Við Giljaland í Reykjavík er að finna sérlega eigulegt raðhús sem reist var 1968. Húsið, sem er á pöllum, er 235 fm að stærð og hefur verið endurnýjað mikið.
Eldhúsið snýr í norður og hefur að geyma hvíta sprautulakkaða eldhúsinnréttingu með dökkum borðplötum. Á einum veggnum í eldhúsinu eru flísar með fiskibeinamunstri sem setur svip á rýmið. Á veggnum er bæði vifta og veggljós sem búa til nýtískulegt yfirbragð.
Í eldhúsinu er gamaldags borðkrókur með hringlaga borði.
Á pallinum fyrir ofan eldhúsið er stofa með stórum gluggum sem snúa í suður. Í stofunni er sérstakur bókahilluveggur sem er bæði hægt að nota undir bækur en líka undir skrautmuni.