Parmaskinku-kjúklingabringur

Ástríðukokkurinn Óskar Finnsson eldar girnilegar kjúklingabringur í þættinum Korter í kvöldmat. Réttirnir hans Óskars eru einfaldir, fljótlegir og bragðgóðir. Í þessum fyrsta þætti sýnir hann hvernig hann matreiðir kjúklingabringur með gorgonzola og parmaskinku.

Þættirnir verða sýndir vikulega á mbl.is og svo verður þeim fylgt eftir í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins þar sem hann nýtir afgangana í fleiri girnilega rétti.

Uppskrift fyrir fjóra

Við byrjum á því að skola kartöflurnar vel og sjóða þær svo í 15-20 mínútur. Því næst þarf að hita ofninn upp í 220°

Á meðan kartöflurnar sjóða tökum við eina kjúklingabringu og setjum í plastpoka til að banka hann. Það er þrifalegra að nota pokann, auk þess kemur það í veg fyrir að bringan springi. Kjúklingurinn er barinn með kjöthamri eða kökukefli þar til bringan er orðinn þunn. Galdurinn við góða steikingu er að kjúklingurinn sé allur jafn þunnur og þynnsti hlutinn af bringunni. Þetta er endurtekið með allar bringurnar.

Pokinn er ristur upp og bringan er smurð með þykku lagi af osti. Eða eins þykku og þið viljið hafa. Hér er notaður gorgonzola ostur en uppskriftin virkar einnig vel með öðrum ostagerðum eins og hvítmygluosti, gráðaosti eða parmesanosti.

Hyljið ostinn með 2-3 sneiðum af parmaskinku og þrýstið létt á. Hitið pönnu með olíu. Best er að hafa hitann stilltan á um 70% af styrk hellunnar, ef hitinn er of hár brennur skinkan. Því næst eru bringurnar settar á pönnuna með skinkuhliðina niður, en þær þurfa að snúa þannig um 60-70% af eldunartímanum svo að skinkan verði stökk og góð. Heildartími á steikingunni er um 5-6 mínútur, en lítið mál er að skera í kjúklinginn til að fullvissa sig um að hann sé eldaður í gegn.

Þegar kartöflurnar eru nánast soðnar er vatninu hellt af þeim og þær settar í eldfast mót með olíu í botninum. Þrýstið ofan á kartöflurnar með spaða þannig að þær springi aðeins, kryddið þær með salti, pipar og rósmaríni og setjið olíu yfir. Með því að þrýsta á kartöflurnar á þennan máta drekka þær betur í sig bragðið af olíunni og kryddinu, og verða stökkari fyrir vikið.

Bakið í ofni í um 10-15 mínútur, eða þangað til kartöflurnar eru orðnar stökkar.

Kjúklingurinn má vel standa í 5-6 mínútur eftir að búið er að steikja hann og verður jafnvel betri fyrir vikið.

Með þessum rétti þarf enga sósu, því bráðinn osturinn kemur í staðinn fyrir hana.

Sjáðu uppskriftirnar úr Sunnudagsblaði Morgunblaðsins hér

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert