Erla og Tryggvi unnu til verðlauna

Erla og Tryggvi reka saman fyrirtækið Minarc Group.
Erla og Tryggvi reka saman fyrirtækið Minarc Group. mbl.is/Árni Sæberg

Erla Dögg Ingjaldsdóttir og Tryggvi Þorsteinsson eru arkitektar og eigendur vörumerkisins Minarc, sem þau stofnuðu árið 1999. Þau eru búsett í Los Angeles og unnu nýverið arkitektaverðlaunin The Los Angeles Architectural Awards á vegum Los Angeles Business Council (LABC).

Hundruð þátttakenda sendu inn verkefni í The Los Angeles Architectural Awards en tilgangur verðlaunanna er að varpa ljósi á þær hugmyndir þátttakenda sem ekki aðeins byggja á nýsköpun heldur þjóna einnig samfélaginu í heild.

Verðlaunaafhendingin fór fram á Beverly Hilton-hótelinu, í sama sal og t.d. Golden Globe-verðlaunin eru afhent. 

Dropinn er ein af hönnun Tryggva og Erlu sem notuð …
Dropinn er ein af hönnun Tryggva og Erlu sem notuð var í íbúð sem hönnuð var fyrir The Los Angeles Architectural Awards Skjáskot/Minarc Group

Fyrst og fremst Íslendingar

Saman eiga þau Erla og Tryggvi þrjár uppkomnar dætur. Velgengnin leikur við þau á vesturströnd Bandaríkjanna en hjartað slær á Íslandi.

„Við elskum Ísland og reynum að koma heim allavegana tvisvar sinnum á ári og stundum oftar,“ segir Erla og hefur alltaf lagt áherslu á við sínar dætur að þær séu fyrst og fremst Íslendingar þrátt fyrir að hafa alist upp í blíðunni í Los Angeles.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem þau vinna til verðlauna LABC en þau báru einnig sigur úr býtum árið 2020, fyrir hönnun á sérstaklega vel brunavörðu heimili. Húsnæðið er byggt með mnmMOD-bygg­ing­ar­tækn­i, úr viðargrind einangraðri með EPS-froðu og stáli, fyrir bæði vistvæni og eldþol.

Hvorki EPS-froðan né stálið eru eldsmatur og ættu því logar síður að berast í önnur húsnæði í kring.

Alltaf að hafa liti í kringum sig

Hvaða verkefni eru á teikniborðinu?

„Það er mikið af skemmtilegu á borðinu t.d. blokkir, veitingastaðir, einbýlishús og smáhýsi,“ segir Erla. 

Hvaða fimm ráð myndirðu gefa varðandi skipulag inni á heimilinu?

„Ég myndi segja að hver hlutur og hvert húsgagn eigi að hafa sinn stað.“

Erla leggur áherslu á vel skipulagt og þægilegt eldhús sem hún segir áríðandi fyrir heilsu heimilisfólksins. En hún er einnig hrifin af opnu rými, þar sem opið er milli stofunnar og eldhússins.  

Það er ekki úr vegi að nefna birtustigið innandyra sérstaklega þar sem Íslendingar eru að detta inn í svartasta skammdegið.

„Það á að hleypa birtu inn hvar sem möguleiki er á.“

Grunnurinn skiptir auðvitað máli og bendir Erla á mikilvægi þess að bæði húsgögn og húsnæði séu vel hönnuð og vel byggð. Í því samhengi ber að velja vandaðar vörur. 

Að lokum nefnir Erla að alltaf eigi að hafa liti í kringum sig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda