Inga Birna Barkardóttir, fjármálastjóri Össurar, og Guðmundur Björnsson, fjárfestir hjá Eldey Invest hafa sett eigulegt einbýlishús sitt í Mosfellsbæ á sölu. Hjónin komust í fréttir í vikunni þegar þau festu kaup á 350.000.000 kr. glæsihúsi við Hæðarbyggð 26 í Garðabæ. Húsið var ekki auglýst til sölu heldur selt í skúffunni. Glæsihúsið keyptu þau af Sigsteini Páli Grétarssyni og Stellu Stefánsdóttur.
Inga Birna og Guðmundur hafa nú sett einbýlishúsið sitt við Þrastarhöfða 16 á sölu. Um er að ræða 249 fm einbýli á einni hæð. Húsið var reist 2006 og hefur húsið tekið heilmiklum breytingum frá því það var byggt. Skipt hefur verið um innréttingar og fleira til að gera húsið meira aðlaðandi.
Einbýlishúsið er ekki bara með smart innréttingum heldur er það búið vönduðum og góðum húsgögnum. Í húsinu er ríkulegt magn af Montana-hillum sem eru danskar og sérlega vinsælar hérlendis en þær fást í Epal. Þar er líka Tom Dixon bronslitað speglaljós, rautt egg eftir Arne Jacobsen, Polder-sófi Hellu Jongerius sem fæst í Pennanum og Fuzzy-kollurinn hans Sigurðar Más svo einhver húsgögn séu nefnd á nafn.