Jólin hafa alltaf verið minn uppáhaldstími. Það að geta föndrað músastiga í skólanum og innbyrt ógrynni af sparinesti kom með ljós inn í tilveruna og kveikti vonir í brjósti. Svo var alltaf mikil jólagjafaorgía í gangi á heimilinu, sem ég elskaði og elska enn. Þrátt fyrir gleðilegar jólaminningar geta jólin líka verið erfið fyrir þá sem hafa upplifað missi.
Það er ekki til nein mælistika á það versta sem manneskjan getur upplifað. Það eru margir utanaðkomandi þættir sem spila þar inn í og svo er fólk misharðgert, eða í mismikilli afneitun.
Sjálf ætla ég ekki að dæma það – hver og einn þarf að finna sinn veg.
Fyrir fjórum árum hlakkaði ég til að koma heim úr vinnunni því fyrr um daginn fór jólablað Morgunblaðsins í prentun. Kórónuveirufaraldurinn geisaði og ég man að það var lítill gluggi opinn þarna sem við synir mínir ætluðum svo sannarlega að nýta vel. Fara í Kringluna og heimsækja ömmu mína, sem var orðin fullorðin á þessum tíma. Ég var líka búin að lofa sonum mínum tveimur, sem voru 11 og 14 ára á þessum tíma, að fara með þá í klippingu því það taldist til munaðar þar sem hárgreiðslustofur voru meira og minna lokaðar.
Allt stóð eins og stafur á bók. Ég brunaði með þá nýklippta og sæta með heita kjúklingabita heim til ömmu minnar. Áttum við eftirminnilega stund með henni þar sem við skoðuðum gamlar ljósmyndir, hlógum að fyndnum atvikum fortíðar og borðuðum löðrandi skyndibita. Við kvöddum ömmu með fingurkossum og knúsum og hlökkuðum til að heimsækja hana fljótlega aftur.
Við þrjú heimsóttum ömmu mína aldrei framar því daginn eftir féll 14 ára sonur minn skyndilega frá.
Ég hef oft heyrt að fólk sem verður fyrir þungu áfalli muni ekki neitt og dagar og mánuðir á eftir séu í móðu. Ég upplifði þetta ekki svona. Ég man allt, hverja einustu mínútu þennan tiltekna dag, dagana á eftir og í raun allar götur síðan.
Það er ekki hægt að mæla með þessari jólaupplifun, að jarða barnið sitt í desember, en það er hægt að fara í gegnum allt ef fólk er gott við sjálft sig. Það er nauðsynlegt að umvefja sig og sýna sjálfu sér skilning og ekki er verra ef einhver í nærumhverfinu getur lagt eitthvað til.
Upp komu þrjár mikilvægar spurningar: „Hvernig ætla ég að gera þetta?“ „Hvernig get ég lifað þetta af?“ „Getur einhver hjálpað mér?“
Ég er forréttindakona því ég fékk svar við þessum þremur spurningum og góða hjálp frá fólki.
Eftir útförina átti eftir að kaupa jólagjafir og finna út úr jólatrésmálum. Við sonur minn þræddum verslunarmiðstöðvar og keyptum jólagjafir eins og ekkert hefði í skorist. Og viti menn, það virkaði. Á meðan við vorum að spá í hvað við ættum að kaupa handa tvíburum systur minnar, systkinabörnum mínum og splunkunýju stjúpbarnabarni mínu gleymdum við eigin harmi og hresstumst örlítið.
Svo var það jólatréð.
Í einhverju flippi árið 2004 hafði ég keypt hvítt gervijólatré sem fylgdi okkur þangað til þarna 2020. Því hafði verið hent stuttu áður vegna öldrunar og nú voru góð ráð dýr því sonur minn tók ekki annað í mál en að fá hvítt jólatré því hann sagði að það væru jólin í hans huga. Hvít gervijólatré þóttu ekki hæstmóðins jólin 2020 og erfitt var að finna tré svo að sonur minn kæmist í jólastemningu.
Á endanum fundum við eitt en það var einn galli á því. Það voru áfastar marglitar perur á trénu. Það gekk ekki, því stílistanum á heimilinu fannst litríkar jólaperur ekki passa við hvítt tré. Þessi stílisti var því heila kvöldstund að pilla þessar áföstu litríku jólaljósaseríur af trénu. Og viti menn! Stílistinn hresstist örlítið á meðan og gleymdi stund og stað.
Svona hefur þetta gengið koll af kolli. Það gerist alltaf eitthvað skemmtilegt sem kryddar tilveruna. Þegar söknuðurinn hellist yfir má hann hellast yfir því það er eðlilegt og hluti af mannlegri tilfinningastarfsemi.
Að baka kökur og borða þær er líka hressandi iðja og eins að fletta uppskriftum og lesa um vonir og væntingar annarra. Þess vegna er svo dýrmætt að fá gott lesefni í hendurnar því það kryddar tilveruna og getur hresst fólk við um stund og jafnvel vakið örlitla von í brjósti. Það að eiga von um gleðileg jól er dýrmætt í þessu öllu saman.