Þeir sem eru í baráttunni við aukakílóin kannast margir við það að hafa hamast og svitnað í ræktinni mánuðum saman og bætt mataræðið til muna en allt kemur fyrir ekki, leiðinda aukakílóin vilja ekki burt. Ástæðan gæti verið sú að þú ert ekki að borða eins hollt eins og þú heldur. Oft er það svo að fólk tekur ekki eftir feluhitaeiningum sem leynast víðast hvar og safnast saman og koma í veg fyrir að þú náir að losna við ergilegu aukakílóin.
Er salatið þitt fitugildra?
Salat getur verið allt frá því að vera fullkomin hitaeiningasnauð hollusta í það að innihalda yfir 1000 he. Spáðu í hvað er í salatinu þínu. Þegar búið er að skella osti, steiktum brauðmolum, hnetum, salatsósu og jafnvel beikoni (halló!) eru líkur á því að hitaeiningamagnið sé komið langt yfir æskilegt magn. Dæmigerð salatsósa inniheldur yfirleitt á bilinu 60-100 he pr. matskeið og oft og iðulega er salatið löðrandi í sósu. Fáðu sósuna í sér íláti og dýfðu gafflinum í sósuna áður en þú stingur í salatið. Takmarkaðu ostinn og hneturnar og slepptu steiktu brauðmolunum og beikoninu.
Sósur - lúmskar hitaeiningar
Sósur eru ekta feluhitaeiningar. Þegar þú t.d. borðar á veitingastöðum geta sósurnar auðveldlega bætt 200-300 auka hitaeiningum við máltíðina. Sumir sjá fisk á matseðlinum og reikna með því að hann sé fitusnauður og góður kostur en ef hann kemur syndandi í smjöri á disknum ertu að innbyrða óþarflega margar hitaeiningar. Vertu meðvituð/aður um hvernig maturinn er matreiddur og enn og aftur biddu um sósuna í sér íláti svo þú hafir stjórn á magninu.
Drykkir eru líka kaloríur
Kaffi er hitaeiningasnautt þar til þú bætir út í það mjólk og sykri. Ýmsir kaffidrykkir innihalda fullt af hitaeiningum. Margir hreinlega hugsa ekki út í það að drykkir innihaldi hitaeiningar. Finnst að það séu aðeins kaloríur í því sem er fast undir tönn. Mjólk, safar, áfengir drykkir og sumir kaffidrykkir geta auðveldlega orðið drjúgur hluti af hitaeiningafjöldanum sem þú innbyrðir daglega. Kynntu þér hitaeiningamagn í þeim drykkjum sem þú neytir.
Viðbit
Majónes á samlokur og hamborgara og jafnvel tómatsósa geta bætt heilmikið af hitaeiningum og sykri við matinn þinn. Matskeið af majónesi inniheldur allt að 100 he. Tómatsósa inniheldur u.þ.b. 20 he í matskeið en fullt af sykri. Margir nota auk þess mun meira en 1 matskeið. Þú sérð að hitaeiningarnar geta fljótt hlaðist upp.
Nart hér og nart þar
Hver kannast ekki við að stinga upp í sig matarbita hér og þar yfir daginn. Smakk í matvöruverslunum, smá smakk þegar þú ert að elda, litlir kökubitar í vinnunni o.s.frv. Slíkt nart telur en margir gleyma að taka það með í reikninginn. Næstum allt sem fer ofan í maga inniheldur hitaeiningar, nema vatn, svart kaffi og ósætt te. Vertu meðvituð/aður um heildar neyslu þína.
Vert þú við stjórnvölinn
Taktu eftir hvernig maturinn þinn er matreiddur og hvað fer í salatið þitt, sérstaklega þegar þú borðar á veitingastöðum. Fylgstu með hvað þú drekkur og ekki gleyma þér í smá narti. Smá smakk hér og þar getur hlaðist upp í hitaeiningafjölda heillar máltíðar ef þú ert ekki að fylgjast með.
Viltu prófa að æfa í Hreyfingu frítt? Farðu á www.hreyfing.is og smelltu á "Frír prufutími"