Við Ljósvallagötu í Reykjavík er að finna sjarmerandi parhús sem reist var árið 1926. Eignin telur alls 111 fm og er á tveimur hæðum.
Húsið hefur hlotið heilmiklar endurbætur og verið innréttað á fallegan máta. Gengið er inn í eignina á neðri hæð, en þar er að finna tvö svefnherbergi, sjónvarpshol og baðherbergi.
Á efri hæð má finna eldhús, stofu og borðstofu í opnu og björtu alrými. Eldhúsinnréttingin er ljós með góðu skápa- og vinnuplássi, en á borðunum er flottur marmari sem setur svip sinn á rýmið.
Í stofu og borðstofu ráða fallegir og mildir litatónar ríkjum. Stórt málverk við borðstofuborðið grípur strax augað og gefur rýminu mikinn glæsibrag ásamt fallegum gluggum og parketi með fiskbeinamynstri.