Þekkt er kenningin um að menn eigi ávallt að taka þolæfingu í bítið á fastandi maga, þannig sé fitubruninn mestur. Sumir heilsugúrúar ganga svo langt að segja að það sé eina leiðin til að brenna fitu, annað sé í raun tímasóun. Ástæðan er að þegar líkaminn ert fastandi og glúkósabirgðir eru lágar mun líkaminn leita í auknum mæli í fitubirgðirnar til að ná í orku. Þ.a.l. muntu brenna meiri líkamsfitu þegar þú æfir á fastandi maga. Einnig hækkar insúlín í blóðinu þegar þú neytir kolvetna og insúlín er hormón sem hvetur til fitusöfnunar. Samkvæmt þessu ætti þá líkaminn frekar að safna á sig fitu ef smá snarls er neytt fyrir æfingu, sérstaklega þá ef það er ríkt af kolvetnum. Nýlegar rannsóknir draga þessa kenningu í efa.
Gallinn við að hlaupa á fastandi maga.
Rannsóknir sýna að ef þú borðar kolvetnaríka fæðu áður en þú æfir með lítilli ákefð s.s. í röskri göngu eða skokki, muntu brenna minni fitu en þú myndir gera ef fastandi. En athyglisvert er að komið hefur í ljós að áhrifin virðast önnur hjá vel þjálfuðu fólki sem æfir á meðal álagi eða miklu álagi.
Óþjálfaðir spara fituna.
Þegar fólk í góðu líkamlegu formi æfir á 65% af hámarks súrefnisupptöku eða hærra, sýna rannsóknir að líkami þeirra takmarkar ekki nýtingu fitu sem orkugjafa. Líkami fólks sem er óþjálfað virðist hinsvegar bregðast við með því að spara fitu. Þetta bendir til þess að þegar þú hefur náð ákveðnu líkamsþreki hefur morgunverður fyrir æfingu ekki neikvæð áhrif á getu líkama þíns til að nota fitu sem orkugjafa við æfinguna.
Afhverju er betra að borða morgunverð?
Það fylgja því tvímælalaust kostir að taka þolæfingu eftir morgunverð. Nýleg rannsókn sýndi fram á að einstaklingar sem borðuðu fyrir meðalerfiða þolæfingu brenndu fleiri heildar hitaeiningum allan daginn að æfingu lokinni. Það er jafnvel enn meiri ávinningur af því að borða fyrir æfingu ef þú æfir af mikilli ákefð eða tekur erfiða spretti með hléum á milli (interval þjálfun). Þegar þú æfir af miklum krafti í stuttum lotum fer líkaminn í loftfirrt ástand í smá tíma. Slík þjálfun þarfnast kolvetna sem orkugjafa. Ef kolvetnabirgðir eru lágar muntu ekki geta æft af eins miklum krafti. Það þýðir minni heildar hitaeiningabrennsla og minni heildar fitubruni ef þú hefur svo til tæmt glíkóogen birgðirnar .
Erfiðar æfingar í stuttan tíma krefjast þess að líkaminn nýti kolvetni sem orku og hann fer í súrefnisskuld. Það þýðir að líkaminn mun brenna meiri orku klukkustundum saman eftir að æfingunni lýkur (eftirbruni). En ef kolvetnabirgðirnar eru nærri tómar hefur þú minni orku og nærð ekki toppunum á æfingunni og ávinningur verður minni fyrir vikið.
Þetta segir okkur það að ef þú ert í góðu formi og tekur vel á því á æfingu græðir þú lítið á að æfa á fastandi maga. Í raun tapar þú á því ef þú ætlar að æfa af miklum krafti og ná loftfirrðu toppunum. Hollur morgunverður ríkur af flóknum kolvetnum eykur orkuna og gerir þér kleift að ná hæstu hæðum í þinni þjálfun.
Í hnotskurn.
Ef þú ætlar að taka létta "hvíldar" æfingu að morgni til nærðu meiri fitubruna með því að æfa á fastandi maga. Ef þú hyggst æfa af krafti skaltu borða litla morgunmáltíð samsetta úr flóknum kolvetnum og fitulitlu prótíni, u.þ.b. 1-2 klst fyrir æfinguna. Góður kostur er t.d. hafragrautur lagaður með Fjörmjólk, eða gróf brauðsneið með harðsoðnu eggi. Þér mun líða betur og munt hafa mun meiri orku.