„Vissulega flippuðum við Þórður Orri dálítið út“

„Að mínu mati er hugsanlega erfitt að nota orðið „óvenjulegt“ því að þetta tiltekna verkefni kallaði á það. Vissulega flippuðum við Þórður Orri dálítið út í þessum síðasta fasa en það var alltaf vitað að síðasti fasinn - matsalurinn, yrði punkturinn yfir i-ið,“ Sesselja Thorberg eigandi Fröken Fix um samstarfið við Þórð Orra Pétursson lýsingarhönnuð. 

„Samstarf okkar Þórðar var á allan hátt þægilegt og skiljum við vel hvort annað. Hann vissi upp á hár hvað það var sem ég vildi ná fram með hönnunin og hvernig ég vildi að upplifun starfsfólks yrði í  þessu tiltekna rými. Þar sem að hann var með frá byrjun- fengum við tækifæri til að þróa saman lýsingarhönnunina og innanhússhönnunina og því styðja báðar hliðar vel hvor aðra og útkoman verður spennandi og dýnamísk og hugsanlega óvenjuleg.“

Sesselja hefur unnið fyrir Advania síðan 2020 í endurhönnun húsnæðisins. Á dögunum var matsalurinn tilbúinn en þar er lagt mikið í lýsingu. 

Svona fljótt á litið er þetta meira eins og skemmtistaður. En þetta er mötuneyti fyrirtækisins ekki satt. Segðu mér betur frá þessu öllu?

„Mín sýn var sú að þegar gengið væri þarna niður myndir þú upplifa mjög sterkt nýtt umhverfi- einskonar útópíu. Ég lagði mikla áherslu á það að nýta þessa 500 fermetra mun betur en gert var, en áður voru þarna mjög einföld borð og rauðir og bláir plaststólar og bókstaflega ekkert annað. 

Í upphaflegu hugmyndavinnunni á skrifstofunum á hæðunum fyrir ofan, vildi stjórnin reyna að opna meira á milli deilda, fá fólk til að vera í meiri samskiptum og skapa mun fjölbreyttari rými til samveru og funda. Hönnunin á þessum sal var hugsuð þannig að salurinn er algjörlega margnota en ekki einungis til þess snæða. Þarna inni eru svæði til þess að funda, halda fyrirlestra, halda samkomur, deildarfundi og deila hugmyndum með samstarfsfólki. Plúsinn er svo að fá að borða góðan mat þarna líka. Það er ótrúlega auðvelt að færa alla hluti til og skapa þannig mismunandi andrúmsloft eftir því hvað er í gangi,“ segir hún. 

Skýin í loftinu minna svolítið á loftið í verslunarmiðstöð í Las Vegas. Hver var pælingin á bak við það?

„Hugmyndin er að þetta sé „þakgluggi“. Rýmið er staðsett í kjallaranum og ákváðum við strax að taka út þá kjallaraglugga sem voru sem ýttu of mikið undir þá tilfinningu að þú værir í raun staðsettur í kjallara. Þakglugginn þjónar einnig sem hljóðdempun yfir þeim stað sem fólk setur á diskana sína. Svo forritaði Þórður inn í hann partýlýsingu líka - sem skemmir ekki fyrir! 

Þegar boxið kom upp kom svo auðvitað ekki annað til greina en að kalla svæðið „skýið“ sem auðvitað er dálítið skondið, þar sem við erum jú í kjallaranum. Það eru allir búnir að gleyma því, svo það heppnaðist vel þessi hugsun.“

Framtíð í tæknigeiranum

Sesselja stofnaði Fröken Fix fyrir 14 árum og hefur fyrirtækið unnið mikið í höfuðstöðvum Advania eða í fjögur ár. 

„Byrjað var á mikilli vinnu í nánu samstarfi með stjórn þar sem þróaðar voru hugmyndir um hvaða framtíðarsýn þau sáu fyrir sér. Þetta var mikilvægur undanfari að svo flóknu og stóru verkefni en húsið er um 7000 fm og telur sex hæðir með um 540 starfsmenn.

Mikil samkeppni er um mannauð í tæknigeiranum og því mikilvægt að skapa umhverfi sem styður við leiðandi fyrirtæki eins og Advania, er umlykjandi fyrir mannauðinn sem þar vinnur og aðlaðandi fyrir ungt fólk sem sér framtíð sína liggja á tæknigeiranum.

Allar hæðir voru endurhannaðar með það að leiðarljósi að fjárfesta i betra og nútímalegu vinnuumhverfi fyrir mannauðinn, takast á við þær breytingar sem hafa átt sér stað í þróun skrifstofuvinnu eftir covid og styrkja um leið vörumerkið Advania í tæknigeiranum. Áhersla var lögð á að nýtingu efnis þar sem við átti og hönnun utan um það starf sem þarna fer fram. Gleði í umhverfinu var okkur í hönnunarteyminu leiðarljós, skapandi samspil og andstæður áhrif lita og ljóss sem og að skapa mikla fjölbreytni starfsstöðva og samveru svæða í gegnum allt húsið.

Við hjá Fröken Fix Hönnunarstudio sáum einnig um allt utanumhald, kostnaðaráætlanir, tímalínur, samskipti við iðnaðarmenn og erum stolt af því að við stóðumst allar tímalínur upp á dag,“ segir hún. 

Stofnaði fyrirtæki eftir atvinnumissi 

Hvernig hefur vinnan þín þróast síðustu 14 ár? 

„Ég byrjaði mjög einfalt. Stofnaði hönnunarstofu upp úr hruninu. Hver gerir það ekki? Ég var áður á arkitektastofu en lenti svo í hópuppsögn á þessum tíma eins og nánast allir arkitektar og hönnuðir. Ég byrjaði smátt með heimilisráðgjöf sem ég kalla Quick Fix og að teikna innréttingar fyrir fólk. Þessi ár voru mjög lærdómsrík og ég naut mín í botn. Svo fór ég smátt og smátt að gera stærri verkefni - bæði skrifstofur og heimili. 

Í dag er ég kominn í að stjórna verkefnum á mun stærri skala. Ég er svo heppin að hafa með mér samstarfsfólk verkefnum, bæði sem  vinna með mér á teiknistofunni og svo auðvitað líka topp iðnaðarmenn. Einnig hef ég náð að mynda gott tengslanet og vinn því einnig mikið þverfaglegt með lýsingahönnuðum og arkitektum,“ segir hún. 

Hvernig hugsar þú öðruvísi í dag en þá?

„Ég hef auðvitað bætt talsvert við reynsluna bæði í hönnun og stjórnun verkefna á þessum 14 árum og hugsa mun lengra inn í ferlið strax í teikninga fasanum. Ég hugsa hugsanlega meira um praktíkina í uppsetningu á meðan ég hanna og er með kostnaðaráætlunina á kantinum, en ég tapa ekki gleðinni og það verður að vera gaman. Það hefur ekkert breyst.“

Hvernig hefur hönnunarheimurinn breyst?

„Viðmót við faglegu utanumhaldi hefur algjörlega breyst. Advania er ótrúlega gott dæmi. Fólkið í stjórninni skildi að besta útkoman væri fengin með því að vinna sameiginlega að þróun og framtíðarsýn. Þau gáfu okkur mikilvægt pláss til þess að vinna að hugmyndavinnu, en einnig að teikna upp allt og vinna svo áfram alla leið inn í uppsetninguna. 

Hönnun er fjárfesting og ætti að hugsa um hana sem slíka. En hún er ekki einungis fjárhagsleg fjárfesting heldur fjárfesting í - eins og í þessu tilfelli- í mannauðnum og í framtíðinni,“ segir hún. 

Í hvaða verkefnum ertu helst? 

„Nú er þessu langa ferli að ljúka og því fylgir bæði léttir og söknuður. Ég hef einnig verið að vinna aðeins fyrir Stjórnarráðið og svo erum við líka að hanna skrifstofur Advania fyrir norðan sem lýkur upp úr áramótum Við erum einnig að byrja hönnun í fallegu húsi í Garðabænum og svo er það stórt sælgætisfyrirtæki sem er næst. En sem betur fer er fólk og fyrirtæki með mikinn skilning fyrir ákveðnum biðlista hjá okkur.“

Hvað er að gerast inni á íslenskum heimilum? Er eitthvað ákveðið trend í gangi?

„Við höfum það prinsipp að hanna alltaf fyrir hvern viðskiptavin í einu og hvernig hann vill að umhverfið þjóni sér, hvort sé um fyrirtæki eða einstakling sé um að ræða. Persónulega vil ég forðast „trend“ á þann hátt og fylgist þar af leiðandi árlegum sveiflum- en gleðin í umhverfinu ætti alltaf að leiða hvert verkefni.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda