„Mamma hvenær ætlar þú að fara á concerta?“

Auður Bergsteinsdóttir, lífskúnstner og fyrrverandi kennari.
Auður Bergsteinsdóttir, lífskúnstner og fyrrverandi kennari. mbl.is/Kristinn Magnússon

Flest jólaskraut heima hjá Auði Bergsteinsdóttur, lífskúnstner og fyrrverandi kennara, er heimagert. Rétt fyrir jól býður Auður í kringum 100 manns í jólaboð. Í boðinu er iðulega kæfa á borðum. Eitt af því sem Auður ólst upp við var að fyrir hver jól var búin til sviðasulta, kæfa og soðið hangikjöt sem var hægt að kroppa í yfir jólin.

Það var fyrir hálfgerða tilviljun að Auður byrjaði að halda stórt jólaboð rétt fyrir jól. Hefðin komst á fyrir 17 árum þegar hún bauð nokkrum konum heim til sín 22. desember. Vinkonuhópnum, sem voru samkennarar, fannst hún skulda heimboð og þá skellti hún í veislu. „Þegar fór að líða að jólum árið eftir ákvað ég að hafa jólaboð aftur. Þá bauð ég um 30 konum,“ segir Auður sem segir að boðið hafi bara stækkað síðan, það hafa allt að 130 manns mætt í það. „Það er opið hús hjá mér frá tvö fram eftir kvöldi og fólk kemur og fer. Fólk grípur með sér vínflösku en ég er með dekkað borð með kæfu, sviðasultu, hangikjöti og engiferkökum og ýmsu fleiru,“ segir Auður sem vill ekki halda því fram að boðinu fylgi mikil vinna. Hún býður upp á einfaldan mat og þegar síðustu gestir fara á hún bara eftir að fara yfir gólf og setja í uppþvottavél.

Uppskriftin að kæfunni sem Auður býður upp á í boðinu er frá vinkonu hennar Sólveigu Baldursdóttur. Hún kaupir danska lifrarkæfu út í búð og blandar sveppum og beikoni út í. „Ég geri mikið af þessari kæfu einu sinni til tvisvar á ári og set hana í lítil form. Ég er dugleg að fara í ABC Barnahjálp eða Góða hirðinn til að kaupa litlar krúsir og gef kæfuna í litlum krúsum,“ segir Auður sem gefur vinum og vandamönnum og þeim sem hafa átt erfitt á árinu.

Jólakæfan er einföld. Auður kaupir danska lifrakæfu út í búð. …
Jólakæfan er einföld. Auður kaupir danska lifrakæfu út í búð. Steikir sveppi og beikon og blandar saman. mbl.is/Kristinn Magnússon

Býr líka til sviðasultu fyrir jólin

„Ég fæddist á Bessastöðum í Fljótsdal og ég fór austur á hverju ári fram yfir fermingu og var allt sumarið. Mamma gerði alltaf kæfu og sviðasultu og sauð hangikjöt fyrir jólin. Ég hætti að gera kæfu nokkru áður en ég fékk uppskriftina að þessari lifrarkæfu af því að kindakæfan sem er í búðum er svo góð.“

Þrátt fyrir að hafa fæðst fyrir austan ólst hún upp á Njálsgötunni í Reykjavík í sannkölluðu fjölskylduhúsi. „Við vorum á fyrstu hæðinni, amma og afi á þeirri næstu og þrjú systkini mömmu á efstu hæðinni en mamma er ein 19 systkina. Ég geri alltaf sviðasultu fyrir jólin. Ég sýð fimm eða sex sviðahausa og bý til sultu,“ segir Auður sem segist ekki viss hvort jólahefðin sé að austan eða ekki.

„Við þurftum alltaf að vera búin að klæða okkur fyrir fjögur á aðfangadag. Þegar við vorum búin að því máttum við fara upp til afa og ömmu og systkina mömmu á efstu hæðinni. Það er talað um að hringja jólin inn klukkan sex en klukkan fjögur máttum við fara upp, við biðum eftir því systkinin. Mamma saumaði alltaf á okkur jólaföt og ég á enn gamla jólakjóla.“

Stjarnan er um 70 ára gamall jólatrésfótur sem er nú …
Stjarnan er um 70 ára gamall jólatrésfótur sem er nú notaður sem skraut. mbl.is/Kristinn Magnússon

Kornstönglar og graflax var lúxusmatur

Auður og maður hennar eiga sex börn og 15 barnabörn. Það eru nokkur ár síðan hún hætti að bjóða heim á aðfangadag, nú fer hún ásamt eiginmanni og bróður sínum til barnanna sinna. Hún segir blendnar tilfinningar fylgja því að hætta að vera heima á aðfangadagskvöld.

„Við hjálpum til með barnabörnin og matinn og komum svo heim og það er allt fínt heima. Það er mikil breyting, það er léttir en það er líka stemning að vera heima og vera á síðustu stundu, allir að drífa sig inn í borðstofu klukkan sex þegar klukkurnar byrja að hringja. En það er líka gaman að breyta til, maður eldist og aðlagast breytingum,“ segir Auður, sem er alltaf með boð á annan í jólum.

Margar fjölskyldur borða möndlugraut saman þegar skipst er á pökkum en Auður býður upp á graflax, ristað brauð og kornstöngla. „Þetta var lúxusmatur á áttunda áratug síðustu aldar. Syni mínum Hilmari fannst ristað brauð og reyktur lax það besta sem hann fékk en dóttur minni Soffíu Sigríði þótti kornstönglar svo góðir þannig að ég hafði þetta handa þeim á aðfangadag og þau máttu borða eins mikið af þessu og þau vildu. Ég býð ennþá upp á þetta en núna geri ég það við pakkaskiptin, sem eru einhvern laugardaginn í desember heima hjá mér.“

Auður geymir jólaskrautið í gömlum kistli inni í stofu sem …
Auður geymir jólaskrautið í gömlum kistli inni í stofu sem hefur fylgt fjölskyldunni lengi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Byrjaði snemma að búa til jólagjafir

Auður er mikil handverkskona og er flest jólaskrautið hennar eftir hana og börnin hennar. Hún hefur gefið jólaskraut í jólagjafir í mörg ár. „Þegar ég var ung þá bjó ég til jólagjafir. Ég saumaði jólaskraut og gaf foreldrum, frænkum og systur minni. Mig langaði að gefa eitthvað veglegt en það voru ekki svo miklir peningar. Ég hafði tíma, orku og var dugleg. Svo hef ég haft gaman af því að eyða kröftunum í eitthvað svona. Ég get ekki endalaust prjónað sjöl og peysur.“

Meðal þess sem Auður býr til eru jólakúlur á jólatré. Hún notar gamlar blúndur til þess að búa kúlurnar til. „Ég á mikið af gamalli blúndu. Þetta eru yfirleitt gamlar blúndur af koddaverum eða öðru. Þótt koddaver sé slitið er blúndan kannski heil. Í gamla daga voru uppskriftir oft bútar, þú fékkst bút frá einhverjum. Ég tók þessar blúndur og fór að hugsa um hvað ég gæti búið til úr þeim. Sumar blúndur eru til dæmis slitnar og þá skreyti ég þær með hnútum úr silkigarni.“

Auður byrjaði að gefa heimagerðar gjafir þegar hún var yngri …
Auður byrjaði að gefa heimagerðar gjafir þegar hún var yngri og hafði minna á milli handanna. Kristinn Magnússon

Auður býr líka til jólahnykla sem hægt er að hengja á jólatré. „Vinkona mín, Unnur Hjaltadóttir, á hnykil sem er meira en 100 ára gamall. Þetta er leikfang sem var gert handa pabba hennar, þetta var náttúrlega bara bolti í gamla daga. Ég nota ullarkembu eða gamalt garn inn í hnyklana mína – ekki frauð eða plast. Það getur verið stroff af peysu, stundum set ég ullarkembu og set korktappa í miðjuna til að gera hann léttan. Þetta er endurvinnsla en ég kaupi garnið sem ég vef síðast,“ segir Auður.

Auður situr aldrei auðum höndum. Jólakúlurnar og hnyklarnir eru meðal …
Auður situr aldrei auðum höndum. Jólakúlurnar og hnyklarnir eru meðal þess sem hún dúllar við úr gömlum afgöngum. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég hugsa ekki áður en ég segi já“

Auður er komin yfir sjötugt en ef hún væri yngri hefði hún örugglega verið send í greiningu.

„Ég segi stundum frá því þegar ég hélt upp á sjötugsafmælið mitt 29. febrúar rétt fyrir kórónuveirufaraldurinn. Dóttir mín, sem er tónlistarmaður og heitir Guðrún Árný, var veislustjóri. Í þessu boði var ég með fullan bíl af gömlu dóti sem ég staflaði á miðjuna á matarborðið. Þetta voru meðal annars myndir og gamlir hlutir sem höfðu verið gerðir fyrir mig þegar ég var krakki. Ég var með dót í miðjunni og mat í kring. Ég geri aldrei neitt auðvelt! Þá segir Guðrún Árný við mig: „Mamma, hvenær ætlar þú að fara á concerta?“ Ég var búin að vera eins og jarðýta í marga daga,“ segir Auður og hlær.

„Þegar ég var krakki var ég spurð í skólanum hvort það væri njálgur í rassinum á mér og fékk að heyra að ég hagaði mér eins og farfugl. En svo kom ég í sveitina og þá var alltaf sagt að ég væri svo viljug og dugleg. Í sveitinni nýttist ég alveg gríðarlega vel. Ég á við vandamál að stríða sem er að ég hugsa ekki áður en ég segi já,“ segir Auður sem hefur þó náð að beina orkunni á rétta staði með til dæmis gríðarlegri framleiðslu á handavinnu og stóra jólaboðinu rétt fyrir jól.

Lítið og sætt jólatré með heimagerðu jólaskrauti.
Lítið og sætt jólatré með heimagerðu jólaskrauti. mbl.is/Kristinn Magnússon

Jólakæfa

  • einn bakki sveppir
  • einn bakki beikon
  • einn bakki dönsk lifrarkæfa
  1. Steikið sveppi og beikon á pönnu.
  2. Blandið öllu vel saman og setjið í leirform með smá beikoni ofan á til skrauts.

Berið fram með rúgbrauði eða maltbrauði, hrútaberjasultu og súrum gúrkum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda