Kærustuparið Sara Linneth Lovísudóttir Castaneda og Árni Páll Árnason, rapparinn Herra hnetusmjör, hafa fest kaup á splunkunýrri íbúð í Kópavogi. Um er að ræða 168 fm íbúð í glæsilegri blokk sem byggð var 2024. Íbúðin er á efstu hæð með fallegu útsýni út á sjó. Tvennar svalir eru á íbúðinni og snúa þær í vestur. Svalirnar eru hellulagðar og er heitur pottur á öðrum svölunum.
Það er því raunverulega hægt að segja að rapparinn, sem hefur sungið um töfra Kópavogs í sönglagatextum sínum, sé að lifa Kópavogsdrauminn til fulls.
Teiknistofan Tröð hannaði húsið og er burðarvirki hússins staðsteypt með hefðbundnum hætti. Útveggir eru einangraðir að utan og klæddir með báruáli.
„Innréttingar í eldhúsi eru frá innréttingaframleiðandanum Voke-3 og eru úr dökkri hnotu. Yfirborð hurða- og skúffuforstykkja er úr slitsterku harðplasti sem er þægilegt í umgengni og viðhaldi. Vegghengdir efri skápar eru með innfræstri LED-lýsingu undir skápum í ljósum lit. Borðplötur eru 12 mm þykkar Compact. Eldhúsvaskur er undirlímdur. Eldhús skilast með vönduðum tækjum frá AEG: span-helluborði og bakarofni með innbyggðum hitamæli. Ýmist er gufugleypir innbyggður í efri skáp eða sem lofthengdur eyjuháfur,“ sagði í fasteignaauglýsingu á fasteignavef mbl.is þegar íbúðin var auglýst til sölu.
Hjónin bjuggu áður við Digranesveg í Kópavogi en seldu þá íbúð á dögunum á 81.900.000 kr.
Smartland óskar Söru og Árna Páli til hamingju með íbúðina!