Svana Lovísa Kristjánsdóttir, fagurkeri og hönnuður, opnaði á dögunum blómasíðuna sína Studio Flamingo. Á vefsíðunni má finna svokallaða eilífðarblómvendi samansetta af Svönu úr handgerðum gerviblómum.
Það er ár síðan hugmyndin kviknaði þegar Svana var stödd í Flórída. Hún hafði lengi leitað að fallegum gerviblómum en hvergi fundið.
„Ég hafði lengi leitað að raunverulegri gerviblómum til að skreyta heimilið mitt með. Úrvalið af gerviblómum heillaði mig ekki og silkiblómin sem eru algengust þóttu mér ekki nógu raunveruleg. Ég lagðist í mikla rannsóknarvinnu og fann að lokum einstaklega vönduð eilífðarblóm sem eru flest hver með áferð sem minnir á ekta blóm,“ segir Svana.
Hún er þakklát fyrir hjálpina sem hún hefur fengið síðustu vikur við að setja upp heimasíðuna og segist umkringd frábæru fólki. Einnig býður hún jólin velkomin en næstu dagar verða líklega erilsamir hjá Svönu þar sem vefsíðan er komin í loftið.