Endurgerðu hús sem margir bera tilfinningar til

Ljósmynd/Adela Auriga

Hjónin Hafsteinn Júlíusson og Karitas Sveinsdóttir, hönnuðir og eigendur HAF Studio, eiga heiðurinn af endurhönnun á einbýlishúsi við Brekkugerði 19 í Reykjavík. Húsið var teiknað af Högnu Sigurðardóttur sem var fyrsti kvenarkitekt Íslands. Húsið var reist 1963 og er rúmlega 300 fm að stærð. Sjónsteypa og hrár stíll er áberandi í hönnun hússins og gættu hjónin þess að hafa húsið eins Högnulegt og hugsast gat. 

Félag Birgis Arnar Brynjólfssonar, Grand­view ehf., festi kaup á húsinu í febrúar 2021 en Birgir býr í húsinu ásamt eiginkonu sinni, Kiley Rene Larson, og sonum þeirra tveimur. Stuttu síðar fengu þau Hafstein og Karitas til liðs við sig og fluttu Birgir og Larson inn 2022. 

Högnuhúsið í Brekkugerði hefur vakið athygli. Hvernig fer fólk að því að endurhanna það án þess að eyðileggja heildarmyndina?

Hafsteinn Júlíusson og Karitas Sveinsdóttir reka HAF Studio sem er …
Hafsteinn Júlíusson og Karitas Sveinsdóttir reka HAF Studio sem er hönnunarstofa. Ljósmynd/Adela Auriga

„Högnuhúsið er auðvitað eitt merkasta hús Íslandssögunnar og hús sem margir Íslendingar bera tilfinningar til. Þegar við tókum við verkefninu voru eigendur hússins, þau Birgir og Kiley, mjög meðvituð um sögu hússins og vildu gera allt til þess að halda í uppruna þess. Margt í húsinu var auðvitað komið á tíma og þurfti því að aðlaga það að kröfum nútímans þar sem þetta er þeirra framtíðarheimili. Í byrjun ferlisins skoðuðum við mikið af öðrum verkum Högnu Sigurðardóttur og fengum ráðgjöf og fræðslu frá Pétri Ármannssyni hjá Minjastofnun sem var okkur dýrmætt og ómetanlegt,“ segir Hafsteinn og Karitas bætir við: 

„Það skiptir máli að passa að öll endurhönnun keyri ekki yfir það sem vel hefur verið gert, frekar að byggja lög ofan á sem hífa upp upprunalega hönnun. Í þessu skiptir efnisval og endurnýting höfuðmáli,“ segir hún. 

Í húsinu eru steyptir sófar sem setja svip sinn á …
Í húsinu eru steyptir sófar sem setja svip sinn á hönnuninna. Ljósmynd/Adela Auriga
Hafsteinn og Karitas tóku niður léttan vegg og stækkuðu eldhúsið. …
Hafsteinn og Karitas tóku niður léttan vegg og stækkuðu eldhúsið. Innréttingar eru úr hvíttuðum aski eða sama efnivið og var í gömlu innréttingunum sem voru komnar til ára sinna. Ljósmynd/Adela Auriga
Arinstofan er niðurgrafin. Glerborðið sem Noguchi hannaði brýtur upp formið …
Arinstofan er niðurgrafin. Glerborðið sem Noguchi hannaði brýtur upp formið og mottan veitir ákveðna mýkt. Ljósmynd/Adela Auriga
Hönnunin er mjög einföld en Hafsteinn og Karitas segja að …
Hönnunin er mjög einföld en Hafsteinn og Karitas segja að það sé oft mesta áskorunin í verkefnum að halda í einfaldleikann. Ljósmynd/Adela Auriga


Hvað gerðuð þið nákvæmlega? 

„Það er erfiðast að gera einfalt og okkar upplegg var þannig að fólk á ekki endilega að átta sig á hvar skilin á gömlu og nýju eru. Í grunninn var nánast allt endurgert í húsinu fyrir utan sjónsteypu og Drápuhlíðargrjót. Vissulega var allt gert í anda hússins og af virðingu við upprunalega hönnun þess,“ segir Karitas. 

„Helstu breytingar voru endurhönnun á eldhúsi, herbergjaskipan, baðherbergisuppröðun og því sem hægt var að aðlaga betur að þörfum nútímafjölskyldunnar,“ segir Hafsteinn. Í link hér fyrir neðan er hægt að sjá hvernig húsið leit út að innan þegar það var auglýst til sölu árið 2011.

Þetta baðherbergi er hannað fyrir hjónin, tveir vaskar, sturta og …
Þetta baðherbergi er hannað fyrir hjónin, tveir vaskar, sturta og salerni og mikið af skápaplássi. Innréttingarnar eru úr hvíttuðum aski og flísarnar voru sérpantaðar hjá Parka. Ljósmynd/Adela Auriga

Þegar Hafsteinn og Karitas eru spurð út í efnivið í innréttinum í eldhúsið segjast þau hafa valið hvíttaðan ask sem er sami efniviður og var í upprunalegu innréttingunum. 

Hvað um baðherbergin?

„Við völdum sama efni í baðherbergisinnréttingar og í eldhúsainnréttinguna. Innihurðar í húsinu voru endurgerðar, en þær eru úr aski og létum við litinn á þeim, eftir endurgerð, svolítið ráða því hver endanlegur litur á innréttingunum væri. Á baðherbergjum eru svört loft, dökkgrá gólf og þess vegna fannst okkur mikilvægt að hafa ljósan við til að skapa fallegar andstæður,“ segir Hafsteinn. 

Hér er hvíttaður askur á vegg inni á baðherbergi.
Hér er hvíttaður askur á vegg inni á baðherbergi. Ljósmynd/Adela Auriga
Hafsteinn og Karitas skoðuðu myndir af öðrum Högnu-húsum til þess …
Hafsteinn og Karitas skoðuðu myndir af öðrum Högnu-húsum til þess að fá betri tilfinningu fyrir vali á flísum. Ljósmynd/Adela Auriga
Blöndunartækin eru utan á speglinum ásamt ljósunum.
Blöndunartækin eru utan á speglinum ásamt ljósunum. Ljósmynd/Adela Auriga

Tveir vaskar

Á einu baðherberginu eru tveir vaskar. Hafsteinn og Karitas segja að þetta hafi verið hugsað sem baðherbergi hjóna þar sem svefnherbergi, fataherbergi og baðherbergi er allt hugsað sem ein samliggjandi eining. Einhverjir myndu segja að flísarnar á baðherberginu séu mjög Högnu-legar og séu jafnvel þannig að þær hafi alltaf verið í húsinu. Hvernig kom það til að setja þær á baðherbergið?

„Já, við skoðuðum önnur hús sem hún gerði á sama tímabili og fengum vini okkar hjá Parka til að sérpanta sambærilegar flísar frá Ítalíu, við erum virkilega ánægð með útkomuna,“ segir Hafsteinn. 

Skotið á efri hæðinni hleypir birtu niður á neðri hæðina. …
Skotið á efri hæðinni hleypir birtu niður á neðri hæðina. Ljósið er eftir Bruno Munari. Ljósmynd/Adela Auriga

Það er vandasamt verk að halda í upprunalegan stíl og gæta þess að eyðileggja ekki þá upplifun sem Högna Sigurðardóttir hannaði. Svo hafa húsráðendur oftast eitthvað um hlutina að segja. Voru þau með einhverjar séróskir? 

„Þau vildu halda í upprunalegan stíl hússins en á sama tíma uppfylla þarfir nútímans. Einnig að virkja betur jarðhæð og þakgarð, en vinna við það tvennt er í fullum gangi ennþá og við deilum meiru þegar þeirri vinnu er lokið,“ segir Hafsteinn. 

Hér er steypan notuð eins og listaverk.
Hér er steypan notuð eins og listaverk. Ljósmynd/Adela Auriga


Hverjar voru mestu áskoranirnar í þessu hönnunarverkefni?

„Að eyðileggja ekki upprunalegan sjarma hússins með nútímavæðingu, þá sérstaklega hvað varðar tækni og praktík.“

Áður var eldhúsið tvískipt, eða með léttum millivegg, lá það alveg ljóst fyrir að það þyrfti að opna þarna alveg í gegn?

„Já, við sáum strax þegar við komum á bakvið vegginn að þar var gluggi sem er í borðplötuhæð við útvegginn. Sá gluggi er með óviðjafnanlegu útsýni yfir Esjuna þegar setið er við borðstofuborðið. Vegna þessa lögðum við mikið upp úr því að vera ekki með neina háskápa í eldhúsinu og eru því kælar, frystar og annað í lægri skápum til að hindra ekki útsýnið,“ segir Karitas. 

Horft inn í eldhús.
Horft inn í eldhús. Ljósmynd/Adela Auriga

Hvað er á eyjunni í eldhúsinu og hvaðan eru höldurnar á eldhúsinnréttingunni?

„Á eyjunni er slípað blágrýti og höldurnar, sem og hurðahúnar og fleira kemur frá Buster & Punch.“

Var eitthvað átt við gólfin?

„Já, gólf á aðalhæðinni voru komin á tíma og í húsinu var ofnhitalögn í loftum sem var úrelt. Við nýttum tækifærið og var gólfhiti lagður á hæðina. Við völdum basalt flísar sem okkur finnst passa pallettunni vel og rýma við fyrri verk Högnu,“ segir Hafsteinn. 

Lýsingin undir stigahandriðinu kemur vel út.
Lýsingin undir stigahandriðinu kemur vel út. Ljósmynd/Adela Auriga

Hvað um loftin? Eru ný loft eða eru þetta gömlu loftin?

„Það var mikið atriði að bæta hljóðvist og lýsingu á miðhæðinni. Fyrir voru hraunuð steypt loft með rafmagnsdósum á stöðum sem hentuðu ekki, þess vegna létum við sérframleiða þessi hljóðloft úr hvíttuðum aski þar sem kastarabrautir eru felldar upp á milli í fösun á viðarfjölum. Þannig náðum við að bæta inn kösturum og óbeinni lýsingu þar sem við vildum og fengum í leiðinni frábæra hljóðvist.“

Hjónin Hafsteinn og Karitas hönnuðu ekki bara innréttingar og völdu hráefni í verkið heldur sáu þau um val á húsgögnum í samráði við húsráðendur. 

„Já, við gerðum það í fullu samráði við húseigendur, þau áttu mikið fyrir sem passaði fullkomlega inn. Áherslan í húsgagnavalinu var að velja tímalausa klassík sem mun eldast vel með húsinu. Það er ekki pláss fyrir mikið af lausum húsgögnum og því var sérstaklega mikilvægt að vanda valið á því sem fór inn,“ segir Karitas. 

Hringstiginn er upp á þaksvalir sem prýða húsið en það …
Hringstiginn er upp á þaksvalir sem prýða húsið en það er verið að gera þær upp núna og eru þær ekki alveg tilbúnar. Ljósmynd/Adela Auriga

Í einu horninu kúrir ljós eftir ítalska meistarann Bruno Munari. Það er svolítið eins og hornið hafi verið smíðað utan um ljósið en í raunheimum var það ekki alveg þannig. 

„Upprunalega er þetta skot gert til að draga birtu á jarðhæðina. Okkur fannst eitthvað vanta í þetta skot og þá kom hugmyndin að nota Falkland ljósið frá ítalska meistaranum Bruno Munari. Það passaði fullkomlega, enda hannað um sama leyti og húsið var byggt,“ segir Hafsteinn. 

Sjónsteypan sem er eins og stuðlaberg setur mikinn svip á húsið. 

„Þetta er stöllun á aðalburðareiningu hússins sem skilur að eldhús og niðurgröfnu stofuna með arinn stæðinu.“

Arininn á efri hæðinni er úr sjónsteypu og hlaðinn með …
Arininn á efri hæðinni er úr sjónsteypu og hlaðinn með múrsteinum. Ljósmynd/Adela Auriga

Hvað var mest gefandi í þessu verkefni?

„Samstarfið við húseigendur og alla iðnaðarmennina sem komu að verkinu. Það voru allir með sama markmið, að vanda til verka og skilja eftir sig verk sem allir gætu verið stoltir af til framtíðar.“ 

Voruð þið hjónin sammála í hönnuninni?

„Já, það voru allar ákvarðanir í ferlinu vel ígrundaðar með eigendum og iðnaðarmönnum. Þannig það kom aldrei upp neinn ágreiningur í hönnuninni.“

Horft yfir stofuna. Loftin koma með hlýleika á móti sjónsteypu …
Horft yfir stofuna. Loftin koma með hlýleika á móti sjónsteypu og stórum gluggum. Ljósmynd/Adela Auriga
Hér má sjá arinn á neðri hæð hússins.
Hér má sjá arinn á neðri hæð hússins. Ljósmynd/Adela Auriga
Frístandandi baðkar er eitthvað sem marga dreymir um.
Frístandandi baðkar er eitthvað sem marga dreymir um. Ljósmynd/Adela Auriga
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda