Finnur Kári Pind Jörgensen, stofnandi og framkvæmdastjóri nýsköpunarfyrirtækisins Treble Technologies, hefur fest kaup á raðhúsi í Fossvogi ásamt eiginkonu sinni, Birgittu Lind Vilhjálmsdóttur næringar- og matvælafræðingi. Húsið sem hjónin keyptu er við Giljaland 13 og vakti það athygli þegar það var auglýst til sölu.
Raðhúsið er 235,7 fm að stærð og var reist 1968. Húsið er á pöllum og afar smekklega innréttað.
Eldhúsið í húsinu snýr í norður og hefur að geyma hvíta sprautulakkaða eldhúsinnréttingu með dökkum borðplötum. Á einum veggnum í eldhúsinu eru flísar með fiskibeinamunstri sem setur svip á rýmið. Á veggnum er bæði vifta og veggljós sem búa til nýtískulegt yfirbragð.
Í eldhúsinu er gamaldags borðkrókur með hringlaga borði.
Á pallinum fyrir ofan eldhúsið er stofa með stórum gluggum sem snúa í suður. Í stofunni er sérstakur bókahilluveggur sem er bæði hægt að nota undir bækur en líka undir skrautmuni.
Finnur og Birgitta keyptu húsið af Narfa Þorsteini Snorrasyni og Svövu Þorleifsdóttur og greiddu 172.000.000 kr. fyrir það.
Smartland óskar Finni og Birgittu til hamingju með nýja húsið!