Andrew Parkinson eldar á Kolabrautinni

Andrew Parkinson eldar á Kolabrautinni.
Andrew Parkinson eldar á Kolabrautinni.

Það verður mikið um dýrðir á veitingastaðnum Kolabrautinni í Hörpu laugardagskvöldið 19. janúar en meistarakokkurinn Andrew Parkinson frá Fifteen Foundation í Lundúnum mun töfra fram kræsingar til styrktar Unglingastarfi SÁÁ, UNG SÁÁ. Á kvöldverðinum munu flestir af fremstu framleiðslumönnum Íslands koma og þjóna til borðs.

„Við fengum Fifteen Foundation í London til samstarfs við okkur af þessu tilefni. Jamie Oliver stofnaði veitingastaðinn Fifteen árið 2002 með það að markmiði að gefa ungu, atvinnulausu fólki tækifæri til bjartari framtíðar. Frá Fifteen kemur yfirmatreiðslumeistarinn Andrew Parkinson ásamt tveimur matreiðslumönnum og vínþjóni sem taka til hendinni í eldhúsinu og salnum og töfra fram kræsingar,“ segir Leifur Kolbeinsson, framkvæmdastjóri Kolabrautarinnar. Hann segir að allir sem koma að þessum kvöldverði gefi vinnu sína. „Fyrirtækin leggja til hráefni og drykkjarföng og allur ágóði rennur óskiptur til UNG SÁÁ.“

Veislustjóri er Andri Snær Magnason og Þórir Baldursson sér um tónlist. Flestir af fremstu framreiðslumönnum Íslands koma og þjóna til borðs. Verðið er 15.000 krónur á manninn og heldur Arion banki utan um söfnunina. Styrktaraðilar eru Harpa, RJC, Globus, Ölgerðin, Ekran, Bananar, Sjófiskur, Kjarnafæði, Galleri i8, Arion banki, Andri Snær Magnason, Þórir Baldursson, Kolabrautin og Frú Lauga.

Matseðill

Forréttur

Rauðrófuleginn lax með rauðsalati, fenniku, kapers, klettakáli og sítrónuaioli.

Villa Antinori Bianco '11

Pasta

Hvítt risotto með bláberjum, Poli grappa, villisveppum, parmesan og jómfrúarolíu

Villa Antinori Bianco '11

Aðalréttur

Porchetta krydduð með lárviðarlaufi, rósmaríni og hvítlauk, borin fram með steiktu vetrargrænmeti, jarðsveppa- og seljurótarkremi og grænni sósu.

Matua Pinot Noir '10

Eftirréttur

Amedei-súkkulaðitríó

Taylor's LBV '03

Leifur Kolbeinsson og Þráinn Freyr Vigfússon yfirkokkur á Kolabrautinni.
Leifur Kolbeinsson og Þráinn Freyr Vigfússon yfirkokkur á Kolabrautinni.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert