Fréttum rignir yfir okkur íslendinga að við fitnum stöðugt og erum nú næst feitasta þjóðin á eftir bandaríkjamönnum. Algengt er að fólk bæti á sig allt að þrem aukakílóum á ári og má í mörgum tilfellum rekja 50-60% þeirra til óhóflegrar neyslu í desember. Á 5 ára tímabili geta aukakílóin orðið 10-15 og þá orðin stærri vandi með auknum líkum á ýmsum lífsstílstengdum sjúkdómum.
Jólin koma ár
hvert með tilheyrandi veisluhöldum og skal engan undra þótt við bætum á okkur kílóum
yfir hátíðarnar. Jólahlaðborð, smákökubakstur, konfektgerð, laufabrauð og
svo auðvitað sjálf jólasteikin, jólaboðin, heimalagaði rjómaísinn, áramótin og
allt sem hátíðinni tilheyrir. Jólin hafa þróast í það að verða ein allsherjar
neysluveisla. En lítum á björtu hliðarnar, jólin eru ekki komin og það er
enn tími til að fyrirbyggja gremjuleg „jólakíló".
Hér eru 5 góð ráð til
að halda sér í fínu formi í desember.
1. Gættu hófs.
Skammtastærðirnar skipta mestu máli þegar kemur að þyngdarstjórnun. Fylgstu með magninu sem fer inn fyrir þínar
varir.
Það er sjálfsagt að smakka á spennandi kræsingum en mundu
eftir þrjá konfekt mola að þeir smakkast allir líkt. Svo fáðu þér einn
mola og njóttu bragðsins og félagsskaparins.
2. Gefðu þér tíma til að stunda þjálfun
í desember.
Það er alltaf tími fyrir líkamsrækt ef áhuginn er fyrir hendi. Þó að nóg
sé að gera í jólaundirbúningi getum við skipulagt tíma okkar þannig að líka er
rúm fyrir þjálfun. Hluta af hinni dæmigerðu jólaþyngdaraukningu má
rekja til of lítillar hreyfingar í desember. Taktu t.d. styttri
æfingar með mun meiri ákefð, þannig eru líkur á að þú fáir jafn mikið út úr 30
mín. æfingu og þinni venjulegu 60 mín æfingu.
3. Borðaðu reglulega
Fyrir jólin eru flestir á þönum meira en venjulega. Það getur haft
afar neikvæð áhrif á neyslumynstur fólks. Það geta liðið margar
klukkustundir á milli máltíða sem oftar en ekki veldur því að borðað er
óhóflega síðari hluta dags og fram eftir kvöldi. Sumir sleppa máltíð af
ásettu ráði til að „spara sig" áður en þeir fara í jólahlaðborð. Vandinn
við það er að við slíkar aðstæður verður fólk yfirmáta hungrað og þegar
það loks kemst að hlaðborðinu halda þeim engin bönd og þeir borða allt of
mikið. Betra er að hafa til taks hollt nasl eins og næringarstöng, hnetur,
ávexti eða þ.h. til að grípa í þegar annríkið er mikið.
4. Hugsaðu fram á við.
Hvernig var það í fyrra? Gastu varla
rennt upp buxnaklaufinni eftir jólin? Hugsum fram á við, komum í veg fyrir að
við vöknum upp við "vondan draum" í janúar þegar við komumst að því að buxnastrengurinn
er orðinn óþægilega þröngur. Þjálfun í
30 mínútur á dag og „allt er best í hófi" eru góðar lífsreglur yfir hátíðarnar
og vittu til ef þú nýtur ekki ávinnings þeirra strax í desember þá er öruggt að
þú nýtur þeirra í janúar.
5. Breyttu áherslum
Spáðu í það
hvort þú getir ekki notið hátíðarinnar jafn vel og áður þó að þú bakir færri
smákökusortir, setjir minna á diskinn þinn, borðir lítið af gotteríi og
eftirréttum og leggir meiri áherslu á að njóta samverunnar við fjölskyldu og
vini og finna hátíðleikann í gegnum aðra hluti en veislumat og kræsingar. Hátíðlegir jólaviðburðir án matar s.s.
jólatónleikar, jólaföndur o.fl. geta komið í staðinn fyrir konfektgerð og
kökubakstur. Hafðu jólin þín í ár að
hátíð ljóss og friðar en ekki neysluhátíð
fyrir allan peninginn. Þú velur
og þú uppskerð samkvæmt því.
Ef þú ert staðráðin í því að sitja ekki uppi með óvelkomin „jólakíló" í ár hvet ég þig til að kynna þér „Jólakíló" nei takk