Katrín Lillý Sveinsdóttir stofnaði síðuna Gömul og góð húsráð á Facebook fyrir fjórum árum. Markmiðið var fá eldri frænkur og aðra í fjölskyldunni til að deila gömlum húsráðum en í dag eru fjölmargir sem fylgjast með síðunni. Þrátt fyrir að hafa gaman af góðum húsráðum segist Katrín ekki of upptekin af þrifum, jólin komi þrátt fyrir að ekki sé allt glansandi fínt.
„Ég er ein af þeim sem þrífa jafnt og þétt yfir árið. Ég er alveg hætt að taka svona alþrif fyrir jólin en ég vanda mig líklega aðeins meira,“ segir Katrín þegar hún er spurð hvernig hún þrífi fyrir hátíðarnar.
„Ég held að fólk skiptist alveg í tvo hópa með þrif fyrir jólin. Yngra fólkið okkar er ekki eins stressað og eldri kynslóðin var að hafa allt hreint og tíu sortir af smákökum í boxum uppi í skáp. Mér finnst þessi þróun mjög góð og vona að fólk reyni frekar að njóta jólanna en að stressast upp út af smá ryki. Jólin koma þó að maður sé ekki búinn að skrúbba og bóna alla íbúðina.“
Skiptir máli að skipuleggja þrif fyrir jólin?
„Já, ég held að það sé mjög gott. Sérstaklega ef þú ætlar í alþrif. Annars ættu þrifin ekki að vera neitt mál. Bara fá alla á heimilinu til að hjálpast að!“
Ef það ætti að sleppa einhverju fyrir jólin, hvað væri það?
„Að láta stressið ná tökum á sér. Bara njóta tímans.“
Það fægja margir silfur fyrir jólin og kann Katrín gott húsráð til að einfalda verkið. „Flestum finnst leiðinlegt að pússa silfur. Ein leið er að setja álpappír í botninn á potti, síðan skal hálffylla hann af köldu vatni og setja matarsóda út í. Þá er silfrið sem á að þrífa sett í pottinn og suðan látin koma upp. Eftir smástund er silfrið orðið silfurlitt aftur.“
Katrín nefnir annað gott húsráð sem er nútímalegra. „Svo er eitt sem er mjög gott. Ef leirtauið kemur alltaf blautt úr uppþvottavélinni, prófið þá að setja viskastykki yfir hurðina þegar vélin er búin og loka vélinni aftur. Viskastykkið dregur í sig rakann og leirtauið verður þurrt.“
Hvað kemur þér í jólaskap?
„Ljúf og þægileg jólalög og þegar jólaljósin eru komin upp um allan bæ.“
Hvað ætlar þú að gera um jólin?
„Ég ætla að njóta þess að vera í fríi frá vinnu og hitta fjölskylduna. Einnig finnst mér alveg ómetanlegt að komast á jólahlaðborð á aðventunni,“ segir Katrín.