Skartgripahönnuðurinn Þórhildur Þrándardóttir, konan á bak við Viðja Jewelry, er ekki búin að ákveða í hverju hún verður þessi jólin og hún er ekkert að stressa sig á að finna nýtt dress. Ef hún fengi að ráða myndi hún klæðast kjól sem móðir hennar saumaði á hana í æsku.
Er fjölskyldan alltaf í fínasta pússi á aðfangadag? „Já við erum það, ég hef alltaf haft mjög gaman af því að vera fínt til höfð á aðfangadag og haft gaman af því að hafa börnin mín til, mér finnst það vera ákveðinn partur af hátíðarstemningunni á aðfangadag.“
Eftirminnilegasta jóladressið þitt: „Blár rósóttur kjóll sem mamma saumaði á mig þegar ég var sjö ára.“
Hefur þú orðið fyrir einhverju minnisstæðu tískuslysi á jólunum? „Engu sem kemur strax upp í hugann. Ég reyni að klæðast því sem mér líður vel í hverju sinni.“
Hvernig er drauma-jólakjóllinn? „Ég hef ekki átt mér neinn drauma-jólakjól en ætli drauma-jólakjóllinn væri ekki helst kjóllinn sem mamma saumaði á mig þegar að ég var lítil, verst að ég passa ekki í hann lengur.“
Leggur þú einhverja áherslu á förðun yfir jólin? „Nei,“ segir Þórhildur sem er þó ansi hrifin af rauðum varalit. Á meðfylgjandi myndum er hún með varablýant í litnum Cherry og varalitinn Lady Danger, bæði frá MAC.