Áshildur Bragadóttir endurmenntunarstjóri Landbúnaðarháskóla Íslands hefur fest kaup á íbúð við Bólstaðahlíð í Reykjavík. Íbúðina keypti hún af Birni Zoëga framkvæmdastjóra King Faisal Specialist Hospital and Research Centre í Sádi-Arabíu. Björn var áður forstjóri Landspítalans og Karolinska-háskólasjúkrahússins í Stokkhólmi í Svíþjóð. Hann var orðaður við forsetaframboð áður en hann flutti til Sádí-Arabíu.
Áshildur greiddi 160.000.000 kr. fyrir íbúðina. Kaupin fóru fram 1. júlí og fékk hún íbúðina afhenta 15. september.
Um er að ræða 225 fm íbúð sem er í húsi sem reist var 1949. Íbúðin var ferlega smart innréttuð og hafði að geyma undursamlega falleg húsgögn í mildum litum eftir þekkta norræna húsgagnahönnuði. Í eldhúsinu eru hvítar sprautulakkaðar innréttingar með svartri granít-borðplötu. Í kringum Amerískan-ísskáp eru sérsmíðaðar hillur sem setja svip sinn á eldhúsið.
Litavalið á íbúðinni er feykilega smekklegt en þar má sjá grænan lit sem minnir á árin í kringum 1950 og svo er ljósgrár litur notaður á móti sem er nýtískulegri.
Á dögunum seldi Áshildur 297 milljóna verðlaunahús í Kópavogi. Húsið er við Laxalind í Kópavogi og var teiknað af Birni Snæbjörnssyni arkitekt, bæði að utan og innan.
Smartland óskar Áshildi til hamingju með íbúðina!