Við Kaldakur 6 í Akrahverfinu er að finna einstaklega fallegt 236,4 fm einbýlishús sem reist var 2006. Húsið var auglýst til sölu í september og seldist strax. Það var félagið Melsnes ehf., sem er í eigu Sigmars Páls Jónssonar lögmanns og eins af eiganda Nordik lögfræðiþjónustu, sem keypti húsið. Félagið greiddi uppsett verð fyrir húsið eða 230.000.000 kr. Félagið keypti húsið af Sigrúnu Þórólfsdóttur og Magnúsi H. Björnssyni.
Nú er húsið komið aftur á sölu og það í endurbættri útgáfu. Það er magnað að sjá hvað málning og húsgagnaval getur gjörbreytt heimili.
Þegar félag Sigmars Páls keypti húsið var það allt hvítmálað að innan fyrir utan einn og einn vegg í steingráum lit. Nú kveður við annan tón því nú eru veggir í bleiktóna sandlit sem er afar huggulegur. Búið er að skipta um gluggatjöld í húsinu og gerir það gæfumuninn er varðar fagurfræðilegt heildarútlit.
Gluggatjöld eru í sama bleiktóna sandlitnum og veggir hússins og skapar þessi tvenna hlýlega stemningu.