnustofur listamanna sem gaman er að sækja heim. Vinnustofa Ingibjargar Águstsdóttur og hennar verk eru algert augnayndi. Svo eru frábærir veitingastaðir, bæði í Stykkishólmi og víða á Snæfellsnesi. Narfeyrarstofa er eitthvað sem allir verða að upplifa og svo reyni ég alltaf að finna mér ástæðu til að skreppa í Hólminn til að fá mér fisk og franskar í vagninum við höfnina,“ segir Nadia.

Það er nóg af spennandi hlutum að gera og sjá …
Það er nóg af spennandi hlutum að gera og sjá á Snæfellsnesi.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál