Skreytingarnar í Hvíta húsinu, bústað forseta Bandaríkjanna, eru persónulegri og heimilislegri í ár en oft áður. Þemað í ár er setningin „We the People“ sem er fyrsta setningin í formálanum að stjórnarskrá Bandaríkjanna.
Venju samkvæmt er það forsetafrúin sem sér um skreytingar Hvíta hússins. Jill Biden forsetafrú skreytti trén í ár með sérstökum kúlum með spegli svo fólk geti séð sjálft sig í Hvíta húsinu.
„Það er mikill ásetningur á bak við þetta, mjög meðvitað. Það er mjög mikilvægt fyrir forsetafrúna að fólk sjái sjálft sig í skreytingunum,“ sagði talsmaður skrifstofu forsetafrúarinnar.
Í aðalhlutverki í skreytingunum í ár eru líka myndir af nemendum, handskrifaðar uppskriftir og einnig gæludýr forsetahjónanna, hundurinn Commander og kötturinn Willow.
Alls eru 77 jólatré í húsinu í ár, 25 kransar og 83.615 ljósaperur. Það voru svo 170 sjálfboðaliðar hvaðanæva að úr Bandaríkjunum sem eyddu viku í að skreyta hvern krók og kima forsetabústaðarins. Þeirra á meðal voru tvær systur forsetafrúarinnar.