Ásta Eir Árnadóttir lagði fótboltaskóna á hilluna á dögunum eftir að hafa landað Íslandsmeistaratitli sem fyrirliði Breiðabliks. Hingað til hefur líf hennar snúist um fótbolta en í ár ætlar hún að njóta alls þess sem þessi árstími býður upp á. Ásta er fagurkeri fram
í fingurgóma og sýnir lesendum hvernig hún leggur á borð þegar mikið liggur við.
„Stóra breytingin er held ég bara öðruvísi hversdagsleiki. Ég mun hafa meiri tíma heimavið, sem er kærkominn, og bara almenn gleði með fjölskyldunni minni og vinum. En jólin breytast svosem ekkert, eða það held ég ekki. Kannski bara aðeins meiri tími til að gera og græja en vanalega,“ segir Ásta aðspurð að því hvernig líf hennar verði eftir fótboltaferilinn. Hún býr í Bryggjuhverfinu með kærasta sínum, Marinó Þór Jakobssyni og einkasyninum Benjamín sem er fjögurra ára.
Ertu mikið jólabarn?
„Já, ég myndi segja það. Ég elska að komast í jólagírinn og byrja hægt og rólega að skreyta og halda svo í gamlar og nýjar hefðir tengdar jólunum.“
Hvað kemur þér í jólaskap?
„Það er alls konar. Ég byrja yfirleitt að hlusta á nokkrar uppáhaldsjólaplötur í lok nóvember. Þá kemst ég oftast í gírinn,“ segir hún.
Þegar Ásta er spurð út í jól bernskunnar segir hún að þau hafi alltaf verið gleðileg og skemmtileg og góðar minningar séu á færibandi.
„Ég á tvö systkini og við vorum mikið úti í garði að búa til snjókarla eða fara í snjóstríð. Við fórum oft inn í bílskúr í fótbolta eða handbolta á meðan mamma og pabbi voru að græja jólamatinn, sem voru oftar en ekki rjúpur og allt það besta með þeim,“ segir hún. Ásta er alin upp við að baka tromptoppa með móður sinni og systur.
„Svo fór öll fjölskyldan saman í Garðheima að velja jólatré og svo skar ég út laufabrauð með allri stórfjölskyldunni heima hjá ömmu og afa. Þetta eru svona minningar sem standa upp úr.“
Ásta stundaði háskólanám á Flórída og segir að það hafi verið svolítið sérstakt að upplifa aðventu í sól og hita.
„Ég kom alltaf heim um jólin en náði alltaf að vera úti í byrjun desember. Það var alltaf jafn sérstakt að vera í hitanum þar sem jólaljós og jólaskraut var út um allt. Ég mun upplifa það aftur í ár þar sem við fjölskyldan ætlum að skella okkur á heimaslóðir þessi jólin.“
Hvernig eru jólin eftir að þú varðst fullorðin og eignaðist kærasta og barn?
„Bara dásamleg! Við Marinó vorum alltaf hvort í sínu lagi á jólunum þangað til við eignuðumst barn. Okkur fannst báðum frekar erfitt að fara frá fjölskyldum okkar en núna skiptum við þessu á milli frá ári til árs. Strákurinn okkar er strax orðin mjög mikið jólabarn og mér finnst gaman að búa til nýjar hefðir fyrir okkur.“
Ásta er búin að leggja fallega á borð þegar ljósmyndara Morgunblaðsins ber að garði. Heimilið er í skandínavískum stíl og hönnunin eftir því. Hún segist vera svona temmilega mínímalísk. Það er ekki allt beige-litað.
„Ég kýs að hafa skreytingar á borðinu frekar einfaldar en fallegar. Vil hafa nóg af plássi fyrir matinn frekar en of mikið skraut. En kerti eru algjört lykilatriði, er almennt mikil kertakona og finnst mjög huggulegt að hafa kertaljós á borðinu,“ segir hún. Dúkur og diskar eru úr IKEA, hnífapör frá Sabre Paris sem fæst hjá Akker, kertastjakarnir og kertin frá HAY og IKEA.
Áttu mikið jólaskraut?
„Nei, myndi ekki segja það. Hef svona hægt og rólega sankað að mér jólaskrauti síðustu ár. En ég á hins vegar tvær jólatrésmottur. Eina sem er alltof stór og ég keypti hana á alltof marga peninga til að getað notaða hana einn daginn í framtíðarhúsinu mínu. Hún bíður betri tíma.“
Eruð þið Marinó sammála um það hvernig eigi að skreyta heimilið fyrir jólin?
„Já, eða við höfum svo sem aldrei lent í neinum deilum um það, sem er bara jákvætt. En við erum með frekar svipaðan stíl almennt þannig að þetta er ekkert vandamál.“
Hvað dreymir þig um inn á heimilið?
„Eins og staðan er í dag þá langar mig í HAY Mags Soft-sófa og listaverk eftir Regínu Rourke.“
Jólagjafir eru hátt skrifaðar hjá Ástu en lítill fugl hvíslaði því að mér að þú gerðir sérstaka jólagjafalista. Segðu mér betur frá þessu fyrirkomulagi og hvernig það virkar.
„Skemmtilegt að þú skulir spyrja! Þetta á nú bara við nokkra fjölskyldumeðlimi og sumir eru á móti þessu en þetta er í rauninni bara stórsniðugt. Við systur og frænkur deilum stundum lista á milli okkar og hugmyndin á bak við það er að við treystum hver á aðra með að koma listanum áfram og gefa þar með tips til fleiri í fjölskyldunni því allir fá þessa spurningu: „Hvað vill systir þín í jólagjöf“ eða „hvað vill kærastan í jólagjöf?“
Hvað langar þig í í jólagjöf?
„Mig langar til dæmis í japanska hnífa og góðan útivistarjakka. Listinn er í vinnslu,“ segir hún og hlær.
Hvenær byrjar þú að kaupa jólagjafir?
„Ég segist alltaf ætla að byrja fyrr og dreifa kostnaðinum en svo gerist það aldrei og ég er alltaf að græja allar gjafir í desember. Ég er ekkert rosalega skipulögð.“
Ertu svona manneskja sem vilt drífa þetta af eða leggurðu metnað í að velja hárrétta gjöf fyrir þitt fólk?
„Ég legg metnað í þetta þótt ég sé stundum á síðustu stundu að kaupa gjafirnar. Ég pæli alveg lengi í því hvað ég ætla að gefa hverjum.“