„Jólaborðið stóð í ljósum logum“

Vala hefur komið sér einstaklega vel fyrir í fallegu húsi …
Vala hefur komið sér einstaklega vel fyrir í fallegu húsi í Mosfellsdal ásamt eiginmanni sínum og börnum þeirra. Morgunblaðið/Karítas

Vala Garðarsdóttir er kona margra hatta. Hún er fornleifafræðingur að mennt, sérfræðingur í forsögulegri fornleifafræði og víkingaaldarfornleifafræði, og rekur sitt eigið fyrirtæki, VGfornleifarannsóknir. Auk þess er hún fimm barna móðir, þriggja barna amma og í framboði fyrir Framsóknarflokkinn í komandi alþingiskosningum, það er því alla jafna í nægu að snúast hjá henni

Líf Völu tók jákvæðum breytingum fyrir átta árum þegar Ásgeir Ragnarsson lögmaður kom óvænt inn í líf hennar og fylgdi með honum einn sonur. Sjálf var hún þriggja barna móðir þegar þau kynntust og urðu ástfangin. Ekki leið á löngu þar til fjölgaði í barnahópnum þegar þau eignuðust tvær dætur, bæði þá komin á fimmtugsaldurinn.

Vala er mikið jólabarn og veit fátt betra en að eiga notalegar stundir með fjölskyldunni yfir hátíðirnar. Hún og fjölskylda hennar halda fast í íslenskar jólahefðir en hafa einnig mótað nýjar með það að markmiði að skapa ógleymanlegar minningar. Jólin verða þó fjölskyldunni erfið í ár en sonur Ásgeirs, Leó, kvaddi þennan heim fyrr á árinu og munu þau hugsa hlýtt til hans um jólin um leið og þau syrgja góðan dreng.

Það var alltaf gaman að fá jólasveininn í heimsókn.
Það var alltaf gaman að fá jólasveininn í heimsókn.

Með léreftspoka fullan af gjöfum

Vala er úr stórri og samheldinni fjölskyldu sem á það sameiginlegt að elska jólin. Hún er alin upp á Höfn í Hornafirði og á margar góðar minningar frá bernskujólunum í humarbænum.

„Í minni fjölskyldu er mjög rík og sterk jólahefð. Við erum mikið jólafólk og njótum þess að skapa gæðastundir, þannig hefur það verið frá því að ég var ung. Mamma, amma og langamma gerðu alltaf mikið af laufabrauði fyrir hver jól og var það ákveðið upphaf að jólaundirbúningnum hjá fjölskyldunni. Allir komu saman og gera enn. Afi sá um að skera út, gerði munstrin með rakvélarblaði, og við krakkarnir sáum um að bretta upp á. Amma sá um að steikja og mamma og systir hennar þjöppuðu brauðin um leið og þau komu upp úr steikingarpottinum.“

Hvenær manstu eftir fyrstu jólunum?

„Ég var fimm ára gömul. Amma og afi komu til Hafnar í Hornafirði til að eyða jólunum með okkur. Afi mætti klæddur eins og jólasveinn og var með léreftspoka fullan af gjöfum á bakinu. Það þótti okkur systkinunum afskaplega skemmtilegt. Á þessum tíma höfðu mamma og pabbi ekki mikið á milli handanna en þau pössuðu alltaf upp á að gera jólin eftirminnileg. Jólatréð okkar, sem var gert úr spýtum, stóð ofan á pappakassa sem pabbi hafði fengið í vinnunni. Þetta hljómar eins og ég hafi alist upp á 18. öld,“ segir Vala og hlær. „Þetta var árið 1980. Mjög góð og eftirminnileg jól, spýtutrésjólin.“

Hefur einhvern tímann eitthvað farið úrskeiðis um jólin?

„Já, heldur betur. Það var jólin 1986, þegar ég er 11 ára gömul. Við vorum alltaf með humar á jólaborðinu – hvað annað! – og þessi jól var ákveðið að hafa humar-„fondue“ í forrétt. Pabbi kveikti undir „fondue“-pottinum, sem stóð á miðju borðinu innan um alls kyns skreytingar, en þá vildi ekki betur til en svo að það helltist úr skálinni og jólaborðið stóð í ljósum logum. Það varð uppi fótur og fit og pabbi reif dúkinn af borðinu, mamma öskraði og við krakkarnir hentumst í gólfið, þetta var eins og atriði úr bíómynd.

Pabbi var á þessum tíma að byggja bílskúr við húsið, eins og allir gerðu í þá daga, og var grunnurinn í bílskúrnum því opinn. Honum tókst á einhvern undraverðan máta að fara með eldhúsborðið, dúkinn og allt sem var á borðinu ofan í grunninn, á meðan skegg hans og skyrta brunnu. Þetta fór þó allt vel og við héldum jólin á heimili nágranna okkar.“

Manstu hvernig þér leið?

„Mér fannst þetta gaman, ef ég á að segja eins og er. Þessi jól voru ólík öllum öðrum, en einhvern veginn dásamleg. Við rifjum þetta reglulega upp og hlæjum alltaf. „Þegar pabbi kveikti í jólamatnum“ er jólagamansaga fjölskyldunnar.“

Jólin eru ekki eins í höfuðborginni

Vala flutti ásamt fjölskyldu sinni til Reykjavíkur þegar hún var á fjórtánda ári.

„Það varð hrun í sjávarútveginum og fyrirtækið hans pabba þurfti bara að breyta um stefnu, hann var þjónustuaðili í sjávarútveginum, loftskeytamaður, og ákvað að venda kvæði sínu í kross og fór að læra að fljúga í Reykjavík. Við fylgdum honum að sjálfsögðu. Pabbi lauk atvinnumannaprófi í flugi og fór svo inn í Mýflug og starfaði sem flugstjóri á sjúkraflugvélinni næstu 30 árin.“

Var munur á jólahaldi á Höfn og í Reykjavík?

„Á Höfn, í þessu litla samfélagi, var miklu meira lagt upp úr öllu jólahaldi, þannig er það í minningunni. Það var alltaf mikil jólastemning á Höfn, bærinn breyttist í algjört jólaland. Allir þekktu alla, fólk gekk á milli húsa og naut tímans saman. Ég hugsa að þetta sé meira gert í bæjum úti á landi, þar ríkir önnur menning. Áramótin voru einnig dásamlegur tími á Höfn, það voru brennur og allir klæddu sig upp sem álfa og huldufólk. Það var töfrandi.“

Vala ásamt föður sínum og bróður.
Vala ásamt föður sínum og bróður.

Varð móðir 19 ára

Vala eignaðist sitt fyrsta barn 19 ára gömul og segir að móðurhlutverkið hafi kennt sér að kunna betur að meta það sem hún ólst upp við.

Hvernig leið þér þegar þú komst að því að þú ættir von á barni?

„Mér fannst ég mun eldri en ég var. Þetta var alls ekki planað, gerðist bara. Mér fannst þetta yndislegt, ég var full tilhlökkunar að verða móðir. Ég var nemandi í Kvennaskólanum þegar ég varð ófrísk og veit ekki hvort ég á að segja að ég hafi verið heppin, en akkúrat þegar ég eignaðist dóttur mína, í nóvember 1994, var að hefjast kennaraverkfall sem varði í næstum því þrjá mánuði. Ég naut góðs af því! Aðalsteinn Eiríksson, þáverandi skólameistari Kvennaskólans, var æðislegur og sýndi mér mikinn skilning og samþykkti að ég færi á frjálsa mætingu. Ég fékk einnig ómetanlega hjálp frá móður minni og gat því vel sinnt bæði móðurhlutverkinu og náminu. Ég útskrifaðist á réttum tíma, útskrifaðist sem mjög stolt móðir.“

Hvernig voru fyrstu jólin þín sem móðir?

„Þau voru yndisleg, svo ljúf og róleg.“

Vala á fimm börn á aldursbilinu þriggja til 30 ára.

Breyttist jólahefðin eftir að þú varðst móðir?

„Já, algjörlega. Ég fór að stunda miklu meira það sem ég var alin upp við og kunni betur að meta það með börnunum mínum. Ég er enn þá að reyna að betrumbæta mig af því að mér finnst þetta skipta svo miklu máli í uppeldinu, að eiga fallegar fjölskylduhefðir, hvort sem það er að mála piparkökur, skera út laufabrauð, skrifa jólakort, sem við gerum enn, eða föndra, ég kann alltaf betur og betur að meta það.

Fann ástina á ný

Vala kynntist núverandi eiginmanni sínum, Ásgeiri Ragnarssyni lögmanni, árið 2016 í gegnum sameiginlega vini. Þau eiga saman tvær ungar dætur, fæddar 2018 og 2021, og segir Vala það hafa komið sér mjög á óvart þegar hún komst að því að hún ætti von á barni, þá 43 ára gömul.

„Við tókum aldrei meðvitaða ákvörðun um að eignast barn. Hann langaði að eignast börn og mig langaði alveg í það líka, en mér fannst ég samt alveg hundgömul, ég var orðin amma, elsta dóttir mín sá til þess, en hún er núna þriggja barna móðir. Svo verð ég allt í einu ófrísk en lendi í því að missa fóstur mjög snemma á meðgöngu. Aðeins örfáum vikum seinna varð ég ófrísk að nýju og eignuðumst við fyrri dóttur okkar á milli jóla og nýárs árið 2018, það voru yndisleg en öðruvísi jól.“

Líturðu móðurhlutverkið öðrum augum í dag?

Já, ég geri það. Sko, mér finnst lífið núna vera miklu viðkvæmara. Ég er mun meðvitaðri um hvað lífið er hverfult. Á einni sekúndu er allt í blóma en á þeirri næstu getur allt hrunið. Mér finnst ég vera hræddari.“

Eftir að þú kynntist Ásgeiri, varð einhver breyting á jólahaldinu?

„Ég held að breytingin hafi mest verið hjá honum. Greyið kallinn,“ segir Vala og hlær. „Hann vildi helst engin jól, eða bara svona lítil og mínimalísk jól. Hann er alinn upp af einstæðri móður og kannski litaður af því. Jólin hjá honum voru mjög róleg, algjör andstæða þess sem ég upplifði í æsku. Við reynum að finna hinn gullna meðalveg yfir hátíðirnar, rólegheit og kaótík.”

Vala og Ásgeir kynntust fyrir átta árum og eiga saman …
Vala og Ásgeir kynntust fyrir átta árum og eiga saman tvær dætur. Hún átti þrjú börn fyrir og hann son sem lést óvænt í janúar á þessu ári. Jólin verða því svolítið öðruvísi nú en áður.

Í jólanáttfötunum fram eftir degi

Hvað eru jólin fyrir þér?

„Sko, jólin fyrir mér eru bara tími til að vera saman. Ég elska að geta bara verið með fjölskyldunni minni. Við erum með sterkar hefðir á Þorláksmessukvöld, en þá klárum við að skreyta jólatréð, setjum pakkana undir tréð og förum í jólabaðið. Allir fara í jólanáttföt og svo beint í háttinn. Við erum í jólanáttfötunum til klukkan þrjú á aðfangadag, tökum daginn bara rólega. Yfirleitt geri ég beikon, pönnukökur og heitt kakó í hádeginu og allir horfa á jólasjónvarpið. Svo keyra eldri krakkarnir út jólapakkana á meðan við hin sinnum undirbúningi heima. Við hlustum að sjálfsögðu á gufuna þegar jólin eru hringd inn klukkan 18 og þá er borðað. Þegar borðhaldi lýkur þá göngum við frá, komum okkur fyrir í stofunni og sá yngsti í hópnum, sem kann að lesa, les jólaguðspjallið, barnaútgáfuna af því, og svo eru pakkarnir opnaðir.“

Ertu byrjuð að undirbúa jólin?

„Heyrðu, já! Við fjölskyldan erum búin að skreyta allt að utan og svo er ég búin að kaupa helminginn af jólagjöfunum. Ég hef aldrei verið svona skipulögð áður. Ég er mjög stolt af þessu.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda