Margrét Helga Erlingsdóttir, fréttamaður á Stöð 2, og Jón Gunnar Þórðarson, framkvæmdastjóri Bara tala, hafa fest á glæsilegu útsýnishúsi við Tjarnarbrekku á Álftanesi. Um er að ræða 294,8 fm einbýlishús sem reist var 2007.
Hjónin keyptu húsið af Andrési Bögebjerg Andréssyni og greiddu fyrir það 192.500.000 kr. Þau hafa nú þegar fengið húsið afhent en afsal fer ekki fram fyrr en í ágúst á þessu ári.
Stórir gluggar prýða húsið sem bjóða upp á útsýni út á sjó og yfir móann þar sem fuglalíf er mikið. Hátt er til lofts og vítt til veggja eins og sagt er. Eldhúsið er opið að hluta til inn í stofu og þar er að finna sérsmíðaðar innréttingar og mikinn elegans!
Smartland óskar Margréti Helgu og Jóni Gunnari til hamingju með húsið!