Góð byggingarlist verndar fólk fyrir umhverfinu

Húsið er á pöllum. Í stofunni eru bæði panelklædd loft …
Húsið er á pöllum. Í stofunni eru bæði panelklædd loft og veggir sem gefur rýminu mikinn sjarma. Ljósmynd/Gunnar Sverrisson

Hildur Gunnarsdóttir arkitekt festi kaup á raðhúsi í NeðraBreiðholti fyrir ellefu árum. Hún hefur hægt og rólega endurnýjað húsið, skipt um gólfefni og innréttingar, og gætt þess að hafa hið nýja í takt við byggingarstíl hússins.

„Raðhúsið er á pöllum eins og tíðkaðist að byggja í brekku eins og hér í Neðra-Breiðholti og í Fossvoginum. Það er tæpir 160 m2 og snýr aðkomuhliðin og forgarður í austur en bakgarðurinn er í vestur. Aðkoma er á miðpalli þar sem eldhúsið er að finna, herbergi eru á neðri palli og fjölskyldurými með aðgengi út í garð og svo eru borðstofa og stofa á efri palli. Þaðan er útsýni yfir húsin neðar í hverfinu og út yfir bæinn. Þar er líka kvöldsólin,“ segir Hildur aðspurð um húsið sitt.

Hvenær var það teiknað og reist?

„Raðhúsið er teiknað af Yngva Gestssyni og Þorkeli Gunnari Guðmundssyni árið 1967 og reist árið 1970. Yngvi var byggingafræðingur sem vann oft með öðru fagfólki að hönnun íbúðarhúsa og í þessu tilviki Þorkeli Gunnari, sem var með menntun í innanhússarkitektúr og húsgagnasmíði. Þorkell hannaði legubekk sem heitir Spíra og var mjög þekktur á tímabili. Ég er með eitt eintak af Spíru í húsinu sem ég fékk frá vinkonu sem hafði sofið á bekknum í æsku.“

Fórstu strax í endurbætur eða bjóstu í húsinu í einhvern tíma áður en það var endurnýjað? Þurfti nauðsynlega að skipta um innréttingar og slíkt? Var þetta úr sér gengið?

„Aðeins ein fjölskylda hafði búið í húsinu á undan okkur. Margt var því komið á tíma fyrir endurbætur en annað var mjög vel með farið og hluti af sjarma hússins sem ég féll fyrir í upphafi. Stórir gluggar, opið skipulag, afstaða hússins til sólar og birtu, panellinn á lofti og veggjum úr sama viði og innihurðirnar og ekki síst brúnu svala-, útihurða- og gluggapóstarnir gáfu karakter sem ég vildi halda í. Við byrjuðum á að skipta út örugglega fimm gerðum af gólfefnum og settum kork á öll gólf, fyrir utan gólf í votrýmum. Breytingarnar gerðum við svo smám saman. Byrjuðum á fataskápum niðri, tókum svo eldhúsið og gestaklósett og síðast baðherbergið.“

Ljósmynd/Gunnar Sverrisson
Glugginn sem er uppi við loft hleypir birtu inn. Hildur …
Glugginn sem er uppi við loft hleypir birtu inn. Hildur lét setja kork á gólfin því hann er slitsterkur og skapar hlýleika á heimilinu. Ljósmynd/Gunnar Sverrisson
Ljósmynd/Gunnar Sverrisson

Gott skipulag grunnurinn

Það er ákveðin list að gera upp eldri hús án þess að glata sjarma þeirra. Hvað hafðir þú í huga þegar þú teiknaðir þitt hús?

„Húsið er í grunninn með mjög gott skipulag, hreinar línur og gott flæði á milli pallanna sem og aðgengi út í garð og út á svalir. Eldhúsið er staðsett á miðpalli með góða sjónræna tengingu bæði niður á neðsta pallinn og upp í stofu á efsta pallinn. Breytingarnar miðuðust að því að uppfæra eldhúsið að nútímakröfum og nýta plássið betur með t.d. skápavegg upp í loft og setbekk með skúffum undir. Baðherbergið var svo líka uppgert í stað þess gamla sem hafði þjónað hlutverki sínu í 50 ár. Breytingarnar miðuðust að því að nútímavæða húsið þannig að það myndi áfram þjóna hlutverki sínu sem fjölskylduhús, vonandi næstu 50 árin, án þess að breyta því í annað hús með t.d. framandi efnisvali.“

Horft inn í stofu og borðstofu.
Horft inn í stofu og borðstofu. Ljósmynd/Gunnar Sverrisson

Hvað um efnisval í húsinu? Segðu mér betur frá því.

„Efnisval tók mið af því sem fyrir var og aldri hússins og hönnun. Korkurinn á gólfin var t.d. valinn til þess að tóna saman við viðartegundirnar sem fyrir voru án þess að bæta einni til viðbótar við. Sérsmíðaðar innréttingar úr eik tóna vel við það sem fyrir var í bland við hvítar hlutlausar innréttingar. Flísarnar á baðherbergi eru svo hvítar og grænar, sem mér fannst passa betur en t.d. gráar flísar fyrir svona seventís hús. Græni liturinn tengir mig við gróður og garðinn og var hugsaður til þess að skapa ró og spa-andrúmsloft á baðherberginu. Þar fékk reyndar einn veggur að vera klæddur korki. Korkur er frábært efni sem er bæði mjúkt og vatnsfrávísandi. Þegar það er lakkað stenst það mikið álag og var þess vegna mikið notað á eldhúsgólf í gamla daga.“

Hvað ertu ánægðust með? Hver er þinn staður í húsinu?

„Ég er ánægðust með það hvað húsið heldur vel utan um fólk. Það er hæfilega opið og hæfilega verndandi, ef svo má segja. Því að byggingarlist fjallar í grundvallaratriðum um að vernda okkur fyrir umhverfinu en að sama skapi tengjast því líka. Húsið hefur líka getað aðlagast breytingum. Við ákváðum fyrir nokkrum árum, þegar krakkarnir stækkuðu, að breyta herbergjaskipan þannig að þau fengju stærri unglingaherbergi en við foreldrarnir fórum í minnsta herbergið. Breytingarnar voru samt gerðar þannig að hægt er að breyta hjónaherberginu, sem við fórnuðum í þessum tilfæringum, aftur til baka með lítilli fyrirhöfn. Minn staður í húsinu er eflaust í morgunsólinni í eldhúsinu og í forgarðinum þar fyrir framan með kaffibolla á góðum degi.“

Ljósmynd/Gunnar Sverrisson
Hildur valdi hvítar látlausar innréttingar í eldhúsið sem passa við …
Hildur valdi hvítar látlausar innréttingar í eldhúsið sem passa við byggingarstíl hússins. Ljósmynd/Gunnar Sverrisson

Lúxus að hafa eldhúsglugga

Hvernig eru raðhúsin í Breiðholtinu frábrugðin til dæmis nýjum raðhúsum í Garðabæ? Er eldhúsið ekki lokað, ekki opið inn í stofu eins og tíðkast svo mikið í dag?

„Ég geri ráð fyrir að nýrri raðhús í Garðabæ séu á tveimur hæðum en ekki á pöllum og með opið eldhús inn í borðstofu og stofu í svokölluðu alrými. Raðhúsin í Breiðholti eru flest með eldhús í sérrými, eins og tíðkaðist á áttunda áratugnum en eldhúsin eru oft hálfopin þannig að þau eru í góðum tengslum við önnur rými hússins án þess að vera bókstaflega í sama rými. Eldhúsin hafa líka eldhúsglugga sem virðist vera orðið lúxus í sumum nýbyggingum.“

Hvítu ferköntuðu flísarnar minna á gamlan tíma en eru á …
Hvítu ferköntuðu flísarnar minna á gamlan tíma en eru á sama tíma nútímalegar. Ljósmynd/Gunnar Sverrisson

Rannsaka og greina fjölbýlishús

Þú og félagar þínir í Híbýlaauði hafið látið til ykkar taka og bent á að nýbyggingar séu ekki hannaðar með þarfir fólks að leiðarljósi. Getur þú útskýrt það betur?

„Við í Híbýlaauði erum þverfaglegur hópur sérfræðinga á ýmsum sviðum mannvirkjahönnunar sem hefur rannsakað og greint fjölbýlishús í Reykjavík út frá íbúðargerðinni sjálfri og nytsemi hennar fyrir íbúann. Þannig höfum við skoðað áhrif skipulags og hönnunar á birtu og sólarljós, gerð og útfærslu íbúða sem byggðar hafa verið með opinberum stuðningi og þá þróun sem hefur verið í málaflokknum á undanförnum árum. Þar virðast þarfir fólks hafa lotið í lægra haldi fyrir öðrum hvötum byggingaraðila, oft fjárhagslegum, hvort sem þeir eru á markaði eða opinberir aðilar, og bera nýbyggingar þess því miður margar hverjar merki.“

Í eldhúsinu er borðkrókur með bekk úr eik sem passar …
Í eldhúsinu er borðkrókur með bekk úr eik sem passar við stílinn á húsinu. Ljósmynd/Gunnar Sverrisson

Eldhúsin eru oft og tíðum allt of stór miðað við heildarfermetra íbúðar. Hvers vegna er þetta svona? Hvað kom fyrir okkur?

„Hönnun íbúða snýst um samhengi hlutanna. Að stærð eldhúss endurspegli stærð íbúðar og fjölda íbúa sem nota það. Stundum eru eldhús íbúðarbygginga alltaf jafnlítil, sama hve margir búa í íbúðinni og stundum virðast þau vera hönnuð sem söluvara fyrir fasteignaauglýsingu, þar sem eyjan og borðstofan eru farin að yfirtaka stóran hluta alrýmisins á kostnað annarra rýma eins og stofunnar.“

Þið hafið líka bent á skuggagarða og fleira sem virkar ekki ef fólki á að líða sem best. Hvað fleira er að gerast í íslenskum arkitektúr sem er miður?

„Skuggagarðar eru afleiðing of þéttrar byggðar miðað við íslenskar aðstæður. Það er kannski ekki við arkitektana að sakast, sem fá það verkefni að hanna inn í aðstæður þar sem óheppilegar ákvarðanir um of mikinn þéttleika hafa verið teknar á skipulagsstigi og innlent regluverk um ljósvist er veikburða og tryggir ekki gæði ljósvistar nægjanlega mikið. Við vorum með slagorð á sýningu Híbýlaauðs á Hönnunarmars í Hafnarhúsinu í ár sem var „Byggingarreglugerðin er vinur þinn, hvar er ljósvistarkaflinn?““

Ljósmynd/Gunnar Sverrisson

Hvaða byggingartímabil er best að þínu mati hér á Íslandi?

„Allur tími hefur sinn sjarma en sem barn áttunda áratugarins í Breiðholti, sem hefur búið í ýmsum hverfum og íbúðagerðum og þar á meðal íbúð í Kaupmannahöfn frá árinu 1815, þá er ég mjög hrifin af þessu tímabili og hverfinu mínu. Hverfið er gróið með miklum gróðri og grænum svæðum inni á milli þar sem gönguleiðir og hjólastíga er að finna. Íbúðirnar eru oft opnar og bjartar og búið er að leysa upp lokuð rými í betra flæði á milli rýma og opna heilu útveggina fyrir birtu, sem var þróun sem byrjaði u.þ.b. áratug fyrr.

Með seventís, eða áttunda áratugnum, kemur líka, að mínu mati, efniskennd með vilja til þess að sýna efnin í sinni tæru útgáfu. Uppbygging bygginga er rökræn og samspil gróðurs og bygginga sjarmerandi þegar vel tekst til.“

Ljósmynd/Gunnar Sverrisson
Ljósmynd/Gunnar Sverrisson
Ljósmynd/Gunnar Sverrisson
Ljósmynd/Gunnar Sverrisson
Hildur valdi grænar flísar því þær minna á árin í …
Hildur valdi grænar flísar því þær minna á árin í kringum 1970 þegar húsið var reist. Ljósmynd/Gunnar Sverrisson
Ljósmynd/Gunnar Sverrisson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda