Við Lindarbraut 3 á Seltjarnarnesi hafa Kristín Laufey Guðjónsdóttir og Markús Máni Michaelsson Maute búið sér fallegt heimili. Þau festu kaup á húsinu í apríl 2017 en nú er húsið komið á sölu.
Húsið er 210 fm að stærð og var reist 1980. Húsráðendur hafa nostrað við húsið og fengu Rut Káradóttur innanhússarkitekt til þess að endurhanna baðherbergi, bæði aðalbaðherbergi og gestasnyrtingu. Breytingarnar eru vel heppnaðar en þar er að finna ítalskar flísar frá Ebson, Vola blöndunartæki og ljósar innréttingar.
Eldhúsið í húsinu var endurnýjað 2008 og hefur að geyma eyju úr graníti og innréttingar sem eru bæði sprautulakkaðar og úr eik. Klassískar flísar í stærðinni 10x5 cm liggja lárétt á milli skápa og er korkur á gólfinu.
Í stofunni eru hvítur múrsteinsveggur sem minnir á árið 1980 og loftljósin eru sérhönnuð af Pétri Lútherssyni heitnum sem starfaði sem húsgagnahönnuður.