Það hafa ekki verið neinar vöflur á Láru Björgu. Sumir myndu kalla þetta djörfung en stofurnar eru til dæmis dökkgrænar, dimmrauðar og sinnepsgular. Þetta er þó síður en svo litafyllerí. Reynistaður er meira en hundrað ára gamalt herrasetur, þar sem myndarlegir hvítlakkaðir listar, rósettur og gerefti þræða alla veggi. Sterkir litir tóna því vel við þetta umhverfi og eins og segir, þetta er allt spurning um dug eða dáðleysi.
Eggert keypti húsið árið 1920, réðst þá í nokkrar viðbætur og byggði stórar stofur við húsið sem er upprunalega frá því um 1874. „Ég hef tekið um eitt herbergi á dag, byrja snemma á morgnana, mála yfir veggfóðrið upprunalega sem hefur verið málað hundrað sinnum, er búin seinnipartinn og um kvöldið er eins og ekki hafi verið hreyft við neinu, nema kominn nýr litur á vegginn.“
Við röltum um stofurnar sem eru alskreyttar. Jólalög og jólailmur taka á móti blaðamanni þennan októbermorgun og Lára bregður ekki svip þegar því er skotið inn að jólaundirbúningurinn byrji greinilega snemma. Hún byrjar í september.
„Hægt og rólega getum við sagt að ég byrji að innleiða stemninguna. Ég úða grenilykt úr spreybrúsa hér og þar án þess að vera kannski sérstaklega að tala um það. Með því að fólk finni ilminn venst það því sjokki þegar ég byrja að setja skrautið upp í október. Jólin eru þó alltaf í huga mér, allan ársins hring. Í verslunum erlendis á sumrin, hvar sem er, á meðan það eru bara aðrir sem sjá þau ekki.“
Lára Björg er búin að kaupa jólagjafirnar snemma og hún myndi aldrei á neinum tímapunkti kalla það að kaupa gjafir að „afgreiða þær“.
„Þetta er engin kvöð. Ég er búin að kaupa allar gjafir snemma, pakka þeim öllum inn og setja inn í skáp.“
Þegar þú ert búin að lauma inn grenilykt og enginn á heimilinu fattar að þú ert að leiða jólin inn baka til, hver eru þá næstu skref?
„Þá fer ég að hugsa um stóra rammann, ljósin og hvernig skuli skreytt úti í garði. Þar er stórt og gamalt tré og í október er búið að koma öllum seríunum fyrir og stinga í samband. Skreytingum mínum um jólin myndi ég helst líkja við snjóbolta sem byrjar snemma að rúlla af stað og verður stærri og stærri. Svo þegar líður á, og einhverjir kunna að halda að allt sé til, eru kannski seríudagar í einhverri búðinni og þá hleð ég í og bæti við. Ég er í raun alltaf að bæta á, það er bara gott fyrir heimilisfólkið að allt birtist ekki á einum degi og það fái taugaáfall. En það er ekki það að ég sé að fela mig, ég skammast mín ekki neitt heldur hleð bara í þetta hægt en örugglega.“
Kristín Anna Claessen, amma Láru Bjargar, fæddist í húsinu árið 1926 og síðar móðir Láru Bjargar, Ragnheiður Margrét Guðmundsdóttir, sem lést fyrir sex árum. Lára er því fjórða kynslóðin sem býr á Reynistað.
Hvernig er sú tilfinning?
„Það er smá skrýtin tilfinning því ég hef auðvitað verið í þessu húsi frá því að ég fæddist og var mikið hjá ömmu og afa sem stelpa. Ég vissi þó ekki hvernig það yrði svo að búa hérna og það kom mér á óvart hversu þægilegt það er.“
Húsið er óvenjulegt að því leyti að í því eru stórar stofur sem taka við hver af annarri á meðan svefnherbergin eru kannski færri en gengur og gerist í svona stóru húsi sem var óvenjulegt á þeim tíma sem það var byggt og gert upp. Við höldum áfram að renna yfir verkferla Láru Bjargar í jólaundirbúningnum.
„Þegar útiljósin eru komin á sinn stað dreg ég fram inniseríurnar sem ég hef alltaf hvítar en í lok október eru þær allar komnar upp. Mér finnast marglitar seríur fallegar en ég hef vanið mig á hvítt því þetta eru jólin, og þau mega ekki verða að einhverri útihátíð.
Þegar ljósin eru komin upp er ég með fullt af krönsum sem ég hengi uppi bæði úti og inni. Ég er mjög veik fyrir krönsum og keypti einn afar stóran á brunaútsölu fyrir einhverjum árum. Hann var stærri en jeppadekk, með áfastri seríu, ég þurfti að sækja hann á jeppa til að koma honum fyrir en svo kviknaði ekki á seríunni. Ég sat því uppi með jólakrans sem leit ekkert út eins og skraut heldur stórt jeppadekk hangandi framan á húsinu, eins og stórt svarthol þegar tók að dimma. Það var ekki gott.“
Hvar sem er laust pláss á Reynistað er jólaskrauti komið fyrir.
„Ég hendi upp gömlu Oddfellow-dúkkunum sem ég man svo vel eftir ömmu Kristínu og vinkonum hennar útbúa. Þær prjónuðu peysur með tannstönglum á jólakarlinn og -kerlinguna og svo pakkaði ég inn pínulitlum frauðplaststeningum með ömmu, þetta eru svo skemmtilegar minningar.“
Guðmundur Benediktsson afi Láru setti líka sitt mark á jólin; hann bjó alltaf til „Húsavíkurfjallið“ inni í forstofu en það samanstóð af speglum, grænum filtdúk, jólasveinum og -sveinkum. Filt-teppið setti hann yfir skál og speglarnir voru skautasvellið. Hann átti góðar minningar sjálfur frá skautasvellinu á Húsavík.“
Stórfjölskyldan þekkir ekkert annað en að fara í jólaboð á Reynistað og nú er það Lára Björg sem heldur boðin.
„Skárra væri það nú, það er nú ein af ástæðunum fyrir því að ég bý hérna – ég fæ að halda boðin.“
Við ræðum aðeins hina tvo gjörólíku hópa sem oft lendir saman í aðdraganda jólanna. Það eru annars vegar þeir sem skreyta snemma og hinir sem ekki þola jólaskraut.
„Allir gera grín að mér og mínum líkum. En ég vil bara hafa þetta eins og í gamla daga og endurvekja minningar. Og fyrir mér snýst jólaskraut um minningar. Báðir þessir hópar eru í raun oft að díla við sama „trámað“. Við sem skreytum snemma erum að leita í minningar og nostalgíu og kannski að reyna að tengjast einhverjum sem eru fallnir frá. Hinn hópurinn saknar kannski líka en finnst erfitt að takast á við það og jólaskrautið og það er svo skiljanlegt.“
Lára Björg segir að augljóslega sé hennar leið að fara alla leið í hina áttina en hún reki sig á það að þurfa að svara fyrir sig.
„Við jólaskrautsfólkið erum ofsóttur hópur. Ég er ekki að reyna að vera óþolandi með því að skreyta svona mikið, síður en svo, það eina sem mig langar er að fólk komi heim til mín og því líði vel, líði eins og það sé að koma inn í eitthvað þægilegt. Að heimili mitt sé ævintýri fyrir fólk að stíga inn í.“
Það er ef til vill svolítið seint að koma inn á það í viðtalinu en Lára býr ekki ein í jólaskrautinu sínu á Reynistað. Þar búa líka fimm karlmenn, eins og hún orðar það. Eiginmaðurinn Tryggvi Tryggvason, synirnir Björn Óttar og Ólafur Benedikt og Ragdoll-kettirnir Jurgen Klopp og Kenny Dalgish. Sem láta sér allir fátt um finnast.
„Það er enginn að draga úr mér, Tryggvi fer og hengir upp seríur í stiganum möglunarlaust en það er ekki eins og allt heimilið sameinist í föndri og bakstri. Ég er ein í þessu og það er allt í lagi, þetta er bara mitt verkefni, á móti kemur að ég kann til dæmis ekki mikið að elda.
Ég vil líka meina að við skreytingarfólkið, sem erum allt haustið að hugsa um hvernig við getum gert allt fallegt, erum að skoða og pæla, fara út í búð, kaupa þetta og finna hitt til – okkar vinna er gjarnan mjög vanmetin. Ég er ekki að segja að fólk sé vanþakklátt en það gerir sér ekki grein fyrir hvað það fer mikil vinna í þetta.
Ég vil að hvert sem þú lítir sjáirðu eitthvað fallegt og ég veit að innst inni finnst fjöllunni þetta alveg smá skemmtilegt. En það er nú samt alltaf svo að sá sem gerir steikina fær mesta hrósið, meðan þú stendur með sprungnar æðar í augum og hefti í hárinu eftir seríuslag. Þetta er ósýnileg vinna.“
Jólin á Reynistað eru gyllt, græn og rauð og allt þetta speglast í kristal. „Því ég vil alls ekki þennan skandinavíska mínimalisma,“ segir Lára Björg og hefur takmarkaða þolinmæði fyrir drapplituðum og ljósgráum stjörnum.
„Ég vil dramatísk jól. Að þú gangir inn til mín og jólaþunginn leggist yfir þig eins og þú sért að ganga inn í jólakúlu.“
Blaðamaður lítur á Láru Björgu til að athuga hvort henni stökkvi bros. Ekki vottur.
„Ef ég gæti haft gervisnjókomu myndi ég gera það. Amma Birna og afi Ragnar bjuggu lengi í Bandaríkjunum og amma mín úðaði alltaf hvítu frauðspreyi yfir jólatréð. Ég á ennþá jólakúlur frá henni með frauðinu á.“
Lára Björg vísar hér í föðurforeldra sína, Birnu Önnu Sigvaldadóttur og Ragnar Karlsson. Þegar Lára bjó sem krakki í Bandaríkjunum var keyrt til þeirra á jólunum og jólaseríurnar voru skoðaðar í þaula á leiðinni.
„Ég hugsaði alltaf hvað það hlyti að vera gaman hjá þeim sem væru með mikið skraut og mig langar til að það sé gaman hjá mér.“
Hvert er viðhorf þitt til jólanna?
„Þegar ég var að alast upp fórum við oftast í messu og þegar ég var í Hamrahlíðarkórnum sungum við systurnar í messu, oft bæði klukkan sex og svo fórum við líka í miðnæturmessu. Þetta var afar hátíðlegt.“
Birna Anna Björnsdóttir, rithöfundur og systir Láru, býr með fjölskyldu sinni í New York.
„Eftir að ég og systir mín eignuðumst börn koma þau um jólin til Íslands frá New York, og hér á Reynistað erum við öll í mat. Þetta snýst um samveru, við erum bara saman og allt er alltaf eins. Ég geri kartöflurnar, systir mín kemur með desertinn, systir mín og Tryggvi gera sósuna. Það myndi aldrei vera tekið í mál að einhver annar gerði sósuna og ég veit að þetta hljómar kannski ekki þannig, en þetta er alltaf alveg afslappað. Svo taka við stóru jólaboðin og áramótin.“
Fyrir utan þessar heimilisvenjur eru engar hefðir í útstáelsi, hvorki jólatónleikar né eitthvað sem krefst þess að panta miða.
„Fólk segir gjarnan að það sem sé svo gaman við aðventuna sé að fara á jólatónleika og slaka síðan bara á í desember, en sjálf fer ég ekki neitt og slaka auðvitað ekkert á. Sem er smá mótsögn en intróvertinum í mér finnst ekkert gaman að fara á umfangsmikil mannamót eða stóra tónleika. Ég kann best við mig ein heima, að pakka inn, vesenast og þrífa. Jólahreingerning er allt árið um kring hjá mér og þú finnur ekki eitt horn sem er óþrifið í lok nóvember.“
Að lokum er því hvíslað hvort það klúðrist virkilega aldrei neitt í jólahaldinu. Stórt spurningarmerki fylgir.
„Jólin eru aldrei klúður hjá mér. Við segjum gleðileg jól klukkan sex, hlustum á messuna, syngjum með, borðum um sjö. En það þarf ekkert endilega að vera sami maturinn. Enda er það skrautið sem er aðalatriðið.“
Lára kveikir á kertum því farið er að skyggja, bætir aðeins á grenilyktina með nokkrum gusum og brosir. Og tekur að lokum fram að hún beri engan kala til þeirra sem skreyta lítið eða bara ekkert.
„Það er ekkert bannað að gera þetta öðruvísi en ég. Mér finnst þetta bara svo gaman.“