Bogi Nils Bogason, forstjóri flugfélagsins Icelandair, og Björk Unnarsdóttir hjúkrunarfræðingur hafa selt glæsilegt einbýlishús sitt í Grafarvogi. Um er að ræða 221,4 fm hús sem reist var 1989. Húsið var teiknað af Vífli Magnússyni arkitekt. Í kringum húsið er gróinn garður sem hefur verið hugsað vel um.
Húsið var auglýst til sölu 2. júlí og stoppaði stutt við á fasteignamarkaðnum því 15. júlí var það selt. Nýr eigandi er Bergrós Ingadóttir, sérfræðingur hjá Alvotech. Hún greiddi ásett verð fyrir húsið eða 175.000.000 kr.
Í fasteignaauglýsingunni sagði:
„Fallegt og frábærlega staðsett einbýlishús teiknað af Vífli Magnússyni arkitekt. Hér er öll þjónusta í göngufæri, stutt í sund, skóla og leikskóla. Einkar glæsilegur suður garður með trampólíni, stórri verönd með heitum potti, útisturtu, og geymslum sem ekki eru skráðar í fermetratölu hússins. Í húsinu eru fjögur rúmgóð svefnherbergi, innbyggður bílskúr með góðum innréttingum, arinn og fleira sem prýðir þessa einstöku eign. Hellulögð innkeyrsla er við húsið.
Komið er inn í flísalagða forstofu með fataskáp og gestasnyrtingu. Stofa og borðstofa og eldhús eru með mikilli lofthæð, hljóðvistarplötur í lofti, arinn, tvennar stórar svalir. Glæsilegt stigahús er niður á neðri hæð hússins. Úr holi neðri hæðar er hurð út í skjólsælan suður garð. Á neðri hæð eru þrjú rúmgóð barnaherbergi, ásamt hjónaherbergi, fallegt flísalagt baðherbergi og sjónvarpsherbergi. Auk þess er vinnuaðstaða í holi. Mjög rúmgott þvottahús með hurð út í garð. Inn af þvottahúsi er fataherbergi/geymsla.“