Ísterta sem bráðnar í munni

Ísterta með möndlum og marsipani er dásamleg á bragðið.
Ísterta með möndlum og marsipani er dásamleg á bragðið. mbl.is/Marta María

Eitt af því sem er ómissandi um jólin er að útbúa þessa ístertu. Uppskriftin kemur upphaflega frá dönskum bakara en nú er ístertan búin til um hver jól á heimili í Fossvoginum og sleikja allir fjölskyldumeðlimir út um af vellíðan. 

Möndlubotn


100 g möndlur
100 g sykur
½ tsk lyftiduft
3 eggjahvítur

Stífþeytið eggjahvíturnar og sykurinn saman. Síðan eru möndlurnar skornar smátt og þeim bætt út í ásamt lyftiduftinu. Taktu fram tvö smelluform og settu bökunarpappír í þau. Stráðu örlitlu hveiti yfir smjörpappírinn svo botnarnir festist ekki við.

Botnarnir eru bakaðir við 170 gráður í 20-25 mínútur.

Marsípanís

3 eggjarauður
50 g sykur
80 g marsípan
3 dl þeyttur rjómi

Byrjaðu á því að þeyta rjómann og settu hann í skál. Svo eru eggjarauðurnar þeyttar saman við sykurinn. Marsípanið er rifið niður og bætt úr í eggjahræruna. Þá er rjómanum bætt varlega út í hrært.

Súkkulaðiís

3 eggjarauður
50 g sykur
100 g 70% súkkulaði
3 dl þeyttur rjómi

Þeyttu rjómann og settu hann í skál. Svo eru eggjarauðurnar þeyttar saman við sykurinn. Þá er súkkulaðið saxað niður og bætt út í. Þeytta rjómanum er svo bætt út í og hrært varlega saman.

Nú er allur efniviðurinn tilbúinn í kökuna og þá er hafist handa við að koma henni saman. Taktu annað smelluformið og smyrðu botninn með brómberjasultu eða einhverri annarri. Það er til dæmis gott að nota trönuberjasultu. Svo er marsípanísnum bætt ofan á. Þá er hinn botninn tekinn varlega úr forminu og hann settur ofan á marsípanísinn. Að lokum er súkkulaðiísinn settur ofan á allt saman. Þetta er svo sett í frysti. Þegar kakan er tekin fram er gott að láta hana þiðna í hálftíma áður en hún er borin fram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert