Kvikmyndagerðarkonan Ísold Uggadóttir og sambýliskona hennar, Una Lind Hauksdóttir, hafa sett íbúð sína við Álfheima í Reykjavík á sölu. Eignin telur 95 fm og er á fyrstu hæð í fjölbýlishúsi sem reist var árið 1960.
Stofa og borðstofa eru samliggjandi í rúmgóðu og björtu alrými. Ljúfur og ljós sægrænn litur prýðir veggi rýmisins og tónar fallega við brúna viðartóna sem eru áberandi í húsgögnum. Stórir gluggar hleypa mikilli birtu inn í rýmið, en þaðan er einnig útgengt á suðursvalir.
Eldhúsið er einnig bjart með stórum glugga og fagurblárri innréttingu. Þá setur sjarmerandi retró-ísskápur frá Smeg svip sinn á rýmið, en hann er í svipuðum sægrænum tón og prýðir stofuna.
Eignin státar af tveimur svefnherbergjum og einu baðherbergi, þar af rúmgóðu hjónaherbergi. Ásett verð er 71.900.000 krónur.